KVENNABLAÐIÐ

Dalalæður og morgundögg

Ég er nátthrafn. Og hef alltaf verið. Finnst gott að vera á fótum þegar heimurinn sefur. Langar alltaf út í göngutúr, sérstaklega þegar vorið er komið. Þegar þessi sérstaka íslenska sumarnætur-birta hvílir yfir heiminum mínum. Og hef látið það stundum eftir mér.

Þetta á rætur sína að rekja til æsku minnar.

Fjölskylda mín ferðaðist mikið um landið þegar ég var barn og það var tjaldað í afdölum og hálendi, hér og þar. Skreppitúr út að pissa, á björtum sumarnóttum. Hljóðið í tjaldrennilásnum var það eina sem rauf þögnina. Og einstaka hrota í pabba mínum. Á nærbuxunum, í lopapeysu og stígvélum, læddist ég inn í runna eða á bak við stein, með kuldahroll og tannaglamur og reyndi að pissa ekki á fæturna né verða blaut á rassinum undan dögginni á háu grasinu. Hlustaði á hrossagauk sem hló í fjarska og spóa sem röflaði úti í mýri.

Mamma las upp úr vegahandbók í bílnum og við systurnar, sem ólumst þess utan upp í höfuðborginni, lærðum á landið okkar. Fjallanöfn og áttir, firðir, dalir, vötn og ár. Og allar álfa- og draugasögurnar sem fylgdu hverjum stað. Oft voru amma og afi líka með og það var þröngt á þingi aftur í.

En afi minn, hann kunni meira en álfasögur. Hann var skáld. Og kunni vísur um hina og þessa sveitina. Hann þekkti líka alla út um allt land og týndist stundum. Og fannst þar sem hann sat í kaffi hjá ókunnugu fólki. Og saug mola. Og talaði við alla sem hann hitti. Hann var uppáhald. Með gulum fingrum, eftir Camel retturnar sem hann reykti þar til glóðin hvarf inn fyrir varirnar á honum, spilaði hann stundum á fiðlu. Og samdi ljóð og vísur um okkur krakkana.

Ég sé hann fyrir mér gangandi um holt og hæðir, íklæddur svörtum jakkafötum og hvítri skyrtu. Á heitum sumardögum hélt hann á jakkanum. Hann var virðulegur. Hvort sem hann var heima, í vinnu eða í tjaldútilegum. Með snakahvítt hárið vatnsgreitt aftur, í jakkafötum og svörtum regnfrakka…og gamaldags skjalatösku. Mér þótti hún ákaflega dularfull. Ég vissi aldrei hvað var í henni.

Amma mín, fámál og mjúk með fjallstór brjóst sem gott var að kúra hjá. Hún kunni að baka hálfmána með sultutaui inní. Og hafði lúmskan húmor sem fáir fengu að vita af. Og þegar hún hló, ískraði lágt í henni og hún hristist öll. Og felldi gleðitár. Við vorum vinkonur. Labbaði til hennar í vinnuna á stuttum fótum og sagði henni að Elvis væri dáinn. Sat langtímum saman í bakherberginu í afgreiðslunni og drakk kókómjólk úr hyrnu og át snúða úr bakaríinu. Spjallaði við Ólu ömmu.

Mér leið eins og heima hjá mér þegar ég fór í sveitina fyrst.

Systir mín var orðin góð og gild vinnukona þarna í sveitinni, alveg að verða 15 ára, en ég fór þangað bara í pössun. Fyrst fannst mér skrítið að sjá hvorki fjöll né sjó, á víðáttumiklu undirlendinu. En svo fór að glitta í fjöll í fjarska þegar ég vandist því.

Mér var falið það verk að brynna dýrunum úti á túni og sækja kýrnar. Vaknaði fyrir allar aldir og gekk í morgunmistrinu út á tún og hlustaði á heiminn í svefnrofunum. Dalalæðan smokraði sér á milli fóta mér í hverju skrefi og morgundöggin glitraði í morgunsólinni eins og nýpússaðir demantar. Þetta var uppáhaldstíminn minn.

Ég ánetjaðist sveitinni minni strax. Mjaltir, moka flórinn, ríða berbakt á Gusti og heyskapur. Engar hvítplastaðar heyrúllur sem liggja eins og upprúllaðar, óhreinar bleyjur um öll tún. Heldur alvöru baggar. Sem þurfti að tína upp með handafli. Heimalningar sem fengu stundum að koma inn í eldhús og fengu pelasopa. Ég eignaðist tvo á þessum árum mínum í sveitinni. Gimbrar sem fengu nöfnin Ósköp og Skelfing. Ekki spyrja mig af hverju, því ástæðan er löngu gleymd.

Heimilisfólkið í sveitinni varð mín önnur fjölskylda og ég varði næstu sumrum og öllum skólafríum sem ég gat, á Uxahrygg. Fór sjálf með rútunni úr bænum til að fara „heim“. Heim til Krissu, sem elti okkur krakkana með ryksugustútinn á lofti þar til við næstum pissuðum á okkur úr hlátri. Til Magga, sem gaf mér sarpinn úr gæsinni og sagði mér að þetta væri besti bitinn. Og hellti lýsi í laumi yfir sígaretturnar okkar þegar við vorum að fikta við að reykja.

Og Fríðu gömlu, sem bakaði flatkökur á eldavélahellunni og átti bráðnaða fötu sem gleymdist á eldavélinni. Og Guðmundar afa sem var með holu í beinaberu handarbakinu eftir margra ára neftóbaksnotkun. Og allra litlu krakkanna sem ég leit á sem litlu systkini mín.

Allar þessar minningar verða mér lifandi eftir klukkan 3 á sumarnóttum. Það er tært loftið sem vekur þær.

Þegar svali næturinnar hefur hreinsað gærdaginn í burtu og hægt er að anda að sér ferskri von um betri tíð. Óskilgreind tilhlökkun og fiðrildi í maganum. Þetta er Paradísin mín. Hún býr í gömlu skjalasafni hugans, sem opnast bara á ákveðnum tímum. Og morgundögg og dalalæða eru lykillinn.

Ég er ekki eingöngu mótuð af illa fenginni reynslu heldur einnig af öllu því fólki sem markaði djúp spor sín í hjarta mínu. Fólkinu sem hjálpaðist að við að smíða Paradís handa mér.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!