KVENNABLAÐIÐ

Kæra Deitbók: „Stjórnaðu mér“

Það er grenjandi rigning í borginni og ég hleyp til að forðast að klukkutíma hárgreiðslubras og förðun fari ekki með rigningunni niður í niðurfallið.  Ég stoppa og lít við þegar ég heyri kallað: „Vaka, ert þetta þú?“  Þarna stendur hann svo flottur.  Ég svara því játandi; að ég sé ég og segir hann mér að ég sé enn fallegri í raunveruleikanum en á myndum.  Ég bráðna.  Hvernig gat þessi dásamlega fallegi maður farið svona fram hjá mér?  Hann hafði bætt mér við á Facebook fyrir löngu síðan en við höfðum aldrei talast við og við þekktumst ekkert.  Rigningin gefur okkur ekki færi á miklum samræðum þarna en við ákveðum að vera í bandi og forðum okkur í sitt hvora áttina.  Allt kvöldið hugsa ég um hann, dáleidd eftir bara eitt lítið augnsamband.

Við förum saman út að borða, hann nær í mig stundvíslega og tekur reikninginn eins og algjör herramaður.  Hann segist búa nálægt og spyr hvort ég vilji einn kaffibolla heima hjá honum, sem ég samþykki, enda var kvöldið dásamlegt.  Þegar heim til hans er komið spjöllum við aðeins og endum síðan saman uppi í rúmi á fyrsta deiti og vinkonur mínar segja mér að ég hafi með því klúðrað dæminu.  Það var ekki planið að gera það á fyrsta deiti og ég reyni að segja við hann að ég ætti að koma mér heim en læt síðan eftir.  Augu hans er dáleiðandi og það er bara ekki hægt að segja nei út af einhverju prinsip atriði.

Hann er sterklega byggður og kynlífið er eftir því og rúmlega. Hann er harðhentur, smá blíður inn á milli, en oft þannig að hann einfaldlega meiðir mig. Hann beyglar mig langt út fyrir teygjumörk liðbandanna og heldur mér niðri harðri hendi. Þegar hann spyr mig hvort hann hafi meitt mig eftir að ég gaf frá mér hljóð sem gaf það sterklega til kynna, fær það mig til að hugsa að hann sé ekki að meiða mig viljandi. Ég segi að þetta sé allt í lagi, þó haldandi að hann taki því kannski aðeins rólegra eftir það, en svo er ekki.

Þegar þetta er afstaðið og við erum búin að liggja í smá stund í rúminu að spjalla saman geri ég mig tilbúna til að fara. Hann biður mig um að vera áfram og segir að hann vilji kúra með mér.  Hann heldur blítt utan um mig, strýkur mér um hárið og er allt í einu svo ljúfur og góður. Hver ertu eiginlega? Já ok, ég skal kúra hjá þér í nótt.

Ég vakna á undan honum svo ég hleyp inn á baðherbergi, mála mig smá og laga og fer síðan aftur upp í rúm og læt eins og ég hafi bara vaknað svona. Aldrei gert þetta áður, en ég er bara ekki tilbúin til að leyfa honum að sjá hvernig ég lít út í raun og veru þegar ég vakna. Vá, hvað mér er illt í bakinu samt, mér líður eins og ég hafi dottið niður stiga hérna. Ég held ég þurfi að vera duglegri við að mæta í jóga því ég er klárlega ekki svona liðug.

Hann útbýr fyrir mig morgunmat og enn í dáleiðslu hugsa ég hvort þetta hafi ekki bara verið svona þetta eina skipti. Það getur ekki verið að við, með þessa tengingu, skulum ekki geta átt kynlíf sem er gott fyrir okkur bæði.

Ok, reynum á þetta aftur.  

Vá! Það var verra, en ég hlýt að verða ofurliðug við þessar stanslausu teygjuæfingar. Hvaðan kemur þessi marblettur?

Ég held áfram að hitta hann og reyni að segja eitthvað til að hann taki því aðeins rólegra en kynlífið þróast meira í hina áttina. Hann einhvern veginn gengur lengra og lengra í því að meiða mig, en er alltaf jafn blíður og góður utan kynlífsins. Þessi færsla ætti í rauninni að enda á því að ég gangi í burtu, eða segi honum að ég sé ekki fyrir svona ofbeldisfullt kynlíf, en það er hann sem sparkar mér. Hann segist ekki vera tilbúinn í samband þó ég hefði aldrei gert neina kröfu um það. Þetta einhvern veginn þróaðist bara þannig að við urðum strax eins og við værum saman og hittumst nánast á hverju kvöldi.

Ég naut þess að vera með honum, naut þess að kúra með honum og tala við hann og við áttum margar notalegar stundir saman, en þegar kom að kynlífinu þá hefði eiginlega verið fáránlegt af mér að bara taka einhverju sem er alls ekki að virka fyrir mig. Sumir eru fyrir svona en ekki ég. Mér finnst skemmtilegra að taka þátt í kynlífi en að vera stjórnlaus dúkka. Ég bara gat ekki sagt það almennilega við hann.  Augun hans lokuðu á mér munninum og ég vildi ekki missa hann þó að þarna var eitt stórt atriði alls ekki í lagi.

Þegar ég síðan hugsa til baka átta ég mig á því að ég hafi aldrei fengið fullnægingu með honum.  Hann lagði sig einfaldlega ekkert fram við að sinna mér kynferðislega og þegar við töluðum saman, snérust umræðurnar mun meira um hann en mig. Ég veit að ég á betra skilið. Ég varð hissa á sjálfri mér hversu undirgefin ég varð og ófær um að segja vilja minn bara vegna þess að ég var svo hrikalega skotin í honum af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Ég bara þráði hann þrátt fyrir allt.

Við tölumst ekki við í smá tíma en það kemur að því að hann hringir í mig, segist sakna mín og ég hitti hann aftur eins og hlýðni hvolpurinn sem ég er. Já, ég er ekki alveg í lagi. Það góða við það að ég hitti hann aftur er þó það að ég fæ nóg. Hann snýr upp á hendina á mér á meðan við stundum kynlíf þannig að það virkilega meiðir mig. Þegar ég losna úr þessu fasta taki er mér svo misboðið að ég slæ hann utan undir. Við það brosir hann bara. Hann meiðir mig ekki óvart, hann nýtur þess.

Þegar ég labba út þrátt fyrir að hann hafi beðið mig að vera hjá honum um nóttina, finn ég hvernig viljastyrkur minn kemur aftur. Nú er þetta búið.  

Næst þegar hann hringir í mig segi ég NEI og finn hvernig ég innilega meina það. Þegar hann hringir aftur og síðan aftur segi ég aftur NEI.

Ég er laus úr dáleiðslunni og ég veit að ég þarf að læra að standa upp fyrir sjálfri mér í framtíðinni.

Þín, –

Vaka Nótt

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!