KVENNABLAÐIÐ

Missum ekki af tímanum með börnunum

Hver kannast ekki við að hafa átt stóra drauma um börnin sín þegar hugað var að barneignum eða á meðgöngu. Ég ætlaði t.d. að kenna mínum börnum annað tungumál strax frá byrjun, fara með þau á söfn og standast ágang plast- og kynjaðra leikfanga.

En svo, 11 árum seinna, kemst maður vart inn í barnaherbergið fyrir plastleikföngum, barnið byrjaði bara að læra ensku í skólanum á sama tíma og hinir og safnaferðir hafa verið mest megnis verið á hendi leikskólans og grunnskólans. Hvað gerðist?

Ætli maður hafi ekki fallið í sömu gryfju og margir aðrir, fjölþætt hlutverk foreldra eru svo krefjandi að stundum virðist tíminn bara fljúga áfram. Það er ekki auðvelt að hlaupa á milli hlutverka: mamma (eða pabbi), nemi, starfsmaður, vinkona og svona getur listinn haldið áfram. Stundum finnst manni að allt sé bráðnauðsynlegt sem maður tekur sér fyrir hendur – finnst hálfpartinn að einhver standi með byssu við hnakkann á manni og skipi manni fyrir.

En bíðum nú aðeins við… hver heldur á byssunni annar en við sjálf? Auðvitað þurfum við að geta séð okkur farborða en hvað með hin hlutverkin sem okkur finnst við verða að sinna? Þurfum við ekki að vera duglegri við að velja og hafna þegar kemur að tíma okkar, ekki síst þeim sem snýr að börnunum?

Margt gott að gerast, þrátt fyrir allt

Við berum ábyrgð á valinu og því er gott að vanda valið. Og svo má ekki gleyma því að það er aldrei of seint að breyta venjum sínum eða valinu. Ég hef t.d. ákveðið að segja plastdótinu stríð á hendur, og fá börnin með mér í lið, þau eru líka að drukkna í dótinu! Hvort maður fer með börnin á söfn, eins og draumurinn var, þarf að fara eftir áhuga þeirra og eirð – og kannski er ágætt að byrja bara á bókasafnsferðum.

Ætli maður að afla sér gagna um allt sem maður gerði ekki, eða mistókst að gera, er ekki nema sanngjarnt að afla líka gagna um það sem maður þó gerði og það sem vel gengur!

Þó svo að háleit markmið hafi ef til vill orðið rykinu að bráð er án efa margt annað gott að gerast. Sjálf hef ég t.d. lesið með mínum börnum bækur um list ætlaðar börnum, farið með þeim í húsdýragarðinn og náttfatasund (en það er þegar maður fer eftir kvöldmat og svo beint í náttfötin á eftir).

Aldrei of seint . . .

Að auki er aldrei of seint að taka upp nýjar venjur. Fjölskylduhefðir styrkja fjölskylduböndin og þær þurfa ekki að vera flóknar. Krökkum finnst gaman að taka þátt í (vissum) húsverkum, hægt er að elda saman eitt kvöld í viku eða hafa kósíkvöld þar sem fjölskyldan spilar saman, les eða horfir á skemmtilega bíómynd.

Þegar upp er staðið eru það þessar stundir í faðmi fjölskyldunnar sem við foreldrarnir og börnin búum að og sem skapa minningar sem styrkja okkur á erfiðum tímum. Að mynda traust samband við börnin sín hjálpar þeim að standa sterk í fjölbreyttum og krefjandi nútíma sem og í framtíðinni. Og það hjálpar þeim líka að skapa sínar eigin fjölskylduhefðir þegar þar að kemur.

Leyfum ekki lífinu að þjóta hjá í grámyglu hversdagsleikans, drögum bara fyrir gluggann, slökkvum á fréttunum og fíflumst með börnunum!

Hláturinn lengir lífið.

Jenný Ingudóttir
verkefnisstjóri hjá Lýðheilsustöð og móðir

Umfjöllun þessi er fengin af vef Landlæknis og birtist með fengnu leyfi:

landlæknir

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!