KVENNABLAÐIÐ

S V A L A D R Y K K U R: Ískalt kamillu- og myntuvatn með ferskum kardimommubaunum

Hér er komin ein skemmtileg hugmynd; svalandi kamillu- og myntuvatn með keim af kardimommufræjum, sem geymt er í kæli í u.þ.b. sólarhring áður en jurtirnar sjálfar eru síaðar frá og bragðbættu vatninu er hellt í upphátt glas.

Vatn er dásamlegur svaladrykkur og fátt er skemmtilegra en bragðbætt vatn, en það er alger misskilningur að einungis hefðbundir sítrusávextir megi fara út í vatnskönnuna. Í raun er hér um ískalt kamillu- og myntute að ræða, en í stað þess að festa kaup á tilbúnum, innpökkuðum og (Guð má vita hversu gömlu) tepokum í matvöruhillunni – getur þú líka farið í næstu heilsuverslun, keypt þurrkuð kamillublóm og bætt ferskri myntu út í blönduna.

chamomile_dried

Kardimommufræin er hægt að mala í lítilli kvörn og bæta út í vatnið, en jurtirnar og kardimommumulningurinn er allt síað frá áður en vatnið er drukkið. Ágætt er að hella vatninu fyrst gegnum grófa síu og svo fínsía vatnið gegnum tesíu – ef örður sitja eftir í dísætu og tæru jurtavatninu. Blandan er róandi og sefar – en eins og segir að ofan, ætti að geyma blönduna í ísskáp í sólarhring áður en vatnið er drukkið.

MINT_CLOSE

U P P S K R I F T:

Hnefafylli af þurrkuðum kamillublómum

Hnefafylli af ferskum og fínt skornum myntulaufum

Örlítið magn af kardimommufræjum – möluð í matar / kaffikvörn

1 líter af vatni

L E I Ð B E I N I N G A R:

Fyllið ágæta könnu af vatni – sem rúmar að minnsta kosti 1 líter – bætið jurtablöndunni út í og látið standa í kæli í sólarhring. Síið jurtablönduna frá áður en hellt er í glas. Drykkurinn hentar þannig vel á sunnudagsmorgni, því er ekki úr vegi að krækja í þurrkuð kamillublóm í hádeginu og læða inn í kæli snemma laugardags – og ekki gleyma að njóta.