KVENNABLAÐIÐ

Svona gerir þú ósvikið Edgar Cayce Lotion í eldhúsinu heima

Ég var ekki há í loftinu þegar ég fann íslenskaða bók um líf og störf Edgar Cayce, sem var dámiðill og gaf alla sína lestra í djúpum dásvefni. Það er ekki ætlun mín að tíunda störf og lækningaformúlur Cayce hér í þessum pistli; olíukenndur áburðurinn sem Cayce gaf upp einhverju sinni meðan á dásvefni stóð er erindi mitt í þetta skiptið.

Gamla Apótekið framleiddi um tíma, Edgar Cayce olíuna en tók af markaði eftir einhvern tíma og það af orsökum sem mér eru ókunnar. Margir telja að Eilíf Æska (sem langamma mín dásamaði) sé sama formúlan og Edgar Cayce Lotion, en það mun á misskilningi byggt. Þetta er ekki sama olíublandan – en hins vegar er uppskriftin sáraeinföld og hana má hæglega gera í eldhúsinu heima með litlum tilkostnaði og tekur bara örfáar mínútur. Ég geri olíublönduna oft sjálf og geymi í kæli, en rósavatn má fá í náttúruvöruverslunum.

Edgar Cayce Lotion – Uppskrift

2 dl – Hnetuolía

½ dl – Ólívuolía

½ dl – Rósavatn

1 msk brætt Lanolin

Byrjið á því að bræða Lanolin (ullarfitu) í lítilli skál yfir vatnsbaði. Hellið öllum innihaldsefnum saman í litla flösku (með tappa) og hellið bráðinni ullarfitu saman við innihaldið. Setjið því næst tappann á flöskuna og hristið vel. Blandan er nú tilbúin. Ágætt er að láta áburðinn standa í kæli, þar sem olíublandan inniheldur engin rotvarnarefni og getur því hæglega þránað; að geyma blönduna í kæli eykur geymsluþolið.

Best er að bera olíublönduna á hörundið strax að loknu baði, en varist að blandan er feit og því er best að bera Edgar Cayce Lotion á húðina rétt áður en farið er að sofa. Byrjið á axlarsvæðinu og vinnið ykkur niður á við með löngum og hægum, djúpum strokum og nuddið olíublöndunni þannig vel inn í hörundið. Þetta eykur slökun og vellíðan og getur unnið bug á þrálátri andvöku.

Blandan er feit og mjúk, ágætt er að bera á líkamann að meðaltali tvisvar í viku – til að viðhalda teygjanleika húðarinnar og djúpnæra eitt stærsta líffæri líkamans.

Til að lesa meira um töfraformúlur Edgar Cayce, smelltu HÉR

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!