KVENNABLAÐIÐ

P R Ó T E I N B O M B A: Ískaldur skyrboost með ferskum spínatlaufum, engifer og vanillubaunum

Þessi prótínríki undraboost kemur beint úr heilsueldhúsi ritstjórnar en uppskriftin, þó einföld sé, er alveg ný af nálinni, prýðilega ljúffeng og gneistar af heilnæmum innihaldsefnum.

Hreint SKYR, sem er laust við bragð- og aukaefni, er stútfullt af mysupróteini en inniheldur að sjálfsögðu laktósa og því má sleppa skyrviðbótinni, ef um mjólkuróþol er að ræða. Kókosmjólkina má kaupa lífræna í heilsuverslunum og albest er að kreista safann úr heilli appelsínu sem hefur verið skorin í tvennt.

spinach-9

Þá er möndlusmjörið heilnæm viðbót, en athugaðu þó að möndlusmjörið (sem að sögn er enn heilnæmara en hnetusmjör) er hitaeiningaríkt. Því er um algera orkusprengju að ræða, en engiferrótina má fínsaxa með rifjárni og er ágætt að miða við vænan 5 cm, afhýddan bút.  Vanillubaunirnar gefa mildan keim, en þeim má sleppa líka. Ekki er ráðlegt að notast við vanilluþykkni í staðinn – en vanillubaunirnar má einnig finna í betri heilsuverslunum.

ginger-root

I N N I H A L D S E F N I:

150 gr hreint SKYR

2 bollar ferskt spínat (þéttpakkað)

1 bolli kókosmjólk

1 bolli ferskkreistur appelsínusafi

(vatn)

2 msk lífrænt möndlusmjör

5 cm bútur fínrifið, fersk engifer

½ tsk vanillubaunir (vanilluduft)

Vanilla-Bean-and-Orchid

A Ð F E R Ð:

Byrjið á því að setja spínatlaufin, kókosmjólkina og ferskan appelsínusafann í blandarann. Þeytið vel saman þar til allt er orðið áferðarfallegt og rennilegt á að líta. Bætið nú skyrinu, möndlusmjörinu, engiferrótinni og vanillubaunum saman við spínatblönduna og þeytið vel í ca. 1 – 2 mínútur. Drykkurinn dugar í tvö upphá glös og er því prýðilegur fyrir tvo.

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!