KVENNABLAÐIÐ

„Hættið að deila þessum myndum og gerið eitthvað sem skiptir í alvöru máli”

Facebook logar þessa dagana. Hvatvísir einstaklingar keppast við að deila myndum af látnum flóttamönnum og börnum sem drukknuðu eftir erfitt ferðalag flóttafólks um Miðjarðarhafið. Börnin eru sýnd dáin í flæðamálinu. Augun opin, fiskarnir aðeins búnir að smakka á þeim og bleyjurnar svo fullar af vatni að þær eru stærri en börnin sjálf. Þeir sem deila þessum myndum vilja vekja athygli á aðstæðum flóttamanna. Hryllingurinn sem þau sjá á tölvuskjánum vekur upp löngun til að hjálpa, gera eitthvað í málinu. Þau birta myndirnar án umhugsunar í von um að myndbirtingin breyti veruleika flóttamanna.

Og ef við hin, sem viljum ekki sjá skelfilegar myndir á borð við þessar, gagnrýnum birtinguna fáum við yfir okkur holfskeflu af óyrðum. Við erum stimpluð sem pempíur og okkur sagt að við viljum ekki opna augun fyrir ísköldum veruleikanum. Þau vilja sýna okkur hversu slæmt ástandið er og gera okkur meðvituð um hvað er að gerast úti í hinum stóra heimi. Hjálparfýsnin heltekur þau og lamar alla rökhugsun. Myndirnar eru bara birtar og þannig skal það vera. Allt í nafni kærleikans og hjálpseminnar.

Þessar myndir eru settar inn án viðvörunar. Við fáum ekki að velja hvort við viljum sjá þær. Við fáum ekki að velja hvaða hrylling vinir okkar á samfélagsmiðlunum birta heldur er þeim troðið upp á okkur án samþykkis, án viðvörunar og án tilhugsunar.

Myndbirting á borð við þessar er ekki að hjálpa málstaðnum. Myndirnar skipta í raun engu máli. Það eina sem þær gera er að láta okkur líða illa. Látin börn snerta við öllum. Þeir sem birta þessar myndir eru ekki að styrkja málstað flóttamanna. Það eina sem gerist er að þeir friða samviskuna í smá stund. Þeir hafa nú gert eitthvað til að hjálpa flóttamönnum víðsvegar um heiminn og geta því farið aftur á Facebook og spjallað um ræktina og veðrið.

Það að birta þessar skelfilegu myndir á Facebook og ætla sér að breyta heiminum er sjálfsblekking á háu stigi. Þetta hjálpar engum!

Það sem hjálpar er söfnun fyrir þetta fólk. Viðtöl við eftirlifendur, frásagnir fréttamanna á staðnum og vitundarvakning sem felst í að upplýsa og fræða náungann án þess að grípa til lágkúrulegra aðferða sem felast eingöngu í því að sjokkera fólkið í kringum sig.

Þegar þetta er skrifað hefur íslenskur maður nú þegar gert ótrúlega hluti til að aðstoða flóttamann frá Sýrlandi. Gissur Símonarson sá mynd af sorgmæddum föður sem stendur með sofandi barn í fanginu og reynir að selja penna. Hann ákvað að deila myndinni en lét það ekki nægja. Gissur ákvað að gera eitthvað í þessu og efndi til fjáröflunar gegnum vefsíðuna IndieGoGo. Hann hefur safnað rúmlega 15 milljónum íslenskra króna fyrir manninn og börnin hans.

Svona hjálpum við til! Svona skipta gjörðir okkar máli! Svona styrkjum við málstað flóttamanna!

Við getum hjálpað þeim með því að skora á ríkistjórnina okkar að taka afstöðu með flóttafólki. Við getum hafið söfnun, stofnað undirskriftarlista og gagnrýnt harðlega hvernig vestrænar þjóðir hafa tekið á málum flóttamanna.

Við getum hvatt ríkistjórnina okkar til að opna landið, taka á móti 5000 flóttamönnum og veitt þeim griðarstað á meðan landið þeirra logar. Við getum tekið þeim opnum örmum og leyft þeim að njóta gestrisni Íslendinga.

Við hjálpum þeim ekki með því að birta myndir af líkum barna þeirra. Hver sem er getur deilt myndaalbúmi á Facebook og sett sig á háan hest réttlætisins. En þegar kemur að því að standa við stóru orðin fækkar þeim sem málið láta sig varða og enn færri láta peninga af hendi rakna. Hvað þá að þeir stofni til söfnunar. Það er ekki góðverk að deila albúmi á Facebook. Það er góðverk að styrkja fólkið og deila fréttum af veruleika þeirra sem búa í stríðshrjáðum löndum.

Hættið að deila þessum myndum og gerið eitthvað sem skiptir í alvöru máli.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!