KVENNABLAÐIÐ

Viðhald í 10 ár: „Ég fæ hann aldrei“

Vinkona mín varð fertug í vikunni sem leið og við fórum allar út að borða vinkonurnar að því tilefni. Það er alltaf nóg um nóg að spjalla þegar við hittumst enda á þessi vinkonuhópur sem telur 8 konur, samtals 24 börn og 7 okkar erum giftar eða í sambúð. Það er, allar nema umrætt afmælisbarn, sem var nú ástæða þess að við vorum að hittast og fagna afmæli og áratugavináttu.

Sögurnar og brandararnir flugu við borðið og allir virtust skemmta sér vel en ég veitt því athygli að sjálft afmælisbarnið var hálf niðurdregin.  Og nú ætla ég að segja ykkur með hennar leyfi brot af hennar sögu.

Fyrir 10 árum síðan var hún í sambandi við ferlega sætan mann sem elskaði hana út af lífinu…við héldum allar að þau yrði hjón eða allavega að þau myndu hefja sambúð en þá labbaði Herra X inn í myndina.

Herra X var þá nýr yfirmaður á stórum vinnustað sem hún var að vinna á og heillaði hana upp úr skónum. Hann var og er harðgiftur en stuttu eftir að hann tók til starfa fór hann að óska eftir að vinkona okkar yrði honum innan handar í ýmsum verkefnum. Starfið kallaði á vinnuferðir erlendis og allt í einu voru þau tvö farin að ferðast saman nokkrum sinnum á ári. Vinkonan varð yfir sig ástfanginn og lét kærastann róa án þess þó a nokkur vissi ástæðuna.

Vinnuferðirnar urðu æ meira spennandi og leynimakkið sem fylgdi ástarsambandinu við yfirmanninn fyllti líf hennar spennu og eftirvæntingu. Hún var sterk á yfirborðinu þegar hún treysti okkur vinkonunum fyrir þessu þá eftir tveggja ára samband og sagðist ekkert hafa áhyggjur af því að fyrirkomulag sem þetta færi illa með hana. Hún uppskar auðvitað gagnrýni fyrir framferðið frá hluta vinkvennahópsins en virtist ekkert láta það á sig fá.

Á þessum tíu árum sem liðin eru hefur ýmislegt gerst, við vinkonurnar höfum allar verið að eignast börn, við eigum líka samrýmda maka sem hafa gaman af því að hittast þannig að félagsstarf vinahópsins er ansi öflugt. Við förum saman norður á skíði og í hestaferðir og förum stundum öll strollan saman til útlanda. En vinkonan hefur einangrast með hverju árinu sem líður.

Auglýsing

Henni er alltaf boðið í allar ferðir og öll boð með vinahópnum, en oftar en ekki segist hún ekki komast eða býr til afsakanir hvers vegna hún komist ekki þessu sinni. Og hvers vegna skyldi það vera? Jú, ástæðan er sú að enn í dag er hún að halda við Herra X og þó hann vilji á engan hátt bindast henni þá stjórnar hann samt sem áður öllu hennar lífi og hún er alltaf að bíða eftir fyrirmælum frá honum.

Líf hennar er allt skipulagt í kringum hans þarfir. Þegar hann gefur grænt ljós á hitting, kastar hún öllu fyrir róða til að hitta hann. Hún vill ekki fara í ferðir eða út á land um helgar ef það er möguleiki að hann hafi samband og geti hitt hana. Hvers konar líf er þetta? Og það er nauðsynlegt að taka fram að þessi ágæta vinkona er engin rola, hún er sjálfstæð í góðu starfi og með fínar tekjur, en á tilfinningasviðinu er hún algjörlega valdalaus.

Nú er hún fertug og í 10 ár hefur líf hennar leynt og ljóst verið litað af þessu dularfulla ástarsambandi sem hefur haft svo mikil áhrif á líf hennar. Hún sér vonina um fjölskyldu og börn renna út í sandinn og hún hefur áhyggjur af því að Herra X sé farinn að líta í kringum sig…

„Hann fer örugglega að missa áhugann á mér.“

Ég spurði hana hvort hún sæi eftir þessum tíma sem hefur farið í þetta samband og hún játaði því og sagði:

„Við höldum allar að við fáum þá á endanum en sannleikurinn er að það gerist sjaldnast. Ég hef sennilega ekkert fengið út úr þessu annað en gott kynlíf því félagslega hefur þetta einangrið mig og á einhvern hátt hef ég ekki orðið fullur þátttakandi í lífinu eins og ég sá það fyrir. Ég veit ekki einu sinni hvort þetta er eða var nokkurntíman ást. Kannski er þetta bara sjúkleg þráhyggja sem hefur rænt 10 árum af lífi mínu. En ég kann ekki nokkur ráð til að breyta þessu mynstri úr þessu. Ég fæ hann aldrei. Ég er föst.“

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!