KVENNABLAÐIÐ

Sorglegar og hræðilegar sögur um fólk sem fær miklar persónuleikabreytingar, verður mjög reitt og „aggressívt“ – mjög erfitt fyrir aðstandendur

Texti: Valgerður Gréta G. Gröndal  – Myndir: Gunnar Bjarki

Áætlað er að um 6000 manns séu með heilabilunarsjúkdóma á Íslandi. Alzheimersamtökin vinna mikilvægt starf í þágu þeirra sem glíma við heilabilun og aðstandendur þeirra. Mig hefur lengi langað að fræðast betur um það starf sem Alzheimersamtökin sinna ásamt því að fræðast betur um sjúkdómana og ferlið sem tekur við leiki grunur á að ástvinur glími hugsanlega við heilabilun. Ég hafði samband við Sigurbjörgu Hannesdóttur, en hún er fræðslustýra Alzheimersamtakanna, og falaðist eftir viðtali.

Sigurbjörg tók einstaklega vel í þessa bón mína og bauð mér að hitta sig á skrifstofu sinni þar sem Alzheimersamtökin eru til húsa en þau hafa aðsetur í Lífsgæðasetrinu á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Himinninn var þungbúinn og kul í lofti þegar ég renndi upp að þessum gamla og fallega spítala á miðvikudagsmorgni. Ljóst er að mikið hefur verið lagt í að gera húsnæðið upp og er þetta hús nú orðið eins mikilfenglegt og það á skilið. Þegar inn er komið tekur á móti mér hlýlegt og viðkunnanlegt andrúmsloft og þegar ég stíg út úr lyftunni tekur Sigurbjörg brosandi á móti mér og býður mér inn á skrifstofu til sín. Þar sest ég í þægilegan stól við hringlaga borð og kem mér fyrir með tölvuna. Frá Sigurbjörgu stafar góð orka og þægileg nærvera og ég byrja á því að viðurkenna fyrir henni að ég hafi hvorki mikla þekkingu né reynslu sem aðstandandi í tengslum við heilabilunarsjúkdóm og því byrji ég algerlega á byrjuninni. Ég bið hana um að segja mér hvað sé heilabilun og hverjar séu helstu gerðir hennar.

Alzheimer algengasta tegund heilabilunar

60-70% allra sem fá heilabilunarsjúkdóm fá Alzheimersjúkdóminn og er hann sá sem flestir þekkja. Alzheimer er taugahrörnunarsjúkdómur en heilabilun vegna æðakölkunar orsakast af því að æðarnar klikka og það er meginmunurinn á þessum tveimur sjúkdómum. Við getum einnig nefnt Lewy body-heilabilun en hún hefur líka verið mikið í umræðunni. Einkenni hennar eru töluvert frábrugðin einkennum Alzheimers og við erum nú byrjuð með stuðningshóp fyrir aðstandendur þeirra sem eru með Lewy body-heilabilun. Fólk með Lewy body-heilabilun missir ekki endilega minnið; það getur verið mjög gott en það fer að skynja og skilja heiminn aðeins öðruvísi. Það fer að sjá ofsjónir eða ofskynjanir. Árvekni þeirra verður öðruvísi og orkan breytist. Það eru öðruvísi áskoranir að eiga ástvin með Alzheimer en Lewy body-heilabilun,“ segir Sigurbjörg.

 

Einkenni og fyrirbyggjandi þættir

Þegar ég spyr Sigurbjörgu hver fyrstu einkenni Alzheimers séu og hverju við þurfum að vera vakandi fyrir hjá okkur sjálfum og okkar nánustu segir hún fyrstu vísbendinguna vera gleymsku. Fólk fari að gleyma hlutum og endurtaki sig. Eigi erfitt með einföld verkefni í vinnunni, gleymi jafnvel lykilorðum og fari því þá að reiða sig meira á minnismiða og annað sem styður við minnið. Oft er það vinnuveitandinn sem taki fyrst eftir einkennum ef einstaklingurinn er ennþá á vinnumarkaði. Sigurbjörg talar einnig um einkenni sem sé frekar falið en það er frumkvæði. Fólk hættir að sinna því sem það hefur gert lengi líkt og reglulegir göngutúrar eða leikfimitímar. Aðstandendur telja þá að viðkomandi sé orðinn latur og nenni þessu ekki lengur en þetta er einkenni sjúkdómsins; fólk dregur sig í hlé og áttar sig ekki á hvers vegna. Málstol er annað einkenni og fer fólk þá jafnvel að tala í kringum hlutina eins og til dæmis: „Æ, réttu mér þetta sem ég drekk úr“ og fer að tala meira með höndunum og nota bendingar.

Er þá ekki hætt við því að við förum að tengja þessi byrjunareinkenni til dæmis við streitu eða álag tengt vinnu? „Jú, ég hef oft heyrt það frá aðstandendum þegar greining er komin og um er að ræða foreldra; til dæmis hafi þau sagt: „Já, það er langt síðan við byrjuðum að taka eftir þessu, það var þarna um jólin fyrir tveimur árum síðan og mamma var að gera sósu fyrir steikina og allt í einu gat hún það ekki; hafði gert þetta í öll sín ár og þurfti allt í einu að fara eftir uppskrift. Við hugsuðum þá að hún væri bara þreytt og búið að vera mikið álag, jólin að koma og svona.“ Þetta er týpísk birtingarmynd; þá er komið verkstol sem einnig er algengt einkenni. Ef við hugsum þessa athöfn að hella upp á kaffi í kaffivél þá setur maður vatnið í tankinn, kaffipokann svo og kaffið þar ofan í en ef maður er kominn með verkstol þá stelst einn hluti eða tveir úr athöfninni. Viðkomandi gleymir kannski að kveikja á vélinni, setja vatnið í eða kaffið. Niðurstaðan er ekkert kaffi út af því að það vantar einhverja verkhluta,“ segir Sigurbjörg og bætir því við að eitt það erfiðasta fyrir aðstandendur fólks með Alzheimer er að kljást við að það er ekki hægt að segja „þú færð sjúkdóminn og þetta einkenni kemur, svo koma þessi og þetta tekur svo og svo langan tíma“. Framganga sjúkdómsins sé þannig mjög einstaklingsbundin.

Er eitthvað sem við getum gert til þess að fyrirbyggja? Eru áhættuþættir til staðar sem tengjast lífsstíl? 

„Við getum aldrei fyrirbyggt að við fáum sjúkdóminn en við getum gert margt til þess að seinka einkennum. Það gerir maður með því að halda sér virkum, stunda hreyfingu og lifa heilbrigðum lífsstíl, allt sem er gott fyrir hjartað er gott fyrir heilann. Það er eitthvað sem við getum strax og gagnast okkur alltaf vel, hvort sem við fáum heilabilun eða ekki því ef við verðum svo óheppin að fá heilabilunarsjúkdóm þá mun það hjálpa manni. Það sem við leggjum mikla áherslu á er að hvetja aðstandendur til þess að hjálpa manneskjunni að vera virk. Stórar rannsóknir sýna að ígildi þess að vera í sérhæfðri dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun eða þjónustumiðstöð eins og okkar er að halda sér virkum allan daginn, ögra sér og vera í samskiptum við aðra; að það sé alveg á pari við töflur eða lyfjameðferðir. Ég held stundum að fólki finnist auðveldara að taka töflur en að fara í þetta, fólk tekur því ekki eins alvarlega og heldur oft að dagþjálfun sé hálfgerð vistun en þetta er allt gert með það í huga að örva heilann í gegnum daglegar athafnir,“ segir Sigurbjörg.

Lyf gagnast ekki öllum

Eru til lyf sem geta haldið einkennum eða sjúkdómnum niðri? „Þetta eru mismunandi sjúkdómar en ef við tölum bara um Alzheimer þá fer fólk stundum á Alzheimerlyf og þau miða að því að seinka einkennum; það er ekkert sem stoppar sjúkdóminn eða læknar hann. Lyfin gagnast ekki öllum því stundum eru miklar aukaverkanir og þá hefur það mikil áhrif á lífsgæði að það hreinlega borgar sig ekki að taka þau. Við viljum eiga góð lífsgæði og ef maður fær mikið í magann eða höfuðverk eða eitthvað slíkt þá viljum við ekki þann fórnarkostnað. Þá er hætt við meiri einangrun og viðkomandi geta þá ekki sótt dagþjálfun sem er þeim mikilvæg. Í sjálfu sér er best fyrir fólk að tala opinskátt um það þegar það fær þessa greiningu og láta vita í nærumhverfinu, sækja sér ráðgjöf og stuðning strax í byrjun en ekki þegar áskoranirnar verða svo miklar að maður verður algerlega bugaður. Hafa boltann í hendi áður en það gerist. Við sjáum töluverða aukningu þar; fólk er að koma beint eftir greiningu með væg einkenni og sækja til okkar stuðning um hvernig þau eigi að takast á við þetta og hverju við mælum með að þau geri. Þá tekur manneskjan sjálf ábyrgð í stað þess að ýta þessu frá sér. Það er mikilvægt að hugsa um hvað ætla ég að gera þegar ég get ekki lengur tjáð mig, hver verður minn talsmaður, hvernig verða mín fjármál og hugsa um framtíðina. Þetta er oft mjög erfitt fyrir fólk að gera en einnig fyrir makann.“

Endanleg greining fæst við krufningu

Þegar grunur leikur á um að einkenni fólks sé eitthvað annað en til dæmis streita, hver eru þá fyrstu skref fólks? „Fyrsta skrefið er að fara til læknis; heimilislæknis eða fara á heilsugæsluna ef viðkomandi er ekki með heimilislækni. Oft er það ekki manneskjan sjálf sem tekur eftir einkennunum heldur aðstandandi sem gott er að taka með sér því hlið hans skiptir svo miklu máli því þau sjá einkennin betur. Manneskjan sjálf sem komin er með minnisskerðingu og er jafnvel með verkstol er ekkert endilega að taka eftir því. Það þarf að segja frá einkennum og læknir tekur svo þau próf sem hann þarf. Minnispróf eru einnig framkvæmd til þess að skanna hvort það sé einhver minnisskerðing fyrir hendi. Sumir koma mjög vel út úr því og ef læknir telur ástæðu til sendir hann viðkomandi áfram í greiningu á minnismóttöku. Minnismóttökur eru á Landakoti og á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri en einnig eru öldrunarlæknar og sérfræðingar úti í bæ sem greina sjúkdóminn. Venjulega er það þannig að manneskjunni er vísað á minnismóttökuna ef hún býr á höfuðborgarsvæðinu og það getur tekið nokkra mánuði að fá tíma. Svo getur það ferli tekið frá þremur mánuðum og upp í eitt ár en það fer bara eftir því hversu erfitt það er að greina sjúkdóminn. Ég var á Læknadögum fyrir nokkrum mánuðum síðan og þá töluðu þau um að endanleg greining á heilabilun liggi ekki fyrir fyrr en við krufningu,“ segir Sigurbjörg og bætir því við að þegar fólk er í byrjunarfasanum getur það fengið greininguna Alzheimer en þegar einkennin fara að aukast getur greining breyst yfir í aðra tegund heilabilunar.

 

Greiningarferlið líkamlega og andlega krefjandi

Hún tekur sem dæmi að einkenni geti þróast og viðkomandi sjúklingur reynist síðan vera með Lewy body-heilabilun en ekki Alzheimer eins og upphafleg greining gaf til kynna. Þetta er erfitt fyrir aðstandendur og fólkið sjálft. Það er vandasamt fyrir lækna að sjá þetta nákvæmlega því heilabilun er ekki eins áþreifanleg og æxli. Læknar greini sjúkdóminn út frá þeim prufum sem þeir taka og stundum þarf fólk að fara í CT-skanna, jáeindaskanna, mænuástungu eða taugasálfræðilegt mat. Möguleikarnir eru margir og Sigurbjörg nefnir að hún heyri stundum á aðstandendum, svo sem þeim sem eiga foreldra sem eru með heilabilun og eru flutt á hjúkrunarheimili, að þeim finnist foreldrið ekki hafa fengið fullnægjandi greiningu vegna þess að viðkomandi hafi ekki farið í gegnum greiningarferlið á minnismóttökunni heldur í gegnum lækni á hjúkrunarheimilinu.

„Stundum þarf fólk ekki að fara á minnismóttökuna og sér í lagi ef það er orðið mjög aldrað. Greiningarferlið getur tekið mjög mikið á líkamlega og það er erfitt að fara í CT-skanna og mænuvökvaástungu. Stundum eru merkin mjög skýr um að einstaklingur sé að fá heilabilunarsjúkdóm og þá getur læknirinn greint það út frá einkennum. Það er alls ekki svo að það sé alltaf verið að spara á gamla fólkinu, það er kannski bara ekki á einstaklinginn leggjandi að fara í gegnum svo ítarlegt greiningarferli,“ segir Sigurbjörg.

Ólíkar þarfir yngra og eldra fólks með heilabilun

Ég spyr hana hvort hún hafi einhverja tölfræði tiltæka um hversu margt yngra fólk greinist hér á landi en hún segir mér þá að fram til ársins 2019 mátti ekki halda gagnagrunn um þessa sjúkdóma. Eftir að lögum var breytt á Alþingi fóru Landlæknir og minnismóttakan í vinnu við að útbúa gagnagrunn en Covid setti smá strik í reikninginn en það skiptir máli að hafa yfirsýn yfir fjölda þeirra sem greinast því án hennar fæst ekki fjármagn til málaflokksins. Allar tölur sem Alzheimersamtökin styðjast við fá þau frá Noregi og annars staðar í Evrópu. Áætlað er að á Íslandi séu um 6000 manns með heilabilunarsjúkdóm og það séu 300 manns sem eru undir 65 ára aldri en þá er talað um snemmgreiningu.

„Það er tvennt ólíkt að greinast um fimmtugt eða áttatíu og fimm ára og þarfir þessa hóps eru ólíkar. Að flytja svo ung inn á hjúkrunarheimili þar sem meðalaldurinn er kannski 87 ára er ekki auðvelt og fólk sem fær heilabilun getur lifað í mörg ár en meðallíftími á hjúkrunarheimili er um tvö ár. Það þarf því að sinna unga fólkinu, hvort sem það er með heilabilun, Parkinsons eða MS, og yngra fólkið á ekkert alltaf heima inni á hjúkrunarheimilum. Það þarf að auka fræðslu inni á hjúkrunarheimilunum almennt um hvernig starfsfólk á að takast á við breytt samskipti. Ég hef núna farið inn á fjölmörg hjúkrunarheimili sem óskuðu eftir fræðslu frá okkur um samskipti til starfsfólks. Ég var að koma af Hrafnistu þar sem ég fór inn á alla starfsstaðina með fræðslu. Það var mjög áhugavert að hitta starfsmenn þar og fara yfir hvernig við eigum að takast á við það þegar manneskja sér ofsjónir til dæmis og hvernig á að takast á við það þegar manneskja fer að leita að mömmu sinni og viðkomandi heimilismaður er orðin 85 ára gömul. Ungt sumarstarfsfólk hefur ekki verkfæri til þess að takast á við þetta og þarf að fá fræðslu en hjúkrunarheimili eru oft fjársvelt og hafa því miður hvorki tíma né fjárráð til þess að fræða starfsfólk og þetta er eitthvað sem þarf að breyta í heilbrigðiskerfinu,“ segir Sigurbjörg.

Mikilvægt að þiggja alla aðstoð sem býðst

Nú eru aðstandendur oft lengi framan af aðalumönnunaraðilar heilabilaðra. Hvert geta þau leitað eftir aðstoð eða styrk? „Það leita margir til okkar en við erum félagasamtök sem voru stofnuð 1985 og vorum upphaflega Félag áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúklinga eða FAAS. Fyrir einhverjum árum breyttum við nafninu í Alzheimersamtökin og hófum að sinna líka hinum veika meira. Við sinnum landinu öllu og erum bæði með ráðgjöf, ráðgjafasíma, stuðningshópa og fræðslufundi. Við tölum um að það séu 11.000 aðstandendur í ólaunuðu aðhlynningarstarfi og það er rosalega mikið lagt á aðstandendur. Þegar manneskjan fær greiningu þá hefur ekki verið neitt úrræði. „Þú hefur bara samband þegar einkennin versna“ er svarið sem fólk fær og þangað til er það oft aðstandandi sem sér um manneskjuna. Af þeim sökum getur verið mjög erfitt fyrir einstæðinga eða fólk sem býr eitt að fá heilabilun því viðkomandi þurfa stuðning og oft allan sólarhringinn. Aðstoðin sem þau þurfa að fá er kannski lítil í byrjun en getur aukist hratt með tímanum og þarf þá kannski aðstoð við flestar athafnir dagslegs lífs. Aðstandandinn hættir þá að getað farið frá manneskjunni og getur ekki lengur sinnt sínum hugðarefnum eins og að fara á kóræfingu að kvöldi til. Það er hægt að gera þetta fyrir ástvin sinn tímabundið en svo teygist á þessu yfir mörg ár. Fólk hættir jafnvel við að fara í mikilvægar aðgerðir því það getur ekki skilið ástvininn eftir heima. Stórar fjölskyldur skiptast oft á að annast hinn veika en sumir hafa ekki aðstæður til þess og þá flytur fólk jafnvel fyrr á hjúkrunarheimili og sér í lagi þeir sem búa einir eða eiga ekki marga að. Við ítrekum við aðstandendur að taka á móti aðstoð. Margir hverjir neita allri þjónustu, heimaþjónustu eða félagslegri þjónustu, en það sem ég geri þegar fólk kemur í ráðgjöf er að hvetja hinn veika og aðstandendur til þess að opna heimilið fyrir utanaðkomandi hjálp því maður þarf að fá aðstoð til þess að takast á við þennan sjúkdóm. Það er auðvitað erfitt að fá ókunnugt fólk inn á heimilið sitt til að þrífa eða koma í félagslegt innlit en sú aðstoð getur skipt sköpum,“ segir Sigurbjörg.

Slíka aðstoð getur fólk sótt um í gegnum heimilislækni eða í gegnum sveitarfélagið; hafa samband við þjónustumiðstöðina og óska eftir þjónustunni. Oft eru það aðstandendur eða afkomendur hins veika sem hafa samband við þjónustumiðstöðina og greina frá því að viðkomandi geti ekki klætt eða nært sig lengur og þurfi að fá hjálp frá hinu opinbera. Það hjálpar fólki að búa heima eins lengi og mögulegt er en ef fólk neitar allri þjónustu verður þetta allt erfiðara og sér í lagi fyrir maka hins veika. Álagið eykst þá til muna.

Sveitarfélög taki við stuðningshópum

„Ég hamra á þessu í ráðgjöfinni að til þess að fólk geti búið heima eins lengi og mögulegt er þá þurfi það að taka á móti hjálpinni, fá stuðning og koma í okkar þjónustu ef það mögulega getur. Að aðstandendur komi í stuðninghópana okkar og noti þá sem verkfæri í þessu sjúkdómsferli því þó að einkennin séu ekki orðin það mikil í byrjun eigi þau eftir að aukast. Sjúkdómurinn er ólæknandi og hinum veika á bara eftir að versna. Við erum með sjálfboðaliða, Alzheimertengla, um allt land sem sumir eru með stuðninghópa og einnig Alzheimerkaffi og okkar ósk er sú að sveitarfélögin taki meira við sér og komi að þessum stuðningshópum. Við erum með gott fordæmi til dæmis á Akranesi þar sem Alzheimer- tengiliðirnir okkar báðu okkur um að koma og hjálpa þeim að starta stuðningshópum eins og við erum með hérna og ég kom þangað þrisvar eða fjórum sinnum og var með stuðningshóp þar sem þær fylgdust með og svo tóku þær við. Núna er það starfsmaður hjá sveitarfélaginu sem sér um þessa stuðningshópa. Það finnst okkur vera mjög gott skref fram á við að það sé sveitarfélagið sem sinni þörfum aðstandenda líka. Því Alzheimersamtökin eru bara framkvæmdastjóri, fræðslustjóri og starfsmaður í hálfu starfi á skrifstofunni svo það er sjálfgefið að við getum ekki sinnt öllu landinu og verið alls staðar. Ég veit að í aðgerðaráætlun hjá heilbrigðisyfirvöldum er talað um aðstandendur því rannsóknir sýna að í þessu ferli veikist aðstandandinn oft hraðar en sá veiki og er það þá álagstengt eins og hjartavandamál, stoðkerfisvandamál og sérstaklega hjá fólki sem er á vinnumarkaði. Sá veiki þarf að hætta að vinna en oft hættir líka makinn því hann þarf að fara að sinna aðstandandanum og þá erum við komin með tvo sjúklinga og það getur ekki verið ódýrt hvort sem er í krónum og aurum eða frá lýðheilsulegu sjónarmiði. Þetta hefur einnig áhrif á réttindi fólks og lífeyri þess svo áskoranirnar eru margvíslegar,“ segir Sigurbjörg.

Kostnaður við dvöl á hjúkrunarheimili

Yngra fólk með heilabilun sem býr á hjúkrunarheimilum þarf að greiða háar fjárhæðir fyrir heilbrigðisþjónustu eins og hefur komið fram nýlega. Hverjar eru horfurnar í málum sem slíkum? „Það er bara tekjutengt og útreikningar hjá ríkinu. Lífeyririnn er tekinn af þér og svo er þér úthlutað vasapeningum og upphæðir fara eftir því hversu góðan lífeyrisrétt þú ert með. Þegar þú býrð á hjúkrunarheimili færðu húsnæði, lyf, heilbrigðisþjónustu, mat og allt sem þú þarfnast dags dagslega. Þetta er ekki ný umræða og dúkkar oft upp. Ekki einungis varðandi yngra fólkið heldur líka það eldra. Margir halda að hjúkrunarheimilin fái þessa peninga beint en þau eru bara að innheimta fyrir ríkið. Hjúkrunarheimilið er ekki að reyna að ná í þá sem eru með háan lífeyri því þá fái það meiri pening; það virkar ekki þannig. Það er erfitt að vera í stöðu aðstandanda og vera í þeirri sorg sem því fylgir því að maki sé fluttur á hjúkrunarheimili að fara svo að ræða um þetta. Það þarf sterka manneskju til þess,“ segir Sigurbjörg.

Fjármögnun Alzheimersamtakanna og úrræða á vegum þeirra

Það fer að koma að lokum hjá okkur en mig langar aðeins að spyrja hana út í fjármögnun samtakanna og jafnvel hvernig hægt sé að styðja við þau.

„Við rekum þrjár sérhæfðar dagþjálfanir, Maríuhús, Fríðuhús og Drafnarhús, og rekum þær með daggjöldum frá ríkinu. Nýlega var skrifað undir samning varðandi rekstur Seiglunnar á svipuðum nótum. Seiglan er þjónustumiðstöð fyrir þau sem eru greind með heilabilun en eru á fyrstu stigum sjúkdómsins. Alzheimersamtökin sjálf eru rekin á styrkjum, til dæmis félagsgjöldum, en við erum með yfir 1700 félagsmenn sem borga árgjald. Einnig berast okkur ýmiss konar styrkir frá klúbbum og félögum. Stærsta tekjulindin okkar í dag er frá mánaðarlegum styrktaraðilum sem eru í dag um 1500 talsins og fer fjölgandi. Hægt er að gerast mánaðarlegur styrktaraðili á alzheimer.is. Einnig er Reykjavíkurmaraþonið stór tekjulind en þar hleypur fólk til styrktar samatakanna. Almannaheillafélög eins og okkar sækja árlega um verkefnastyrki frá hinu opinbera og er heilmikil vinna að halda þessu öllu gangandi,“ segir Sigurbjörg.

Það kostar peninga að halda úti þessari þjónustu en hún sparar þeim einnig háar fjárhæðir á móti. Heilabilunarsjúkdómar eru ekki auðveldir viðureignar og sagan um gömlu konuna sem er brosmild, verður gleymin og fær Alzheimer er ekki í takt við veruleikann. Það eru til margar sorglegar og hræðilegar sögur um fólk sem fær miklar persónuleikabreytingar, verður mjög reitt og „aggressívt“ og það er mjög erfitt fyrir aðstandendur að takast á við sem og fyrir hinn veika auðvitað líka.

Það hefur verið sérlega ánægjulegt að hitta Sigurbjörgu og fá dýrmæta innsýn inn í starf Alzheimersamtakanna. Aðspurð hvort það sé eitthvað sem hún vilji minnast á að lokum segir Sigurbjörg að hún vilji ítreka starf Seiglunnar sem er ný þjónustumiðstöð fyrir þá sem eru með væg einkenni heilabilunar og mikilvægi þess að koma strax í stuðning og ráðgjöf. Að bæði veiki aðilinn og aðstandendur taki völdin sjálf og ákveði hvaða þjónustu það ætlar að taka á móti og hverju þurfi að huga að áður en einkennin fari versnandi. Einnig bendir hún á heimasíðu samtakanna, www.alzheimer.is, en þar má nálgast ítarlegar upplýsingar um hvaðeina sem tengist samtökunum, fræðslu og ráðgjöf.

 

Birtíngur er með stútfullt safn af íslensku efni, viðtölum og greinum.

Öll blöð Birtíngs eru á einum stað. Með áskrift að vefnum færðu aðgang að fjölbreyttum og áhugaverðum greinum og viðtölum.

Frá aðeins 1.890 kr á mánuði og engin skuldbinding.

www.birtingur.is

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!