KVENNABLAÐIÐ

Byrjaði í neyslu 13 ára og komin að þröskuldi lífs og dauða: „Þetta er bara lifandi helvíti…engum er treystandi“

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Förðun: Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

Kara Guðmundsdóttir byrjaði ung í neyslu hugbreytandi efna og var að eigin sögn nærri því komin að þröskuldi lífs og dauða. Hún náði að snúa við blaðinu, stundar nú nám í sálfræði við Háskóla Íslands og æfir hnefaleika af miklum krafti. Hún er hnefaleikakona ársins og varð fyrsta og eina íslenska konan til að vinna flokkinn sinn á Golden Girl Championship í Svíþjóð, sem er stærsta kvennamót í heimi í hnefaleikum. Kara segir að hefði hún ekki náð að snúa við blaðinu á þeim tíma sem hún náði því væri hún örugglega dáin. Lífið hafi verið farið að styttast í annan endann, og hún ekki nema rétt rúmlega tvítug.

„Ég segi stundum að ég hafi útskrifast með hæstu einkunn úr skóla lífsins því ég var í svo rosalega mikilli neyslu og hafði verið það lengi,“ segir Kara. Hún er hreystin uppmáluð og varla hægt að sjá fyrir sér að þessi unga hnefaleikakona hafi verið langt leiddur fíknefnaneytandi sem sá ekki fyrir sér að verða langlíf.

Neyslan byrjaði þegar Kara var unglingur. „Þetta byrjaði með áfengi en ég var fljótlega farin að reykja gras og var fyrr en varði komin út í harðari efni. Mér fannst neyslan aldrei fara neitt úr böndunum,“ segir hún og hristir höfuðið, spurð hvort þetta hafi farið fljótt úr böndunum. „Mér fannst ég vera með allt á hreinu og vera orðin fullorðin þótt ég væri auðvitað bara krakki. Ég hef verið að vinna mikið í mér síðustu árin og skoðað ástæðurnar fyrir því að ég byrjaði að fikta við þetta. Ég held að þetta hafi verið rosalega mikið kall á athygli til að byrja með. Mamma og pabbi hættu saman þegar ég var eins árs. Pabbi giftist annarri konu og eignaðist með henni tvö börn og mér fannst ég alltaf vera dálítið útundan, ég upplifði mig eins og gest í heimsókn hjá honum og ekki part af heildinni. Það var samt ekki þannig, ég var ekkert útundan og ég fékk alveg ást og umhyggju. Ég sem barn sá það bara ekki þannig. Þess vegna held ég að neyslan hafi í grunninn byrjað vegna þess að mér fannst mig vanta athygli og ást og umhyggju en þegar þetta er orðið að fíkn er málið auðvitað orðið allt annað.“

Stríðni stór partur af ástæðunni en ekki sú eina

Kara segist hafa verið feimin sem krakki og að sér hafi verið strítt mikið fyrir að vera með sítt hár. „Ég var að safna hári fyrir fermingu og hárið náði alveg niður á rass sem þótti fínasta ástæða til að stríða mér. Þetta hafði mikil áhrif á mig og ég fann fyrir miklu óöryggi. Þegar ég var byrjuð í neyslu man ég að mér fannst frábært að mæta í skólann illa sofin, angandi af tóbaks- og graslykt, illa útlítandi og ógnandi því þá upplifði ég að samnemendur mínir væru dálítið hræddir við mig. Það fannst mér sigur því þá vogaði enginn sér að stríða mér.“

Hún rifjar upp sögu frá því að einn neyslufélagi hennar, mun eldri en hún, mætti í annarlegu ástandi til að hitta hana í skólanum. „Gangavörðurinn vildi ekki hleypa honum inn og þessi félagi minn réðst á hann. Þegar ég kom fram höfðu krakkar hópast í kring og margir auðvitað hræddir en mér fannst þetta geggjað töff. Hann var með læti, í annarlegu ástandi, miklu eldri, kominn til að hitta mig og ég fór með honum. Mér fannst ég búin að sigra. Nú myndi sko enginn þora að kássast upp á mig. Auðvitað var þetta ekki eina ástæðan fyrir því að neysla mín varð sífellt harðari og meiri og ég fór að umgangast vafasamara fólk en þetta var þó stór partur af ástæðunni.“

„Ég er í rauninni bara svolítið þakklát fyrir botninn því hann gaf mér tækifæri til að spyrna í. Á botninum er maður neyddur til að snúa við blaðinu eða hreinlega deyja.“

Byrjaði í neyslu um þrettán, fjórtán ára

Fljótlega eftir að Kara var byrjuð í harðari efnum var hún farin að hanga á Hlemmi. Hún segist eiga erfitt með að tímasetja hlutina þótt hún muni eftir atburðum, það sé erfitt fyrir sig að setja þá í rétta tímaröð. „Við erum ekki með fullþroskaðan heila fyrr en um 25 ára og þegar maður byrjar svona ungur í neyslu hefur það auðvitað áhrif á þroska heilans. Þegar ég horfi til baka finnst mér það pínulítið vandræðalegt en þegar ég var nýorðin edrú og að koma aftur inn í lífið þá var ég svolítið heft í mannlegum samskiptum og dómgreind og svona. Ég byrjaði í neyslu um þrettán, fjórtán ára og það mætti alveg segja að þegar ég varð edrú rúmlega tvítug hafi ég ennþá verið þrettán, fjórtán ára þroskalega séð. Maður staðnar auðvitað í þroska í svona miklu rugli. Ég vissi svo sem alveg að svona mikil og hörð neysla á unga aldri hefði afleiðingar í för með sér en ég var ákveðin í að snúa því við. Ég sótti mér því app í símann með alls konar æfingum fyrir heilann og ég held það hafi bara gert helling fyrir mig,“ segir hún og skellir upp úr. „Mér fannst ég verða að kveikja á heilanum og koma honum í gang aftur. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta hefði getað farið illa, því ég veit um fólk sem skaddaðist varanlega af neyslunni og það kemur ekkert til baka.“

En Kara var heppnari að mörgu öðru leyti því hún sá á eftir mörgum neyslufélögum sínum sem létust af of stórum skammti, sviptu sig lífi eða urðu bráðkvaddir. „Þegar ég var sautján ára kom ég að þáverandi kærastanum mínum þar sem hann hafði gert tilraun til sjálfsvígs. Hann lifði það af en ég veit ekki hvort hann er á lífi í dag. Það er partur af þessu að fólk deyr í kringum mann í neyslu,“ segir Kara og þagnar um stund. „Mig langaði oft að deyja,“ heldur hún áfram alvarleg. „Það fylgir þessu svo ofboðslega mikil vanlíðan, það er varla hægt að lýsa því. En þetta er bara lifandi helvíti. Maður er alltaf einn í neyslunni því engum er treystandi. Það er alltaf verið að svíkja mann því þetta snýst auðvitað aðallega um að redda sér næsta skammti og neyslunni fylgir svo mikil brenglun að maður veit aldrei upp á hverju fólk getur tekið. Svo er maður líka hræddur um að verða nappaður því þetta er auðvitað allt ólöglegt og maður gerir sér alveg grein fyrir því að þetta er rangt. Svo kemur sektarkennd yfir því að hafa verið að gera hluti sem maður sér eftir, það eru engin mörk, sjálfsvirðingin farin og maður verður bara týndur.

Þetta er alveg gríðarleg vanlíðan. Ég reyndi einu sinni sjálfsvíg en man ekki hvað ég var gömul, ég var örugglega ekki orðin átján ára. Þarna varð ég ógeðslega hrædd. Bæði út af því sem ég hafði gert en ég óttaðist líka það sem gæti gerst. Þetta líf var svo mikil martröð. “

Kara segist hafa séð myndina Lof mér að falla, sem fjallar um tvær ungar stúlkur sem flækjast inn í fíkniefnaheiminn og hún segist hafa tengt við margt í myndinni. „Ég fékk oft alveg hnút í magann þegar ég horfði á hana. En svona er þessi heimur. Það er ekkert verið að fegra hlutina eða gera þá verri en þeir eru. Svona er þetta.“

„Þetta er bara lifandi helvíti. Maður er alltaf einn í neyslunni því engum er treystandi. Það er alltaf verið að svíkja mann því þetta snýst auðvitað aðallega um að redda sér næsta skammti.“

Partur af því að komast af var að leika hlutverk brjáluðu stelpunnar

Þrátt fyrir allt segir Kara að neyslufélagarnir hafi orðið hennar fjölskylda. „Við vorum þrjú sem vorum alltaf saman, ég var farin að hanga með þeim á Hlemmi þegar ég var í grunnskóla, en þeir voru eldri en ég og pössuðu upp á mig. Við upplifðum margt saman og eigum okkar sögu, og mér þykir alveg vænt um þau þótt ég sé ekki í miklu sambandi við þau í dag. Ég var reyndar algjör vargur, alltaf með mikil læti og það fór mikið fyrir mér. En ég held að það hafi verið partur af því að komast af; þetta var ákveðið hlutverk sem ég lék til að komast í gegnum þetta allt saman.“

Talandi um fjölskyldu. Hvað með foreldra þína? Vissu þau strax af neyslunni? „Mér fannst ég alltaf rosalega góð í að fela þetta fyrir þeim en auðvitað vissu mamma og pabbi af þessu. Pabbi þurfti nokkrum sinnum að sækja mig á lögreglustöðina og sjúkrahús og svona. Á tímabili var þetta svolítill eltingarleikur þar sem þau voru kötturinn og ég músin og ég gat ekki beðið eftir því að verða átján ára og fá frið fyrir þeim. Þá myndu þau loksins hætta að trufla mig svona, skilurðu,“ segir Kara og skellir létt upp úr. „En þau voru alltaf til staðar. Það var bara mjög erfitt fyrir þau að ætla að halda mér heima. Ég man eftir því að hafa til dæmis þurft að berjast við mömmu í dyragættinni þar sem hún var að reyna að halda mér heima þar til pabbi myndi koma að aðstoða hana. En það var ekkert hægt að stoppa mig, ég var algjörlega stjórnlaus. Ég er ofboðslega þakklát fyrir foreldra mína og að þau skyldu ekki gefast upp á mér. Þótt ég hafi búið hér og þar var ég alltaf með lykil að íbúðinni hennar mömmu. Hún vildi hafa mig heima og ég var alltaf velkomin til hennar. Mér var aldrei hent út af heimilinu. Ég bara vildi ekki vera heima. Ég vildi vera þarna úti, í neyslu.“

Lífið farið að styttast í annan endann

Að því kom þó að Kara vildi hætta í neyslunni. Hún segist hafa verið búin að gera nokkrar tilraunir til að hætta. Hún hafi áttað sig á því að lífið væri að styttast í annan endann með þessu áframhaldi. Hún væri orðin rúmlega tvítug og ekkert búin að gera nema vera í neyslu og skaða fólkið í kringum sig. „Þetta var líka bara spurning um að verða edrú eða deyja áður en langt um liði,“ segir hún alvarleg.

„Einn daginn hringdi ég í mömmu og spurði hvort ég mætti koma heim og hún sagði bara strax já, ekkert mál, hvar ertu? Ég kem og sæki þig. Það voru engar spurningar, engin yfirheyrsla. Eftir á sagði mamma mér að hún hefði orðið svo ánægð að hún hefði næstum því hoppað af gleði eftir símtalið, hún hafði beðið svo lengi eftir þessu augnabliki. Sem mér finnst svo fallegt. Hún sótti mig og fór með mig heim, þar sem gamla herbergið mitt var bara nákvæmlega eins og það hafði verið. Mamma bauð mig velkomna heim og spurði svo bara hvað við ættum að fá okkur í kvöldmat. Í dag hugsa ég hvað þetta var magnað og hvað ég var heppin að mamma skyldi taka mér svona opnum örmum án þess að fara í einhverjar ásakanir eða tortryggni. Líka miðað við það hvernig ég var búin að haga mér gagnvart henni. Það tók mig rosalega langan tíma að fyrirgefa sjálfri mér og það var erfitt að díla við skömmina og sektarkenndina. Fyrst eftir að ég varð edrú gat ég bara ekki talað um þetta við mömmu og pabba. Til að byrja með, þegar ég var að verða edrú, langaði mig að vera eins fjarlæg þessari Köru sem ég hafði verið í neyslunni og ég mögulega gat. Ég vildi svo innilega ekki vera þessi manneskja sem ég var og reyndi að loka á hana en það er auðvitað ekki rétta leiðin. Sú Kara verður alltaf hluti af mér og allar upplifanir mínar og ákvarðanir sem ég hef tekið verða það líka. Ef maður er alltaf að reyna að fjarlægjast eitthvað sem maður gerði eða var, eða er, þá myndast bara togstreyta innra með manni. Þetta fer heldur ekki neitt, því þetta gerðist,“ segir Kara með áherslu.

„Maður verður að horfast í augu við þetta og slæm reynsla, slæmar ákvarðanir og upplifanir þurfa ekkert endilega að vera eitthvað hræðilegar ef maður nær að vinna úr þeim á heilbrigðan hátt. Og eins erfitt og það getur verið mun það samt á endanum móta mann sem karakter og jafnvel gera mann sterkari fyrir vikið. Í dag finnst mér ekkert hræðilegt við þessa lífsreynslu mína þótt mér hafi fundist það á sínum tíma. Þá fannst mér þetta algjör hörmung en í dag er ég þakklát fyrir reynsluna því hún hefur gert mig að þeirri Köru sem ég er í dag.“

Kunni ekkert á það að vera fullorðin

Kara segir að það hafi þó ekki verið neinn dans á rósum að ná að verða edrú og það hafi tekið hana dálítinn tíma. Hún hafi ekki alltaf séð tilganginn með edrúmennskunni. Það sem hafi bjargað henni var að rölta inn á æfingu hjá Hnefaleikafélaginu Æsi. Þangað var hún þó ekki að koma í fyrsta skipti.

„Mamma og pabbi skráðu mig í unglingabox þar þegar ég var unglingur. Ekki af því að mig langaði að æfa einhverja íþrótt, þótt það væri auðvitað töff að æfa box, heldur af því að þau voru að reyna að koma mér á beinu brautina og út úr neyslunni. Einhvern tíma kom ég á æfingu í annarlegu ástandi og þjálfarinn, Villi, sá það og kallaði mig á fund. Mér fannst mjög óþægilegt að hann skyldi bösta mig á æfingu en hann var samt ekkert að skamma mig eða láta mig heyra það heldur sagðist hann alveg sjá hvað væri í gangi og þetta væri ekki líðandi á æfingum. Ég mætti koma aftur en ekki svona, í annarlegu ástandi. Ef ég væri undir áhrifum mætti ég vera inni í búningsklefa, en ekki á æfingu. Hann hefði getað hent mér út en gerði það ekki. Villi sá greinilega að ég þurfti aðstoð og sýndi mér skilning og hlýju.“

Þegar Kara ákvað svo mörgum árum seinna að verða edrú varð henni hugsað til þessa atviks og fannst þetta vera staður sem hún gæti farið á án þess að verða fyrir fordómum. Hún segir að Villi hafi strax munað eftir henni og boðið hana velkomna aftur. „Það var svo geggjað að finna hvað ég var velkomin. Ég var auðvitað ekki í neinu formi, búin að vera í hrikalegri neyslu og reykja í níu ár, en formið var frekar fljótt að koma. Þegar ég var búin að mæta nokkrum sinnum á æfingu settist Villi niður með mér og spurði hvað væri að frétta og svona og ég sagði honum upp og ofan af sögunni minni. Ég sagði honum að mig langaði ekkert meira en að verða edrú og hann hjálpaði mér alveg rosalega mikið við það. Í rauninni … Af því að ég byrjaði svo snemma í neyslu kunni ég ekkert á það að vera fullorðin. Ég átti enga vini, bara neyslufélagana sem ég treysti mér ekki til að vera í sambandi við, ég átti ekki krónu, var ekki búin að klára neitt nám nema grunnskólanámið, var ekki með bílpróf og var bara á byrjunarreit. Ég held í alvöru að ég hefði ekki náð að verða edrú ef ég hefði ekki haft Villa. Mig vantaði svo rosalega mikið að hafa einhvern sem ég gat spjallað við án þess að verða fyrir fordómum, einhvern sem sýndi mér skilning og var til staðar.“

Lífið snerist um að verða edrú

Líf Köru, sem áður snerist um að redda sér næsta skammti snerist nú um að verða edrú og halda sér edrú. „Ég vaknaði á morgnana, tók strætó og fór á æfingu á Hnefaleikastöðinni, tók svo útihlaup, lagði mig síðan á skrifstofunni, fór aftur á æfingu um kvöldið og tók svo strætó heim. Ég fór síðan að læra kokkinn í Menntaskólanum í Kópavogi og vann sem kokkanemi á Fiskfélaginu en hélt áfram að æfa. Í rauninni var ég bara að æfa og vinna. En það var það sem ég þurfti að gera til að komast út úr neyslunni.“

Hún segir að neyslufélagarnir hafi til að byrja með reynt að ná sambandi við hana án árangurs. „Ég man að síminn minn stoppaði ekki til að byrja með og það var svo erfitt. Mig langaði alveg aftur út í neysluna af því að mig langaði í góða rússið. Maður er svolítið fljótur að gleyma öllu þessu erfiða. En ég hélt mínu striki og þau hættu að lokum að hringja. Svo var ég einhvern tíma að labba á Laugaveginum og hitti gamla vinkonu úr neyslunni sem sagði mér að sá orðrómur væri á kreiki að ég væri dáin af því að ég hvarf bara. Ég hafði auðvitað verið svolítið áberandi og alltaf með læti þannig að fólk tók eftir mér. Þannig að þegar ég hvarf hélt fólk kannski eðlilega að ég væri bara dáin. Ég var alltaf hrædd og það var kannski góð ástæða fyrir þessum látum og því hvað ég var alltaf aggressív því það var ákveðið hlutverk sem mér fannst ég verða að leika til að enginn sæi að ég væri hrædd.“

Kara þagnar um stund, áður en hún heldur áfram: „Það segir manni nú líka heilmikið um það hvert maður var kominn í neyslunni. Og það er ekki beint staðurinn sem maður vill vera á. Ég held ég hafi hætt neyslunni á hárréttum tíma. Annars væri ég örugglega dáin. Í raun er ekkert skrýtið að fólk hafi haldið að ég væri dáin því útlitið á manni var ekki beysið. Ég var eiginlega óþekkjanleg og mér finnst ótrúlegt að skoða myndir af mér frá þessum tíma. Ég þekki mig varla á þeim.“

„Þetta var líka bara spurning um að verða edrú eða deyja áður en langt um liði.“

Hjartað syngur þegar hún boxar

Óhætt er að segja að líf Köru hafi tekið miklum stakkaskiptum á síðustu árum. Hún útskrifaðist sem kokkur og var í kokkalandsliðinu um tíma. Meðal annars fór hún sem aðstoðarmaður í kokkalandsliðinu á Ólympíuleikana árið 2016 og varð í þriðja sæti í keppninni Skills Ísland árið 2017. Hún útskrifaðist af Háskólabrú Keilis árið 2020 og lærir nú sálfræði við Háskóla Íslands auk þess sem hún er enn á fullu í boxinu. Hún segir boxið vera mjög sálræna íþrótt og maður þurfi að vera með rétt hugarfar þegar farið er inn í hnefaleikahringinn. „Maður verður líka að geta treyst á sjálfan sig því það er enginn að fara að koma manni til hjálpar á meðan verið er að berja á manni þarna inni í hringnum. Það er mikilvægt að halda einbeitingu og geta gert sitt.“

Kara skellir upp úr þegar blaðamaður viðurkennir, líklega dálítið skelkaður á svip, að hann skilji ekki hvernig nokkur geti farið sjálfviljugur inn í hnefaleikahringinn til að láta berja sig. „Ég mæli samt með því að allir prófi að æfa einhverja sjálfsvarnaríþrótt því það er svo gott fyrir andlegu hliðina, það er gott að kunna að verja sig. Þetta er líka svo mikil tjáning. Þegar ég var að verða edrú tjáði ég mig í gegnum boxið og fékk rosalega útrás í gegnum það. Boxið bjargaði lífi mínu. Og gerir það enn. Ég bara finn hvernig hjarta mitt syngur þegar ég boxa.“

Kara vill lítið gera úr afrekum sínum þegar blaðamaður segir að hún sé nú búin að ná að afreka ótrúlega margt eftir að hún hætti úr neyslunni. „En já, líklega má ég alveg vera stolt af mér,“ segir hún hæversk. „Ég er að læra að vera það. Ég var svo lengi að keppast við að gera meira og meira af því að ég var að reyna að fjarlægjast þetta neyslutímabil og ég gerði þær kröfur til sjálfrar mín að vera þessi manneskja sem væri með allt sitt á hreinu og gæti allt. Eins og ég sagði áðan, ég vildi bæta upp fyrir allt það sem ég hafði gert í fortíðinni. En með því að gera það var ég að gera þetta allt á röngum forsendum. Ég er farin að sjá það núna og þess vegna get ég verið sátt. Það var reyndar bara núna nýlega sem ég sættist fullkomlega við þessa unglings-Köru og varð ánægð með hana. Hún var auðvitað bara að gera allt það sem hún gat til að lifa af í þessum harða neysluheimi, hún var að gera sitt besta þar og þá miðað við það sem hún vissi. Þessi unglings-Kara hélt auðvitað að hún væri að gera rétt, hún vissi ekki betur og var að reyna að sigrast á lífinu eins og hún gat. Ég verð nú eiginlega bara að viðurkenna að þetta var þokkalegt hugrekki sem hún sýndi til að gera það sem hún gerði og komast alla þessa leið sem hún fór. Frá því að vera þessi feimna stelpa með síða hárið sem var strítt yfir í að vera algjör brjálæðingur með hanakamb,“ segir Kara og skellir létt upp úr.

„Það er ekki langt síðan ég áttaði mig á því að ég gæti sýnt unglings-Köru umburðarlyndi og skilning. Og með því að gera það er þetta miklu meiri heild og þá er ég miklu meiri heild af því að ég væri ekki sú  manneskja sem ég er í dag ef ég hefði ekki verið þessi unglings-Kara.“

Þakklát fyrir botninn

Það er kominn tími til að slá botni í viðtalið. En hvernig skyldi þessi unga kona sjá framtíðina fyrir sér? „Ég er svo sem ekki komin með neitt stórt framtíðarplan. Ég veit bara það að ég mun alltaf halda áfram að læra, ég vil alltaf vera að læra eitthvað nýtt. Svo ætla ég að halda áfram í boxinu og ná langt í því áður en ég verð að hætta sökum aldurs. Það er ákveðinn hámarksaldur í boxinu. Mér finnst líka rosalega gaman að elda og er núna að vinna á hóteli við að sjá um morgunmat og bröns á veitingastaðnum þar. Ég ætla að vinna þar áfram meðfram náminu og boxinu því ég er að kaupa mér íbúð.“

Ertu farin að hugsa um að sérmennta þig eitthvað í sálfræðinni? „Já, ég sé fyrir mér að taka einhverja sérgrein þegar þar að kemur. Mig langar að hjálpa fólki sem glímir við geðræn vandamál og fíknisjúkdóma. Ég held að það væri mjög mikils virði að geta nýtt mína reynslu til að hjálpa öðrum. Ég gæti talað um allt sem tengist sálfræði, geðsjúkdómum, mannlegri hegðun og svona í allan dag. En ég vil ná mér fullkomlega á strik áður en ég fer út í það. Ég er enn að vinna í svo mörgu hjá sjálfri mér. En ég vona að sagan mín veiti einhverjum þarna úti von um betra líf. Ég var auðvitað komin á hræðilegan stað og í sprautuneyslu. En ég er í rauninni bara svolítið þakklát fyrir botninn því hann gaf mér tækifæri til að spyrna í. Á botninum er maður neyddur til að snúa við blaðinu eða hreinlega deyja. Vonandi sjá þeir sem eru á botninum eða sjá glitta í hann, botninn frekar sem stökkpall yfir í eitthvað betra.“

 

Birtíngur er með stútfullt safn af íslensku efni, viðtölum og greinum.

Öll blöð Birtíngs eru á einum stað. Með áskrift að vefnum færðu aðgang að fjölbreyttum og áhugaverðum greinum og viðtölum.

Frá aðeins 1.890 kr á mánuði og engin skuldbinding.

www.birtingur.is