KVENNABLAÐIÐ

Madonna: „Fólk telur mig umdeilda en ég held að það umdeildasta sem ég hef gert er að vera enn hér!“

Umsjón: Lilja Hrönn Helgadóttir / Texti: Sigurbjörg Andreu Sæmundsdóttir

Madonna Louise Ciccone fæddist í Bay City í Michiganfylki 16. ágúst 1958. Faðir hennar, Silvio Anthony, er annarrar kynslóðar innflytjandi frá Ítalíu og móðir hennar og alnafna var af frönskum/kanadískum ættum og voru þau kaþólikkar. Þegar Madonna var aðeins fimm ára gömul lést móðir hennar úr brjóstakrabbameini og hefur Madonna sagt í mörgum viðtölum að móðurmissirinn hafi gert hana að þeirri manneskju sem hún er í dag. Hana skorti kvenlegar fyrirmyndir og því þurfti hún að skapa sínar fyrirmyndir sjálf.

Madonna gekk í kaþólskan skóla í Michigan og var þar strax byrjuð að hneyksla samborgara sína með uppátækjum sínum. Hún átti það til að lyfta pilsinu upp í miðri kennslustund og fara í handa hlaup á göngum skólans. Hún varð svo klappstýra í menntaskóla og átti nokkra kærasta og fékk toppeinkunnir alla skólagönguna. Hún fékk svo skólastyrk til að nema dans við Michiganháskóla.

Henni fór þó að leiðast í miðju háskólanáminu. Árið var 1978 og hún vildi gera meira. Hún vildi verða eitthvað. Hún vildi verða einhver! Þá pakkaði hún saman og fór í fyrstu flugferð ævi sinnar og fluttist til New York með 35 dollara í rassvasanum. Hún átti sér þann draum að verða dansari en það gekk hægt hjá henni að komast í dansbransann í NYC. Hún vann því fyrir sér á Dunkin Donuts auk þess sem hún sat nakin fyrir.

This image has an empty alt attribute; its file name is Pages-from-Vikan_2223_Prent-3-679x1024.jpg

Eftir nokkur ár í NYC gafst hún upp á draumnum að verða dansari þegar hún lenti í hljómsveit með þáverandi kærasta sínum. Hljómsveitin var kölluð The Breakfast Club. Madonna fann þá köllun sína; hún elskaði að vera á sviði og syngja og koma fram. Henni leiddist þó að vera hluti af hljómsveit svo hún ákvað að reyna fyrir sér sem „sólóartisti“. Hún gekk milli plötufyrirtækja með „demóið“ sitt þar til Gotham Records tók hana upp á sína arma. Þá fór hún að stunda næturklúbba og lauma tónlist sinni til plötusnúða sem tóku misvel í þetta uppátæki hennar þar til einn plötusnúður spilaði tónlist með henni. Hann varð svo hrifinn að hann kom því til leiðar að hún fór á fund með Seymor Stein hjá Sire Records.

Þá byrjaði boltinn að rúlla. Hún gaf út fyrstu smáskífu sína. „Everybody“, árið 1983 og öðlaðist hún miklar vinsældir á klúbbum New Yorkborgar og víðar. Hún hélt tónleika þar sem hún var strax byrjuð að hneyksla lýðinn. Hún elskaði að ögra staðalmyndum. Smátt og smátt jukust vinsældir hennar sem náðu svo hámarki með „Like a Virgin“ sem kom út 1984. Þá öðlaðist hún heimsfrægð en að sama skapi fékk hún mikla gagnrýni og hatur frá íhaldssömum samtökum og einstaklingum. Hún var sögð grafa undan gildum fjölskyldunnar og hvetja ungmenni til kynlífs fyrir hjónaband. Madonna lét það ekki á sig fá, enda virðist hún þrífast svolítið á því að vera umdeild.

Hún lék í nokkrum bíómyndum á níunda áratugnum ásamt því að gefa út plötur og „túra“ um heiminn. Hún átti í stormasömu hjónabandi með Sean Penn sem hún segist í dag sjá eftir. En þarna var fólk farið að kalla hana drottningu poppsins en hún fékk þó alltaf á sig mikla gagnrýni. Jafnvel femínistar þessa tíma áfelldust hana fyrir hneykslanlegt athæfið, enda ekki farið að bera á svokölluðum „sexpositivefemínisma“ á þessum tíma. Madonna var í rauninni ljósárum á undan sinni samtíð. Hún var óhrædd við að vera kynþokkafull og kynferðisleg á sínum eigin forsendum. Hún tók pláss og spurði spurninga um kynhlutverkin og hún baðst aldrei afsökunar á neinu.

Hún gaf svo út „Like a Prayer“ árið 1989 og var myndbandið víða bannað en þar leikur hún sér með kaþólsk þemu og sýnir frá nauðgun og auk þess er Jesús Kristur þeldökkur í myndbandinu. Í kjölfarið á því fór hún í „Blonde Ambitiontónleikaferð“ um heiminn þar sem hún ögraði og hneykslaði svo mikið að henni var sums staðar bannað að koma fram. En hún lét það ekki stoppa sig heldur gaf út bókina „SEX“ þar sem má finna ögrandi ljósmyndir af henni og fleirum ásamt grófum texta um kynlíf og ýmiss konar blæti.  Hún hélt þessu áfram á fyrstu árum tíunda áratugarins, gaf út plötuna Erotica og hneykslaði áfram á sviði, í viðtölum og með myndböndum sínum. Hún neitar þó enn að biðjast afsökunar á því að vera hún sjálf.
Árið 1996 breyttist þó margt í hennar lífi. Hún lék Evitu í samnefndri kvikmynd og eignaðist svo sitt fyrsta barn, hana Lourdes Leon. Hún hefur sagt í viðtölum að það hafi þrýst henni niður á jörðina að hafa eignast Lourdes, eða Lolu eins og hún er kölluð. Hún mildaðist á einhvern hátt en var enn með sömu hugsjónir; að ögra staðalmyndum. Hún fór í tónleikaferð með Lolu pínulitla þar sem hún gaf henni brjóst í hléi sem hneykslaði nokkuð.

This image has an empty alt attribute; its file name is Pages-from-Vikan_2223_Prent-5-1024x653.jpg

 

Hún kynntist svo leikstjóranum breska Guy Ritchie, giftist honum og eignaðist með honum soninn Rocco árið 2000. Madonna og Ritchie settust að með börnunum í Englandi og bjuggu þar með hléum allt til ársins 2008 þegar þau skildu og Madonna flutti aftur til Bandaríkjanna. Madonna hefur sagt um hjónaband sitt og Ritchie að það hafi ekki byggst á traustum grunni og að henni hafi stundum liðið eins og hún hafi verið í nokkurs konar fangelsi. Árin eftir Ritchie hefur hún heldur betur verið iðin við kolann. Hún ættleiddi fjögur börn frá Malaví og hefur gefið út nokkrar plötur og unnið með hinum ýmsu listamönnum.

Í dag heldur hún áfram að ögra staðalmyndum með því að vera ekki þessi týpíska 64 ára gamla kona. Hún hefur farið í lýtaaðgerðir og birtir kynþokkafullar myndir af sér í ögrandi stellingum á Instagram. Hún fær mörg ljót komment á sig á samfélagsmiðlum svo hún er enn þann dag í dag að hneysksla. Og neitar enn að biðjast afsökunar. Hún er bara „unapologetically“ hún sjálf. Enda er þetta verðugt málefni; mega „eldri“ konur vera kynþokkafullar? Mega þær ekki tala um kynlíf og vera kynverur?

Síðasta sumar og í haust hefur hún verið að túra á heimsvísu og kallast túrinn hennar „Celebrationtúrinn“  þar sem hún mun taka alla helstu smelli ferils síns. Hún er komin í „þrusuform“ og má ekki búast við öðru en risastóru „showi“ frá henni þar sem hún mun örugglega fara yfir strikið. 64 ára og sjaldan verið betri.

Endum þetta svo á annarri tilvitnun úr ræðu hennar frá 2015: „Það eru engar reglur sért þú strákur. Ef þú ert stelpa þá þarftu að taka þátt í leiknum. Og hver er sá leikur? Þú hefur leyfi til að vera sæt og krúttleg og passlega sexí. En ekki haga þér greindarlega. Ekki hafa skoðanir. Að minnsta kosti ekki hafa skoðanir sem eru á skjön við „the status quo“. Þú mátt vera hlutgerð af karlmönnum og klæða þig druslulega en aldrei gangast við því að vera drusla! Og ekki, ég endurtek, EKKI deila þínum eigin kynferðislegu fantasíum með heiminum!“

 

Fjölbreyttir og áhugaverðir nýjir pistlar inn á vefsíðu Birtíngs. www.birtingur.is

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!