KVENNABLAÐIÐ

„Ætla ekki að leggjast í gólfið fyrir einhvern gæja“

Hera Hilmarsdóttir á að baki farsælan feril sem kvikmyndaleikkona þó að hún sé ung að árum og hefur leikið undir stjórn og með mörgum af þekktustu leikstjórum og leikurum í heimi kvikmyndanna. Það hefur aldrei stigið henni til höfuðs.

Hún er jarðbundin, einlæg og kemur til dyranna eins og hún er klædd á sinn fallega og hógværa hátt. Þetta er góð blanda. Hún hefur verið bókuð nokkur ár fram í tímann en það tekur á. Hera hefur verið á landinu að safna orku eftir að hafa leikið í síðustu þáttaröð See og Svari við bréfi Helgu og segist vera að klára ákveðið skeið á ferlinum og sé tilbúin til að takast á við nýja hluti.

Þetta er brot úr ítarlegra viðtali sem aðgengilegt er á vef Birtings.

 

Hera hélt áfram að leika í kvikmyndum þar á meðal með Ben Kingsley og þau kynntust vel. „Já,“ segir hún og brosir sínu bjarta brosi. „Við Ben erum góðir vinir og höfum gert tvær myndir saman, fyrst The Ottoman Lieutenant árið 2015, þar sem við kynntumst.“

Hera segir að vinnan við myndina hafi verið mjög erfið. „Ég var í aðalhlutverki í þessari mynd og vann látlaust og eiginlega keyrði mig út og svo var ég bara að ganga í gegnum erfiða hluti sjálf. Myndin gerist í Tyrklandi og er ástarsaga en ég lék unga hjúkrunarkonu. Hin An Ordinary Man gerist í Serbíu og þar erum við Ben tvö saman meira og minna í allri myndinni. Við erum góðir vinir en Ben hefur það orðspor að vera stór karakter. Það voru allir mjög stressaðir þegar von var á honum í The Ottoman Leutenant, ég fann það.

Það hafði klúðrast að fá rétta leikarabílinn fyrir hann, sem er samningsdæmi sem fylgir oft leikurum, og leikarar teknir út um allt í þessum blessuðu bílum alla daga, bæði á setti og fyrir utan vinnu. Þannig að fólk hefur mismiklar skoðanir á því hvernig bíllinn á að vera. En þá var reynt að fá minn bíl. Einhver hreinlega sagði: „Bíllinn þinn þarf að fara í viðgerð í næstu viku.“ Við samstarfsfólk mitt gjörsamlega bjuggum í þessum bíl og höfðum gert í nokkra mánuði. Mér fannst þetta svona frekar grunsamlegt. Svo ég spurði: „Hversu lengi, tvær vikur?“ því það var tíminn sem Ben átti að vera með okkur í tökum. „Já,“ var svarið. Þau ætluðu sem sagt að redda þessu með því að taka minn bíl og láta hann hafa,“ segir hún og hlær.

„Ég hafði ekki neina skoðun á hvernig bíl ég væri á sjálf, en mér fannst eitthvað skrýtið við að láta minn bíl af hendi fyrir annan leikara, með fullri virðingu fyrir Ben. Þannig að ég sagði bara nei,“ segir hún kímin. „Mér fannst verið að ætlast til þess, án þess að spyrja mig hreint út, að ég myndi bara leggjast í gólfið fyrir einhvern gæja. Sem ég er ekki tilbúin til, þó að það sé Ben Kingsley,“segir Hera  ákveðin enda er hún með báða fætur á jörðinni og Ben fékk ekki bílinn.

„Ben á allt sitt stjörnutrít skilið, ekki misskilja mig. Það bara átti ekki að sækja það til mín. Þetta var orkan sem við mættumst með. Fólk hegðar sér svo rosalega í kringum hann og margt af þessu sem hann „þarf“ kemur ekki frá honum. Hann kunni að meta að ég mætti sér á jafningjagrundvelli. Og þannig mættumst við líka í senunum. Ég ætla ekki að líkja mér við Ben en við nálgumst vinnuna á líkan hátt og við fundum því sameiginlega orku þarna. Einn daginn eftir að hann var farinn fékk ég símtal frá honum en ég hafði ekki gefið honum símanúmerið mitt. Hann spurði hvort hann mætti senda handrit fyrir mig á umboðsmenn mína, handritið að An Ordinary Man. Úr varð svo að við gerðum myndina saman. Hún gerist í Serbíu og ég leik þjónustustúlku sem vinnur fyrir Ben, sem er fyrrverandi stríðsglæpamaður. Við vorum nánast tvö allan tímann saman í myndinni. Svo voru fleiri verkefni eftir þetta sem við ætluðum að gera saman en höfum ekki náð vegna annarra hluta.“

„Það dýpkar mann alltaf sem manneskju að setja sig í spor annarrar manneskju.“

 

Texti: Ragnheiður Linnet
Mynd: Hallur Karlsson

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!