KVENNABLAÐIÐ

Fjögur góð listasöfn í París til að skoða verk impressionista

París er ómetanleg og gullfalleg borg og heimili mikilla listaverka, eins og sagan segir. Hús og híbýli tók saman fjögur frábær listasöfn í borg ástarinnar ef markmiðið er að skoða verk impressionista.

Kíkjum á!


 

Musée d´Orsey

Þetta safn er ekki bara besta safnið til að skoða impressionísk verk í París heldur er það sennilega eitt það besta í heimi. Í safninu, sem áður var lestarstöð, er að finna mikið magn af impressionískum og postimpressionískum málverkum, teikningum og höggmyndum eftir listamenn á borð við Renoir,  Degas, Gauguin, Van Gogh, Cézanne, Manet, Sisley, Pissarro og Monet svo fáir séu nefndir. Safnið sjálft er einstaklega aðgengilegt og fallegt en það er staðsett á vinstri-bakkanum steinsnar frá risanum Louvre.

Vefsíða: musee-orsay.fr


 

L´orangerie

Einstaklega aðgengilegt og skemmtilegt lítið safn sem þekktast er fyrir stóru vatnaliljumyndir (Nympheas) Claude Monet sem allir listunnendur verða að skoða a.m.k. einu sinni á ævinni, þær eru dásamlegar og auðvelt að dáleiðast við að horfa á þær. Myndir Monet eru í fallegum og björtum sölum á efri hæðinni en á neðri hæðinni eru verk eftir fleiri impressionista og postimpressionista á borð við Matisse, Cézanne, Modigliani og Picasso og einnig eru reglulega haldnar áhugaverðar sýningar í l´Orangerie. Safnið er í vinstra horni Tuileries garðanna sem margir tala um sem Louvre garðana.

Vefsíða: musee-orangerie.fr


 

Marmottan

Einstaklega skemmtilegt og lítt þekkt safn sem staðsett er í 16. hverfi Parísarborgar. Það er í litlu höfðingjasetri (mansion) með fallegum garði og hýsir stærsta safn listaverka Claude Monet í heimi en einnig eru verk eftir fræga listamenn á borð við Delacroix, Manet, Caillebotte, Pissarro, Gauguin, Rodin, Degas og fleiri. Reglulega eru haldnar áhugaverðar sýningar á safninu sem standa oftast yfir í 4-6 mánuði í senn. Á Marmottan-safninu má finna hið þekkta málverk, Impression, soleil levant eftir Monet sem impressionista stefnan dregur nafn sitt af.

Vefsíða: marmottan.fr


 

Petit Palais

Petit Palais er einkar skemmtilegt lítið safn rétt hjá Place de la Concorde en það stendur beint á móti Grand Palais en það var byggt í tengslum við heimssýninguna árið 1900. Byggingin er safn í sjálfur sér og salurinn þar sem höggmyndirnar eru sýndar einkar fallegur. Þarna eru reglulega haldnar áhugaverðar sýningar en fastaverkin eru eftir impressioníska meistara á borð við Bourbet, Pissarro, Monet, Sisley, Cézanne og Ingres. Petit Palais er falin perla í París sem er lítt sótt af ferðamönnum, ég mæli með að fá sér léttan hádegisverð eða kaffi í portinu á heitum sumardegi og njóta fallega umhverfins.

Vefsíða: petitpalais.paris.fr

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!