KVENNABLAÐIÐ

„Ljót og leiðinleg“ var ekki ástæðan

Þegar maðurinn minn tilkynnti mér að hann vildi skilnað eftir næstum þrjátíu ára samband kom það flatt upp á mig. Ég spurði hvort önnur kona væri í spilinu en hann þvertók fyrir það. Hann sagði mig vera ástæðuna fyrir því að hann vildi skilnað, hann í raun sagði næstum því hreint út að ég væri ljót og leiðinleg. Það tók mig töluverðan tíma að sættast við sjálfa mig og átta mig á því að þegar öllu væri á botninn hvolft hefði þessi skilnaður ekkert haft með mig að gera.

Við Magnús höfðum kynnst í lok menntaskólaáranna. Við vorum ekki í sama skólanum en í gegnum sameiginlega vini kynntumst við og urðum strax ástfangin. Vinkonur mínar og vinir sem þekktu til Magnúsar sögðu mér að passa mig aðeins, hann væri mikill djammari og hefði komið víða við í kvennamálum. Hann hefði átt óteljandi margar kærustur alveg frá því í grunnskóla, „gaggó“ eins og við kölluðum þetta í þá daga, og samböndin entust aldrei lengi. En mér var sama hvað þau sögðu. Ég var ástfangin af þessum manni og fann eiginlega bara frá fyrsta kossinum að Magnús var maðurinn sem ég vildi verja ævinni með. Hann var mér líka ótrúlega góður og sýndi mér svo ekki var um villst að hann elskaði mig af öllu hjarta. Þetta sama fólk trúði svo varla breytingunni sem varð á Magnúsi þegar við byrjuðum saman. Hann hætti að djamma, leit ekki á aðrar stelpur en mig og var bara fyrirmyndarkærasti, og seinna -eiginmaður, að öllu leyti.

Lífið var gott

Við Magnús fengum að búa í kjallaranum hjá foreldrum mínum á meðan við kláruðum háskólanámið okkar. Við vorum búin að ræða framtíðina og hvernig við vildum hafa hlutina og vorum bæði ákveðin í því að fara í háskóla þótt á þessum tíma hafi stúdentsprófið eitt og sér nægt til að fá ágætis vinnu. Við vorum bæði sterkir námsmenn og hvorugt okkar tilbúið að láta staðar numið í námi eftir útskrift úr menntaskóla. Það var auðvitað alveg frábært að geta búið í kjallaranum hjá mömmu og pabba því á meðan þurftum við ekki að borga neina leigu og mamma var dugleg að bjóða okkur í mat og nýbakað bakkelsi um helgar. Við náðum því að safna okkur ágætum sjóði sem við notuðum til að kaupa okkar fyrstu íbúð nokkrum árum síðar. Við lukum bæði grunn- og framhaldsnámi í háskóla, giftum okkur, eignuðumst tvö börn og vorum búin að koma okkur upp góðu lífi um þrítugt. Magnús fékk strax góða vinnu hjá stöndugu fjármálafyrirtæki þar sem hann klifraði hratt og örugglega upp metorðastigann og ég fékk góða stöðu í heilbrigðisgeiranum.

„Það sem mér fannst hins vegar erfiðast var að Magnús skyldi koma skilnaðarsökinni yfir á mig. Sannleikurinn var nefnilega sá að hann hafði haldið við aðstoðarkonu sína.“

Við vorum fyrirmyndarhjónin

Margir vina okkar sögðust dást að okkur. Við Magnús værum fyrirmyndarhjónin sem stæðu allt af sér í lífsins ólgusjó því auðvitað gekk ýmislegt á eins og gengur og gerist en þó kom aldrei neitt stórkostlegt upp á og ekkert sem tengdist hjónabandinu okkar Magnúsar. Þetta voru þessi hefðbundnu mál sem koma upp á hjá öllum; veikindi og andlát í fjölskyldunni, skilnaðir í vinahópnum, uppsögn í vinnu og kannski einhver smávægileg vandræði þegar krakkarnir voru á hinum erfiðu unglingsárum. Aldrei kom upp neitt ósætti varðandi fjármál, lífsstíl, skemmtanir eða hvað það nú gæti verið sem fólk rífst yfir.

Við leyfðum hvort öðru að gera það sem hitt langaði og þegar það langaði. Mér fannst svo frábært að vera svona frjáls. Ég horfði upp á margar vinkonur mínar loka sig af frá því sem þær höfðu áður haft unun af að gera og einhvern veginn renna saman í eitt við maka sína. Mér fannst það hálfsorglegt. Hanna, ein mín besta vinkona, hafði til dæmis alltaf haft rosalega gaman af því að syngja og lærði söng í nokkur ár. Hún var farin að syngja með atvinnumannakór og fannst það ofboðslega gaman og gefandi en eftir eitt ár í þessum kór ákvað hún að hætta og hella sér út í golfið með eiginmanninum. Hún viðurkenndi að hana hefði ekkert langað til að hætta í kórnum en látið undan þrýstingnum frá eiginmanninum. „Það lá við hjónaskilnaði,“ sagði hún meira að segja í eitt skiptið eftir að hann hafði reynt að sannfæra hana um að þetta „kóra-vesen“ á henni gengi bara ekki upp. Þau yrðu „að finna eitthvað áhugamál“ sem þau gætu stundað saman og þótt hún hefði ekki minnsta áhuga á því að fara að spila golf gerði hún það nú samt til að þóknast honum. Ég man að ég trúði henni varla þegar hún var að segja mér þetta. Hún, með alla sína frábæru hæfileika og áhuga á söng og tónlist, lagði það allt á hilluna og tók upp golfkylfuna í staðinn. Þeirra hjónaband entist reyndar ekki í mörg ár eftir þetta og hún er byrjuð að syngja í kór á ný. Þó gat hún ekki snúið aftur í atvinnumannakórinn, sem mér finnst mikil synd og ég veit að hún tók það nærri sér. En þetta valdi hún, því miður. Eða lét fyrrverandi manninn sinn velja fyrir sig öllu heldur.

„Að Magnús myndi segja eitthvað þvíumlíkt við mig hefði mér áður fundist óhugsandi. En jú, ég var greinilega ástæðan fyrir því að hann var ákaflega vansæll í þessu hjónabandi og hann vildi losna úr því.“

„Ertu ekkert hrædd um að hann haldi framhjá þér?“

Ég er svolítið fiðrildi og fæ oft nýjar hugmyndir og ný áhugamál spretta reglulega upp hjá mér. Það var alveg sama hvaða dellu ég sagðist vera komin með núna, hvort sem það var föndur, prjónaskapur, fjallgöngur, keila eða sund tók Magnús vel í allar hugmyndir, líka þær sem ég þurfti að eyða svolitlum byrjunarkostnaði í. „Drífðu þig endilega, þetta verður örugglega mjög gaman,“ sagði hann bara og kyssti mig ástúðlega því til staðfestingar að hann væri sáttur.

Sjálfur átti Magnús ekki nein áhugamál að ráði og hann var svo sannarlega ekki sama fiðrildið og ég. Hann þurfti hins vegar að ferðast mikið vegna vinnunnar, aðallega til útlanda. Ferðirnar tóku oftast nokkra daga, stundum var ferðalagið langt og krafðist þess jafnvel að hann gisti einhvers staðar á leiðinni þar sem þurfti að millilenda og ekki hægt að ná flugi strax á áfangastað. Fyrst þegar Magnús byrjaði að fara í þessar ferðir fannst mér ógurlega spennandi að fara með honum, það var líka svo gott að geta notað tækifærið til að versla í útlöndum þegar krakkarnir voru litlir. En svo gafst ég upp á því. Mér fannst skemmtilegra að skjótast í helgarferð með vinkonum mínum þess í stað eða heimsækja systur mína sem bjó í Danmörku. Við Magnús vorum líka dugleg að fara með krakkana til sólarlanda á sumrin þegar þau voru lítil. Vinnuferðirnar hans þóttu mér bara ekki svo skemmtilegar. Hann var oft á fundum eða ráðstefnum langt fram eftir degi og þá þurfti ég bara að vera ein að dandalast eitthvað og það eru takmörk fyrir því hvað maður nennir að rápa einn á milli búða og kaffihúsa.

„Ertu ekkert hrædd um að hann haldi framhjá þér í þessum ferðum?“ spurðu vinkonur mínar en ég hélt nú ekki. Ekki hann Magnús! Þessi öðlingur, sem kom alltaf edrú heim úr vinnustaðapartíunum sem voru haldin reglulega, og mökum ekki boðið, og var aldrei of upptekinn til að svara þegar ég hringdi í hann eða sendi honum skilaboð þegar hann var í burtu.

Kom af stað hugsanavillu

Ég veit ekki hvort ég var of blind til að sjá það eða hvort ég hreinlega lokaði bara augunum fyrir því en það voru jú viðvörunarbjöllur farnar að hringja í höfðinu á mér áður en Magnús kom heim eitt kvöldið eftir vinnu og sagðist vilja skilnað. Fyrst fannst mér þetta samt koma eins og þruma úr heiðskíru lofti: „Ég vil skilnað.“ Þessi þrjú orð sem hann sagði svo ískalt og eins og hann væri bara að biðja mig um að rétta sér smjörið. Ég var algjörlega frosin og kom varla upp orði en ég man að ég náði að stynja upp spurningunni hvort það væri einhver önnur í spilinu. Hann þvertók fyrir það, sagðist bara ekki elska mig lengur, ég væri ekki nógu skemmtileg og svo hefði ég auðvitað fitnað talsvert og væri farin að láta dálítið á sjá. Hann hefði alveg eins getað sagt hreint út: „Þú ert ljót og leiðinleg.“

Að Magnús myndi segja eitthvað þvíumlíkt við mig hefði mér áður fundist óhugsandi. En jú, ég var greinilega ástæðan fyrir því að hann var ákaflega vansæll í þessu hjónabandi og hann vildi losna úr því.

Skilnaðurinn gekk í raun hratt og vel fyrir sig, ef hægt er að segja svo. Við vorum auðvitað ekki með lítil börn, ég hugsa að þá hefði þetta verið flóknara. Þetta var frekar klippt og skorið; við skiptum með okkur eignum og héldum svo hvort í sína áttina. Næstum því þrjátíu ár að baki og þau voru kvödd með undirskrift hjá sýslumanni.

Kannski af því að ég hef alltaf verið svo sjálfstæð og með nóg á prjónunum þá fannst mér þetta ekki jafnhræðilegt og ég hefði búist við áður en ég fór í gegnum þetta. Það sem mér fannst hins vegar erfiðast var að Magnús skyldi koma skilnaðarsökinni yfir á mig. Sannleikurinn var nefnilega sá að hann hafði haldið við aðstoðarkonu sína, sem sá meðal annars um að bóka fyrir hann öll ferðalög, bæði innanlands og utan. Hún hafði ekki látið þar við sitja heldur fór hún með honum í allar þessar ferðir. Sambandið þeirra hafði staðið í einhver ár, ég kærði mig ekki um að vita of mikið. Mig hefur aldrei langað til að vita öll smáatriði. Hún má eiga hann fyrir mér. Ég lifi frábæru og fullnægjandi lífi. Það tók mig samt langan tíma að átta mig aftur á eigin ágæti því það sem Magnús sagði, að ég væri leiðinleg, orðin þreytuleg og feit, hafði mikil áhrif á andlegu líðanina mína. Ég trúði þessu nefnilega í dágóðan tíma á eftir en með hjálp góðs sálfræðings hef ég náð að laga þessa hugsanavillu sem Magnús kom af stað í höfðinu á mér.

Nú er allt skýrt

Í dag er ég búin að átta mig á því að þessi skilnaður hafði ekkert með mig að gera í rauninni. Magnús bara hélt fram hjá mér með annarri konu, það vatt upp á sig og úr varð samband sem varði svo reyndar ekki mjög lengi eftir skilnaðinn okkar. Við erum ekki í miklu sambandi í dag, höfum bara hist á merkisdögum í fjölskyldunni, eins og þegar dóttir okkar gifti sig og þegar barnabörnin voru skírð. Magnús er orðinn ellilegur og tekinn á meðan mér finnst ég aldrei hafa litið jafn vel út og hreinlega blómstra. Ég á yndislega fjölskyldu og vini, geri alls konar skemmtilega hluti og sit aldrei auðum höndum. Mér líður hins vegar vel einni svo ég er sátt við að eiga bara góðan vin en mér hefur mjög oft verið boðið á stefnumót af mönnum sem ég þekki jafnvel ekki neitt. Varla væru þeir nú að bjóða mér út ef ég væri ljót og leiðinleg?

Lífsreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!