KVENNABLAÐIÐ

Sjálfsást er einn af lyklum hamingjunnar og heilsunnar

Elskar þú sjálfa/n þig og hrósar á viðeigandi hátt eða rífur þú þig stöðugt niður? Gerirðu úlfalda úr mýflugu þegar þér verða á mistök? En er ekki sjálfsást það sama og sjálfhverfa? Við fengum Þórdísi Ásgeirsdóttur, heilsunuddara á Heilsustofnuninni, til að gera betri grein fyrir því hvað sjálfsást gerir fyrir heilsuna.

„Ég ákvað að læra að elska sjálfa mig, sem tók og tekur tíma en það er 100% þess virði að finna leið til sjálfsástar,“ segir Þórdís og heldur áfram. „Ég var svo heppin að komast á námskeið hjá Guðna Gunnarssyni í Mætti athyglinnar þegar verst stóð á hjá mér, og þar fékk ég verkfæri til að vinna með, sem ég er endalaust þakklát fyrir.“

En hvað er sjálfsást? „Sjálfsást er t.d. að vera góður við sjálfan sig sem og samþykkja sig og allt sem við búum yfir andlega og líkamlega, við erum falleg eins og við erum. Eitt það besta sem ég tók með mér, var að taka ábyrgð á líðan minni, því það býr enginn í kollinum á mér, nema ég og mínar hugsanir. Ég held að t.d. sjálfhverfa sé í raun vanmáttur þess sem þorir ekki að vera eða lifa í ást.“

Þórdís segir að sköpunin sé stór hluti af því að elska sjálfan sig. „Hún er svo dásamleg orkan sem felst í því að skapa, hvað sem við kjósum. Ég vel að skapa það sem mér dettur í hug hverju sinni. Þessa daganna reyni ég að gleðja umhverfi mitt með fallegum yfirlýsingum sem ég skrifa á steina og skil eftir hingað og þangað. Ég er sannfærð um að þegar við sköpum dregur það fram sjálfsástina á svo marga vegu, alla vega upplifi ég vellíðan og gleði og finn mig andlega nærða með verkum mínum og þar finn ég svo sannarlega sjálfsást,“ segir Þórdís og brosir.

Hrós býr til gleði

„Það er svo gott að gefa hrós, hreinlega af því það gefur gleði á báða bóga. Mér finnst að eftir því sem við erum duglegri að hrósa þá gleður það okkur sjálf jafnmikið og hinn aðilann, og af hverju að sleppa því að hrósa okkur sjálfum, þegar við eigum það svo sannarlega skilið, ég er viss um að daginn sem við erum duglegri að hrósa okkur sjálfum erum við umvafin sjálfsást.

Þegar við tökum ákvörðun um að vera okkur góð, hugsum vel um okkur, tölum fallega til okkar og sýnum okkur virðingu, nærum okkur bæði andlega og líkamlega, þá elskum við okkur sjálf,“ segir heilsunuddarinn sem ekki aðeins málar á steina heldur líka á léreft, fallegar og nærandi myndir sem túlka sjálfsást.

„Við fæðumst full sjálfsástar svo það eitt að horfa á börnin í umhverfi okkar ætti að sýna okkur hversu hamingjurík við getum verið ef við aðeins viðurkennum okkur og sjáum okkur í betra ljósi, okkar eigin ljósi og leyfum bæði okkar og annarra ljósi að loga.“

„Eitt það besta sem ég tók með mér, var að taka ábyrgð á líðan minni, því það býr enginn í kollinum á mér, nema ég og mínar hugsanir. Ég held að t.d. sjálfhverfa sé í raun vanmáttur þess sem þorir ekki að vera eða lifa í ást.“

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!