KVENNABLAÐIÐ

„Einn daginn mun ég eignast alla mína draumastóla“

Við heimsóttum á dögunum íbúð hjá skapandi pari í Hlíðunum en það eru þau Þórunn Birna listakona og Alexander Sær aðstoðartökumaður sem þar búa. Þau fluttu inn fyrir rúmu ári síðan og fá munir úr öllum áttum sinn stað á heimilinu sem tákn um sterka tengingu þeirra við myndlist, kvikmyndir eða tónlist. Þórunn útskrifaðist nýverið úr diplómunámi í listmálun og er hún með litla aðstöðu á heimilinu til þess að sinna listinni. 

Þetta er fyrstu íbúðarkaup þeirra beggja en þau eru bæði alin upp í Vesturbænum. „Það er svo dýrt að kaupa fyrstu eign þar svo við ákváðum að leita hérna. Þetta er ekki langt frá og frekar miðsvæðis,“ útskýrir Þórunn. Íbúðin er um 80 fermetrar að stærð og hentar parinu vel. Það var ekki mikið sem þau þurftu að gera en það var nýbúið að taka húsið í gegn að utan af fyrri eigendum, mála og lappa upp á eldhúsið sem er upprunalegt, frá sjöunda áratugnum. „Það heillaði mig mikið að eldhúsið væri blátt, það brýtur upp rýmið. Svo ákvað ég að kaupa blá Flowerpot-ljós í stíl. Okkur langaði að hafa stofuna svolítið græna, sem við drógum meðal annars fram með plöntum. Blár og grænn hefur alltaf verið í mestu uppáhaldi en ég elska sömuleiðis alla jarðliti og ég vil hafa stærri húsgögnin í þeim litatónum, sem er góður grunnur að mínu mati. Svo fá hinir ýmsu litir að njóta sín í smáhlutunum sem auðveldara er að skipta út,“ bætir hún við.

HH2205164505-17-2-1920x2877

HH2205164505-5-1-scaled

Litagleðin er ríkjandi og er áhugaverða hluti að finna víðast hvar í íbúðinni þó að hún sé ekki stór í sniðum. „Ég er búin að troða inn eins miklu og ég get,“ segir Þórunn og brosir. „Ég grúska mikið til að finna alls konar smámuni, en flestir þeirra hafa verið keyptir í Kolaportinu eða Góða hirðinum. Ég fæ ekki nóg af litríkum og öðruvísi hlutum. Ég hef fengið nokkra postulínshunda af setti, sem Alexander hefur unnið á, en ég er svona að byggja upp safn af þeim,“ segir hún og glottir. „Þá höfum við fengið eitthvað gefins, eins og borðstofustólana, sem koma frá Frakklandi, og tekkborðið sem kemur frá ömmu minni og afa. Þau voru alltaf með þetta á sínu heimili alveg frá því ég man eftir mér. Mér finnst mjög gaman að eignast gamla hluti og fer reglulega á nytjamarkaði og skoða sölusíður á Facebook og blanda þeim við nýrri hönnun.“

Barcelona-stólinn fengu þau hjá tengdapabba Þórunnar, sem hafði fylgt honum um allan heim. „Hann var búinn að vera lengi í geymslu. Hann sá að ég gjóaði augum á hann og gaf okkur hann,“ segir hún og ánægjan leynir sér ekki. Hann er í sérstöku uppáhaldi en þeim er ummunað að gefa gömlum hlutum nýtt líf. „Ég virðist alltaf falla fyrir stólum, einn daginn mun ég eignast alla mína draumastóla, þetta er sá fyrsti,“ bætir hún við. Að sögn Þórunnar hefur áhuginn á hönnun og arkitektúr fylgt henni frá barnæsku. „Herbergið mitt í æsku var oft eins og nytjavörubúð en ég hef verið dugleg að sanka að mér hlutum í gegnum árin. Spurð út í eftirlætishönnun eða -tímabil segir hún: „Ég elska allt frá Bauhaus-tímabilinu svo er uppáhaldsstóllinn minn Cesca Chair, enda gerði ég málverk af honum,“ segir hún og hlær og bendir á myndina sem hangir í stofunni. „Svo er Carl Hansen og dönsk hönnun almennt í miklu uppáhaldi, ég mun komast þangað einn daginn.“

HH2205164505-14-2-1920x2876

Þetta var brot úr lengra viðtali sem aðgengilegt er á vef Birtings.

Umsjón/ María Erla Kjartansdóttir
Myndir/ Hákon Davíð Björnsson 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!