KVENNABLAÐIÐ

Sniðugar lausnir: Sjáðu þetta hlýlega baðherbergi

Rut Káradóttir innanhússarkitekt hannaði þetta stílhreina og hlýlega baðherbergi. Rýmið sjálft er um 15 fermetrar að stærð en fyrir innan er þvottahús sem er einkar hentugt að sögn Rutar. Baðherbergið var hannað í upphafi árs 2020 og lagt var upp með af hafa þægindi og góða nýtingu á rýminu, það skilar sér í fallegri útkomu sem minnir eilítið á heilsulind.

Nafn: Rut Káradóttir
Menntun: Innanhússarkitekt frá Istituto Europeo di Design í Róm, 1993
Starf: Innanhússarkitekt FHI
Vefsíða: rutkara.is

Hvernig myndir þú lýsa stílnum? „Ég myndi lýsa honum sem hlýlegum og klassískum þar sem lögð var áhersla að hafa það þægilegt í umgengni. Baðherbergið er hluti af heildarhönnun hússins og reynt var að láta efnisval og annað falla vel að heildarmyndinni.

Voru eigendurnir með ákveðnar hugmyndir um hvernig þeir vildu hafa baðherbergið? „Ég fékk mjög frjálsar hendur og það ríkti mikill skilningur á milli mín og verkkaupa. Það var samt lögð áhersla á að baðherbergið væri þægilegt í umgengni og að nýtingin á rýminu yrði góð. Salernið og sturtan voru stúkuð af og einnig var settur upp glerveggur til að afmarka slökunar- og teygjurými.“

Hvað þarf helst að hafa í huga við hönnun baðherbergja? „Baðhergi eru að öllu jöfnu dýrustu rými húsnæðisins m.a. vegna þess hversu margir sérhæfðir iðnaðarmenn þurfa að koma að framkvæmdinni. Það er því aldrei mikilvægara að leggja upp með vandaða hönnun sem endist vel því ekki viltu þurfa að endurgera baðherbergið fljótlega aftur. Á sama hátt er mjög miklvægt að öll vinna við framkvæmdina sé gerð af fagmönnum, s.s. varðandi pípu-, flísa- og raflagnir. Mistök í framkvæmdum geta orðið mjög dýrkeypt ef vinnubrögðin eru ekki í lagi.“

B0024500-1529x2048B0024500-1529x2048

Hvað er vinsælt um þessar mundir og hefur tískan verið að breytast undanfarið? „Þegar baðherbergin eru stór og rúmgóð hef ég meira lagt upp með að fá að skapa notalega spa-stemningu þar sem heimilisfólk getur átt góðar samverustundir. Þetta getur t.d. birst í flísalögðum bekkjum, góðum rúmgóðum sturtum e.t.v. með fleiri en einum sturtuhaus. Þar sem plássið er enn meira getur verið hægt að koma inn vatnsgufu eða sauna og búa til góða tengingu við heitan útipott.

Þessa grein ásamt öllu öðru efni sem birtist í tímaritum Birtíngs getur þú lesið með því að gerast áskrifandi – Prófaðu frítt í 7 daga

Hvað þarf að hafa í huga þegar blöndunartæki eru valin? „Hér er um að gera að velja góð og vönduð vörumerki frá verslunum sem tryggja góða þjónustu. Þú vilt bæði að þetta séu hlutir sem endast vel og að ef það vantar varahluti eða gera þarf við sértu viss um að það sé til staðar. Að þessu leyti finnst mér virknin og gæðin skipta miklu máli og ekki er verra að tækin séu falleg í útliti.“

Góð ráð hvað varðar lýsingu á baðherbergjum? „Eins og í öðrum rýmum hússins þarf fjölþætta lýsingu á baðherhergjum. Númer eitt er góð grunnlýsing sem ég kalla oft „hreingerningarlýsingu.” Í öðru lagi þarf góða förðunar- og snyrtilýsingu við spegla. Að endingu þarf svo dimmanlega lýsingu sem getur hjálpað til að við skapa notalega stemningu t.d. á sturtu- eða baðsvæðum.“

B0024425-1536x2048

Umsjón/ María Erla Kjartansdóttir 
Myndir/ Gunnar Sverrisson 

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!