KVENNABLAÐIÐ

Mikill breytileiki milli kynja og aldurshópa í mataræði Íslendinga

Nýlega birti Embætti landlæknis og Rannsóknastofa í næringarfræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands niðurstöður könnunar um mataræði Íslendinga en þau sáu sameiginlega um framkvæmd og úrvinnslu hennar. Könnunin fór fram í gegnum síma frá september 2019 til ágúst 2021.

Hólmfríður Þorgeirsdóttir:
Hólmfríður Þorgeirsdóttir

Aðferðin var endurtekin sólarhringsupprifjun á neyslu þar sem þátttakendur rifjuðu upp hvað þeir borðuðu og drukku sólarhringinn áður en viðtalið fór fram ásamt því að svara spurningum um tíðni neyslu ákveðinna fæðutegunda eða fæðuflokka. Þjálfaðir spyrlar sáu um viðtölin sem eru vandasöm og fengu þeir ítarlega þjálfun og enginn tók viðtal fyrr en þjálfun var lokið. Unnið var með 2.000 manna slembiúrtak, 18-80 ára, úr þjóðskrá og eingöngu var haft samband við þá 1.545 einstaklinga sem voru með skráð símanúmer og heimilisfang þar sem könnunin fór fram í gegnum síma. Alls tóku 822 einstaklingar þátt.

Niðurstöðurnar sýna að mataræði landsmanna hefur tekið breytingum frá síðustu landskönnun 2010-2011. „Það hefur bæði þokast í átt að ráðleggingum um mataræði og fjær þeim, allt eftir því hvaða fæðuflokkar og næringarefni eru skoðuð. Mikill breytileiki er í mataræði á milli kynja og aldurshópa. Það er jákvætt að neysla á viðbættum sykri hefur minnkað og er það sérstaklega vegna minni neyslu á sykruðum gosdrykkjum en neysla á þeim minnkaði um 40%. Einnig hefur neysla á rauðu kjöti minnkað um 10%,“ segir Hólmfríður Þorgeirsdóttir, MSc og verkefnisstjóri næringar hjá Embætti landlæknis.

„Hins vegar má líka sjá neikvæða þróun þar sem neysla á ávöxtum hefur minnkað síðan 2010-2011, neysla á grænmeti stendur í stað og neysla á heilkornavörum mætti vera meiri. Einungis 2% þátttakenda náðu að borða 500 grömm af grænmeti og ávöxtum daglega eins og ráðlagt er. Mikilvægt er að borða meira af heilum ávöxtum og grænmeti og öðrum afurðum úr jurtaríkinu til að tryggja að við fáum nóg af til dæmis trefjum og vítamínum.“

D-vítamín enn langt undir ráðlögðum dagskammti

Joðneysla hefur minnkað um 20% að meðaltali frá síðustu landskönnun og þá sérstaklega hjá yngsta aldurshópi kvenna sem kemur aðallega til vegna minni mjólkurneyslu og lítillar fiskneyslu í þeim hópi. ,,D-vítamínneysla þeirra sem ekki taka lýsi eða annan D-vítamíngjafa er langt undir ráðlögðum dagskammti (15-20 míkrógrömm á dag) eða 5 míkrógrömm að meðaltali á dag en rúmlega helmingur þátttakenda (55%) segist taka D-vítamín sem fæðubótarefni reglulega (lýsi, perlur, töflur eða úða) eins og ráðlagt er. Meðalneysla á fólati er undir ráðleggingum, sérstaklega meðal kvenna en konum á barneignaaldri er ráðlagt að taka fólat sem bætiefni og 12% þeirra gera það. Það er líka mikilvægt að fá fólat úr fæðunni og er það helst að finna í grænmeti, hnetum, baunum og sumum tegundum ávaxta.

„Niðurstöðurnar benda því til að vert sé að beina athyglinni sérstaklega að yngstu aldurshópum karla og kvenna, 18-39 ára, sem virðast síður fá mikilvæg næringarefni í nægjanlegu magni miðað við eldri landsmenn.“

 

Texti: Unnur H. Jóhannsdóttir

 

Þetta er brot úr lengri grein úr Vikunni.
Finna má hana í heild sinni á áskriftarvef Birtíngs.

Sjö daga fríáskrift er í boði fyrir nýja áskrifendur.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!