KVENNABLAÐIÐ

Hvar keypti Davíð ölið?

Eflaust hefur margur hver velt sér fyrir uppruna orðatiltæksins „að sýna einhverjum hvar Davíð keypti ölið,“ jafnvel samhengi þess og hvernig það rataði inn í okkar menningu.

Orðasambandið um Davíð og ölið er notað á fleiri en einn veg í merkingunni að „láta einhvern kenna á því“. Það er notað með sögninni að sýna, til dæmis „Ég skal sýna þér hvar Davíð keypti ölið ef þú bregst mér,“ með sögninni að vita, til dæmis „Þú færð að vita hvar Davíð keypti ölið ef þú svíkur mig“ og með sögninni að komast að, til dæmis „Þú kemst að því hvar Davíð keypti ölið ef þú gerir ekki eins og ég segi.“

Hingað til lands hefur frasinn borist úr dönsku þar sem það er notað með sögnunum lære og vise og felur í sér væga hótun eins og í íslensku. Samkvæmt Vísindavefnum hefur aldrei verið vitað til þess að um einhvern sérstakan Davíð sé átt en vel er hugsanlegt að einhver saga sé upphaflega að baki.

Orðatiltækið hafa Danir þó fengið frá Þjóðverjum en breytt nafninu. Í þýsku er til dæmis sagt: „Er weiss, wo Barthel den Most holt“, það er ‘hann veit hvert Barthel sækir mjöðinn.“ Merkingin er ‘slingur, kænn, þekkir öll brögð’.

Í háþýsku mun orðasambandið komið úr lágþýsku „he weet, wo Barthel de Mus herhalt.“ Merkingin er skýrð þannig: Hann veit, hvert storkurinn (Barthel) sækir mýsnar (það er börnin). Sá sem trúir því ekki lengur að storkurinn komi með börnin telst kominn til vits.

Önnur skýring á þýska sambandinu er sótt í mál smáþjófa. Úr hebresku kemur orðið Barsel ‘járn, kúbein’ og Moos (ma’oth ‘smámynt’) ‘peningar’. Bein merking væri þá: Þjófurinn veit hvernig hann nær peningunum með því að nota kúbein.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!