KVENNABLAÐIÐ

Aníta bjó við ofbeldi og var búin að sætta sig við að deyja: „Ég bara einhvern veginn gafst upp“

Læknaneminn Aníta Ösp Gunnlaugsdóttir var búin að sætta sig við að deyja. Hún var búin að gefast upp gagnvart hinu hrottalega heimilisofbeldi af hálfu eiginkonu sinnar. Anítu var margítrekað ógnað með hnífi og ofbeldið stigmagnaðist í fjögurra ára sambandinu. „Ég gafst bara upp og ég hætti og ég lá bara þarna og ég bara vonaði að hún myndi bara klára þetta og þetta væri bara búið. Ég var bara búin að sætta mig við að deyja. Ég var orðin svo þreytt, þetta var svo mikið og þetta var alltaf í gangi.“

Lengi vel þorði Aníta ekki að segja frá ofbeldinu því hún skammaðist sín og vildi ekki að nokkur vissi af því hvað hún hafi þurft að þola. Af miklu hugrekki steig hún fram í gærkvöldi og ræddi ofbeldið í þættinum Heimilisofbeldi á Stöð 2.

Ótrúlega ástfangnar

Hin ofbeldisfula eiginkona er frá Bandaríkjunum og urðu þær fljótlega ástfangnar af hvor annarri. Nýja kærastan skrifaði Anítu ástaljós og sagðist ekki sjá sólina fyrir henni. Aníta fékk hins vegar skilaboð frá tveimur fyrrverandi mökum konunnar sem vöruðu við henni. „Ég held að ég hafi ekki viljað trúa því. Ég held að það hafi bara verið þannig. Þetta var svo gott að það gat ekki verið að það væri eitthvað svona,“ segir Aníta sem á þessum tímapunkti var ótrúlega ástfangin.

Jafnt og þétt fór kærastan að byrja að stjórna Anítu með skömmum, ógnunum og skipunum um hvernig hún ætti að klæða sig og hvað hún ætti að borða. Fyrsta skiptið sem hún var beitt líkamlegu ofbeldi var í heimapartýi. „Þegar ég er að fara þá byrjar hún í rauninni, það voru einhverjir nokkrir eftir með mér, þá byrjar hún að kasta glösum í veggina og brjóta glös. Það skipti engu máli hvað ég sagði á þessum tímapunkti, hún var svo reið.“

Aníta segir átökin hafa endað með því að kærastan henti í sig hlutum, reif í hárið á henni og henti Anítu niður stiga. „Hún var með hníf og svo var hún bara að öskra sjáðu hvað þú ert að láta mig gera, þetta er allt þér að kenna, sjáðu hvernig þú lætur mér líða. Hún öskraði á mig að ég væri að láta hana gera þetta og svo man ég eiginlega ekkert eftir það,“ segir Aníta.

Gafst upp

Með tímanum var það æ algengara að eiginkona Anítu missti stjórn á sér og réðst á hana. „Það var gripið í hnakkann á mér, mér dúndrað í jörðina og ég man bara að ég hugsaði okei ég get ekki einu sinni hlaupið, ég get ekki farið neitt því hún kemur bara á eftir mér. Ég bara einhvern veginn gafst upp og sætti mig við að þetta væru mín hlutskipti í lífinu og ég myndi aldrei komast í burtu frá því,“ segir Aníta og bætir við:

„Hún var búin að gera mig að engu, hún var búin að taka allt manneðlið mitt í burtu. Hún, allt sem að mér fannst flott var ljótt, allt sem að mér fannst gott var ljót. Hún stjórnaði hversu þung ég var. Ef ég var of mjó þá var ég ógeðsleg en ef ég fitnaði of mikið lætur hún mig líka vita af því. Ég var bara orðin þannig að borðaði það sem hún sagði mér að borða því ég vildi ekki að hún myndi öskraði á mig“

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!