KVENNABLAÐIÐ

Doktor Viktor veltir fyrir sér hvort svindlað hafi verið í Söngvakeppninni: „Þetta virkar mjög óvenjulegt“

Doktor í stjórnmálafræði, Viktor Orri Valgarðsson, veltir fyrir sér framkvæmd símakosningarinnar í Söngvakeppninni um helgina og bendir á áhugaverða og óvenjulega staðreynd hvað hana varðar. Úrslit símakosningarinnar leiddi til sigurs Eyþórsdætra á kostnað Reykjavíkurdætra, eins og frægt er orðið.

Í raun áttu sér stað tvær símakosningar á laugardaginn. Fyrst var kosið á milli laganna um að komast í úrslitaeinvígið og síðan milli tveggja laga í einvíginu. Viktor bendir á áhugaverða staðreynd eftir að hafa skoðað atkvæðaskiptingu keppninnar síðustu fimm ár aftur í tímann:

Sigga, Beta og Elín báru sigur úr býtum um helgina.

„Reykjavíkurdætur fengu 2850 *færri* atkvæði í einvíginu heldur en í fyrri umferð í Söngvakeppninni á laugardaginn og alls voru greidd 19.381 færri atkvæði í einvíginu heldur en í fyrri umferð… þetta er mjög óvenjulegt miðað við síðustu ár:

2020: Sigurlagið í fyrri umferð (Daði) fékk 22.284 *fleiri* atkvæði í einvíginu en í fyrri umferð, alls voru 10.749 *fleiri* atkvæði greidd

2019: Sigurlagið í fyrri (Hatari) fékk 14.575 fleiri atkvæði í einvíginu, alls 11.304 fleiri atkvæði greidd

2018: Sigurlagið í fyrri (Dagur) fékk 14.297 fleiri atkvæði í einvíginu (en tapaði samt), 7248 færri atkvæði greidd þar í heild

2017: Sigurlagið í fyrri (Svala) fékk 34.312 fleiri atkvæði í einvíginu, 11.744 fleiri atkvæði greidd í heild.

2016: Sigurlagið í fyrri (Alda Dís) fékk 13.264 fleiri atkvæði í einvíginu (en tapaði samt) og 8757 fleiri atkvæði voru greidd í heild.

Sem sagt amk. í síðustu fimm söngvakeppnum á undan þessari (ég leitaði ekki lengra aftur) fékk sigurlagið í fyrri umferð miklu fleiri atkvæði í einvíginu, hvort sem það vann eða ekki, og í öllum nema einni (2018) voru mun fleiri atkvæði greidd í heild þar.“

Viktor leggur áherslu á að hann sé ekki að halda því fram að svindlað hafi verið í Söngvakeppninni.

„Ég er ekki að gefa í skyn að það hafi verið eitthvað samsæri eða svindl í gangi – og alls ekki að gera lítið úr sigurframlaginu eða þeim sem að því standa – en þetta virkar samt mjög óvenjulegt. Voru Reykjavíkurdætur svona rosalega pólaríserandi – og áhuginn á einvíginu samhliða því mun minni en áhuginn á fyrri umferð? Hljómar skrítið fyrir mér. Kannski er eitthvað sem þarf að athuga varðandi fyrirkomulag kosningarinnar “ segir Viktor.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!