KVENNABLAÐIÐ

Bíó Paradís býður uppá norræna kvikmyndaveislu

Auglýsing
Bíó Paradís býður uppá norræna kvikmyndaveislu í tilefni Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2020. Vegna aðstæðna verður dagskráin með breyttu sniði í ár en allar tilnefndu myndirnar fimm verða sýndar í Bíó Paradís dagana 22. – 26. október. Auk þess verða myndirnar aðgengilegar á netinu frá og með 22. okt.  Allar myndirnar verða sýndar með enskum texta.
ATH! Mjög takmarkaður miðafjöldi er á sýningar í Bíó Paradís og verður hver mynd eingöngu sýnd einu sinni.
Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í fyrsta skipti árið 2002 á hálfrar aldar afmæli Norðurlandaráðs, en síðan kvikmyndaverðlaunin festust í sessi árið 2005 hafa þau verið veitt árlega um leið og önnur verðlaun ráðsins. Verðlaunaafhendingin átti að fara fram við hátíðlega athöfn í Reykjavík þann 27. október en vegna Covid-19 faraldursins verða þau veitt í sérstakri sjónvarpsútsendingu á Rúv í staðinn.
Nánari upplýsingar um kvikmyndaverðlaunin og sýningar Bíó Paradís má finna hér: https://bioparadis.is/vidburdir/kvikmyndaverdlaun-nordurlandarads-2020/
Myndirnar fimm sem eru tilnefndar eru:
Bergmál/Echo – Ísland
Screen Shot 2020-10-21 at 11.47.43
Sögusviðið er Ísland um jólaleytið. Meðan fólk er önnum kafið við undirbúning hátíðarinnar tekur sérstakt andrúmsloft völdin og afhjúpar bæði eftirvæntingu og áhyggjur. Lengst uppi í sveit brennur eyðibýli. Í grunnskóla syngur barnakór jólalög. Í sláturhúsi ganga kjúklingar fylktu liði. Á safni rífst móðir í símann við fyrrverandi eiginmann sinn. Inni í stofu fær ung stúlka ömmu sína til að prófa nýja sýndarveruleikatækið sitt … Gegnum 56 senur dregur Bergmál upp nístandi og hjartnæma mynd af nútímasamfélagi.
Bergmál er sýnd í Bíó Paradís fimmtudaginn 22. okt kl. 20:00 og verður einnig aðgengileg á netinu.
Dogs Don’t Wear Pants – Finnland
Screen Shot 2020-10-21 at 11.49.44
Eiginkona Juha drukknaði fyrir slysni. Mörgum árum síðar er hann enn dofinn og á erfitt með að tengjast fólki. Það breytist allt þegar hann hittir dómínu að nafni Mona. Þetta er saga full af svartri kímni, um missi, ást og hinn ljúfa sársauka sem fylgir því að vera til.

Dogs Don’t Wear Pants er sýnd í Bíó Paradís föstudaginn 23. okt kl. 20:00 og verður einnig aðgengileg á netinu.

Uncle – Danmörk

Screen Shot 2020-10-21 at 11.51.04

Kris býr í danskri sveit og rekur lítið býli ásamt eldri frænda sínum, sem er öryrki að hluta. Sérviskulegt en ástríkt samband þeirra hverfist um dagleg störf og þar eru orð óþörf. Kris sér um mestu erfiðisvinnuna og hefur axlað móðurlegt og ofverndandi hlutverk gagnvart frænda sínum. Þegar Kris bjargar lífi nýborins kálfs við erfiðar aðstæður er áhugi hennar á dýralækningum endurvakinn. Hún vingast við málglaða dýralækninn Johannes og fer smám saman að kynnast tilverunni fjarri býlinu. Þegar ástin knýr dyra vaknar spurning sem gæti umbylt tilveru hennar.

Uncle er sýnd í Bíó Paradís laugardaginn 24. okt. kl. 20:00 og verður einnig aðgengileg á netinu.

Charter – Svíþjóð

Screen Shot 2020-10-21 at 11.51.46

Eftir að hafa nýlega gengið gegnum erfiðan skilnað hefur Stokkhólmsbúinn Alice ekki séð börnin sín í tvo mánuði þar sem fyrrverandi eiginmaður hennar, sem býr í Norður-Svíþjóð með börnin, meinar henni að hitta þau. Meðan Alice bíður lokaúrskurðar í forræðismálinu fær hún símtal um miðja nótt frá Vincent, syni sínum, sem er í miklu uppnámi. Hún flýtir sér af stað norður á bóginn til að hitta Vincent og Elinu systur hans. Þegar vonir Alice um sættir verða að engu stuttu eftir komuna á áfangastað nemur hún börnin á brott og heldur í óleyfi með þau til Tenerife til að reyna að tengjast þeim á ný.

Charter er sýnd í Bíó Paradís sunnudaginn 25. okt kl. 20:00 og verður einnig aðgengileg á netinu.
Beware of Children – Noregur
Screen Shot 2020-10-21 at 11.52.25
Myndin Beware of Children rekur spennuþrungnar afleiðingar átakanlegra atburða í miðstéttarhverfi í Ósló. Í skólafríi verður hin 13 ára gamla Lykke, dóttir framámanns í Verkamannaflokknum, fyrir því að valda bekkjarfélaga sínum Jamie alvarlegum áverkum, en faðir hans er áberandi stjórnmálamaður af hægri vængnum. Þegar Jamie deyr á sjúkrahúsi er hætt við því að hinar mótsagnakenndu lýsingar á atburðunum geri erfiðar aðstæður enn verri. Liv, skólastjóri barnanna og leynilegur elskhugi föður Jamies, mætir skólasamfélaginu í miklu uppnámi og tilfinningatogstreitu.
Beware of Children er sýnd í Bíó Paradís mánudaginn 26. okt kl. 20:00 og verður einnig aðgengileg á netinu.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!