KVENNABLAÐIÐ

Hvernig er best að eiga við bakverki?

Bakverkir eru mjög algengir og geta valdið mikilli vanlíðan. Bakverkjakast getur verið kvíðvænlegt og jafnvel minni háttar baktognun getur verið mjög sár.  Flestir bakverkir eiga rót sína í vöðvum, liðböndum og smáliðum hryggjarins. Þú getur ímyndað þér að bakið þitt sé „ekki í formi“. Þú þarft því að koma bakinu aftur í form og fá það til að vinna og hreyfast eðlilega.

Auglýsing
  • Bráður sársauki lagast oftast á nokkrum dögum eða vikum. Horfur til lengri tíma eru góðar.
  • Það sem þú gerir í upphafi getur skipt sköpum. Hvíld í meira en einn eða tvo daga hjálpar sjaldnast og getur gert meira ógagn en gagn.
  • Bakið er hannað fyrir hreyfingu: Það þarfnast hreyfingar. Því fyrr sem þú ferð að hreyfa þig eins og venjulega þeim mun fyrr líður þér betur í bakinu.
  • Þeim vegnar best sem eru virkir og lifa eðlilegu lífi þrátt fyrir verkina.

Ekki liggja í rúminu

Það gæti þurft að draga lítillega úr daglegum athöfnum þegar verkirnir eru slæmir. Rúmlega er ekki meðferð – hún er einfaldlega skammtíma afleiðing verkjanna. Rúmlega í meira en einn eða tvo daga er versta meðferð sem hugsast getur vegna þess að þegar til lengdar lætur lengir hún verkjatímabilið. Mikilvægast er að koma sér á hreyfingu eins fljótt og maður getur.

Það er misjafnt hvaða æfingar henta best. Prófaðu þig áfram – finndu hvað hentar baki þínu best. Takmarkið er að komast í gang og auka hreyfinguna jafnt og þétt. Auktu lítillega við þig dag frá degi.

Enginn heldur því fram að þjálfun sé auðveld. Verkjalyf til að byrja með og ýmis önnur meðferð getur hjálpað við að ná tökum á verkjunum þannig að þú getir hafið æfingar, en þú verður að hafa fyrir því sjálf(ur). Engar aðrar leiðir eru færar. Þú átt einfalt val; að hvíla þig og verða verri eða vinna þig út úr verkjunum og ná þér aftur.

Auglýsing

Þeim mun fyrr sem þú ferð að hreyfa þig og verður virk(ur) þeim mun betra. Aðeins ef verkirnir eru afspyrnuslæmir verður þú að hvíla þig eða taka frí frá vinnu. Reyndu að þræða meðalveginn milli þess að vera eins virk(ur) og þú mögulega getur og reyna samt ekki of mikið á bakið.

Grundvallarreglurnar eru einfaldar:

  • Haltu áfram að hreyfa þig.
  • Vertu ekki of lengi í sömu stellingu, stattu upp og teygðu reglubundið úr þér.
  • Hreyfðu þig meira og lengur dag frá degi.
  • Hættu ekki við að gera hlutina – breyttu bara um aðferðir við að gera þá.
  • Veldu stól og stellingu sem er þægileg fyrir þig – prófaðu þig áfram. Prófaðu að setja stuðning við mjóhrygginn.
  • Gættu þess að stóllinn sé mátulega hár miðað við borðið sem þú vinnur við. Komdu lyklaborðinu og tölvuskjánum þannig fyrir að það reyni ekki á þig.
  • Stilltu bílsætið af og til. Prófaðu að setja stuðning við mjóhrygginn. Stoppaðu reglubundið til að hvíla þig– farðu út úr bílnum, gakktu um og teygðu úr þér.
  • Hugsaðu áður en þú lyftir. Ekki lyfta meiru en þú þarft. Hafðu byrðina nálægt líkamanum.
  • Að versla – Hugsaðu um hvort þú verðir að bera það sem þú kaupir. Haltu á hlutum í fanginu eða deildu þeim á báðar hendur. Ekki bera lengra en þú nauðsynlega þarft. Notaðu innkaupakerruna!
  • Daglegar athafnir/tómstundir – Ekki gera stöðugt það sama. Breyttu til. Það er í góðu lagi að halda áfram að stunda þínar venjubundnu íþróttir, en þú gætir þurft að fara þér hægar. Sund er gott – reyndu að breyta aðferðum – baksund eða skriðsund.
  • Svefn – Sumum finnst stíf rúmdýna hjálpa – eða að setja stífa plötu undir dýnuna. Prófaðu þig áfram. Prófaðu að taka verkjalyf klukkustund fyrir svefn,
  • Kynlíf – Í góðu lagi! – en þú gætir þurft að reyna mismunandi stellingar.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!