KVENNABLAÐIÐ

Ferðalög á meðgöngu

Fólki finnst gaman að ferðast. Sjá nýja staði – smakka nýstárlegan mat – upplifa aðra menningu. Yfirleitt eru ferðalög þægileg og örugg í góðum farartækjum og langflestir koma heilir heim – ánægðir og reynslunni ríkari.

En hvað með konuna sem uppgötvar að hún er barnshafandi akkúrat þegar búið er að staðfesta dýru ferðina sem fara á í eftir mánuð, 3 mánuði eða næsta sumar. Má yfirhöfuð ferðast yfir land og haf þegar gengið er með erfingja í maganum?

Svarið við því er já – í langflestum tilvikum. En jáinu fylgja vitanlega ýmsir fyrirvarar og aðvaranir og það er alltaf rétt að ráðfæra sig við ljósmóður og/eða lækni í mæðravernd áður en farið er af stað.

Auglýsing

Læknisþjónusta erlendis

Frumskilyrði þess að ferð verði ánægjuleg og hættulítil er að konan sé hraust og meðgangan eðlileg og áfallalaus. Það er ágæt regla að kanna hvernig læknisþjónustu og fæðingarhjálp er háttað á áfangastað um leið og verið er að ákveða hvert skal farið. Víðast í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum er læknisþjónusta mjög góð en síðri í Austur-Evrópu og fátækari ríkjum heimsins og oft erfitt að nálgast hana. Sé ferðast með viðurkenndri ferðaskrifstofu sjá fararstjórar um að veita upplýsingar um læknisþjónustu og aðstoða ferðamenn við að nálgast hana. Nauðsynlegt er að athuga hvort einhverjir sjúkdómar eru þar landlægir og hvort bólusetja þurfi við einhverju öðru en hér er gert. Yfirleitt er ekki ráðlegt að bólusetja konur á meðgöngu þannig að ef þörf er á einhverju slíku væri réttast að fresta ferðinni eða fara eitthvað annað.

Tryggingar

Tryggingar þurfa að vera á hreinu – fyrir hverju er tryggt og hvaða pappírum þarf að framvísa í viðkomandi landi til að fá viðunandi læknishjálp. Milli margra landa ríkja samningar þannig að Íslendingar greiða sama verð og innfæddir fyrir læknisþjónustu, en á öðrum stöðum þarf að borga háar upphæðir. Þegar heim er komið borgar Tryggingastofnun Ríkisins mismunin ef framvísað er gildum kvittunum. Munið því að fá nótur fyrir allri læknishjálp sem þegin er erlendis, sem og öllum lyfjum.

Flugferðir

Undir eðlilegum kringumstæðum eru flugferðir ekki hættulegar fóstrinu. Það er vel varið inni í sínum vatnsbelg í leginu. Ekki hefur verið sýnt fram á meiri hættu á að fæðing fari af stað í flugvél en í bíl eða öðru farartæki. Hins vegar vilja flugfélögin oft tryggja sig gegn slíkum uppákomum og taka því ekki farþega sem gengnir eru lengra en 36 vikur. Sum flugfélög krefjast læknisvottorðs um að meðgangan sé eðlileg og ekki hætta á fyrirburafæðingum eða óvæntum uppákomum í ferðinni. Það er vitaskuld engin leið að læknir geti lofað því að ekkert komi upp á, en auðvitað sjálfsagt að fá slíkt vottorð sé beðið um það. Kannaðu hvernig þessi mál eru hjá flugfélaginu sem þú ferðast með, áður en ferðin er keypt.

Auglýsing

Ein mesta hættan við lengri flugferðir er hversu lengi þarf að sitja kyrr. Kyrrsetur geta nefnlilega orsakað blóðtappa í fótum. Sú hætta er jafnvel enn meiri á meðgöngu, en ella, þar sem storkukerfið er virkara á meðgöngu og æðarnar eftirgefanlegri og því safnast frekar í þær. Til að sporna við þessu er gott að drekka mikinn vökva áður en farið er af stað og meðan á ferðalaginu stendur til að halda góðu vökvajafnvægi. Til að halda blóðinu á hreyfingu þarf að hreyfa fætur – rétta, kreppa og snúa öklum, herpa og slaka á rasskinnum og standa reglulega upp og ganga um, ef hægt er. Vertu í fötum sem ekki þrengja að þér um maga, læri og í nárum. Það getur verið gott að vera í léttum stuðnigssokkum á leiðinni og það er líka ágætt að hafa tösku eða eitthvað sem líkist skemli undir fótum þannig að lærin liggi ekki á sætisbrúninni og frítt streymi sé um æðarnar. Svo þykir mjög gott ráð að taka barnamagnyl (125mg), ½ töflu daginn fyrir flug og ½ töflu daginn sem flogið er – það minnkar segann í blóðinu þannig að minni hætta er á að það hlaupi í kekki.

Hiti

Sé farið til heitari landa þarf að gæta þess að ofhitna ekki og nota góða sólarvörn. Mikill hiti getur orsakað fósturskaða og á meðgöngu er hætta á að húðlitarefnið hlaupi í kekki í sólinni þannig að húðin verði flekkótt. Skýldu þér með ljósum fatnaði, kældu þig vel þegar þú ferð að svitna og haltu þig innandyra yfir heitasta tíman. Gættu þess einnig að drekka mikið af vökva til að bæta þér upp vökvatap með útgufun og svita.

Matur

Eins og gildir um alla sem ferðast ætti barnshafandi kona einungis að drekka soðið vatn eða vatn og aðra drykki á flöskum og afþakka klaka í drykkina þar sem þeir eru gerðir úr kranavatni. Gætið ykkar á skelfiski, ostum og kjúklingi og pantið einungis vel unninn mat sem þið þekkið einhver deili á, ef þið borðið á veitingahúsum. Ef þið kaupið mat í kjörbúðum skuluð þið passa að hann sé plastpakkaður og dagsettur. Sjóðið allan mat vel og borðið ekkert sem þið eruð ekki viss um að sé í lagi. Brauð eru yfirleitt ómengað ef það er keypt í kjörbúð en vandið valið á álegginu. Mjúkir ostar og heimatilbúnir ostar eru varhugaverðir og einnig ósoðið kjötálegg. Ávexti er yfirleitt í lagi að borða ef þið afhýðið þá eða þvoið mjög vel. Grænmeti skuluð þið hins vegar sjóða nema það komi í umbúðum frá viðurkenndum ræktanda. Verið ekki að borða eitthvað sem þið kaupið heimatilbúið eða handtýnt frá markaðssölumönnum. Maður veit aldrei hvað gæti hafa sest á það.

Heilbrigð skynsemi

Í meðgönguverndinn færðu ýmis ráð og leiðbeiningar sem vitaskuld gilda áfram þótt þú sért í útlöndum. Mundu eftir að taka með þér vítamínin þín og þau lyf sem þú þarft að nota. Notaðu skynsemina og forðastu aðstæður sem geta verið varhugaverðar, eins og mikil þrengsli í mannfjölda og uppátæki sem þú tækir ekki þátt í heima fyrir. Til viðbótar má svo benda á ráðleggingar til ferðamanna á Doktor.is

Ef frá eru skilin þessi „örfáu“ varnaðarorð þurfa ferðalög á meðgöngu ekki að vera neitt meira mál en þegar ekki er gengið með barn. En leiki einhver vafi á að meðgangan sé eðlileg eða konan hefur einhver einkenni sem gætu versnað, annað hvort vegna ferðalagsins eða tímans sem líður þar til hún kemur til baka, ætti ekki að leggja í langferðir. Það er ekkert dýrmætara en nýtt líf og ekkert ferðalag þess virði að stefna því, eða móður þess, í hættu.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!