KVENNABLAÐIÐ

Þess vegna ættir þú alltaf að nota sleipiefni

Þær eru fjölmargar, ástæðurnar sem liggja að baki notkun sleipiefna. Stundum liggur einföld þrá eftir tilbreytingu að baki notkun þeirra og þau eru ófá pörin sem bregða á leik með sleipefni í þeim eina tilgangi að krydda kynlífið. Þá er markaðurinn sneisafullur af sleipiefnum með ólíku yfirbragði og næsta víst er að hvert og eitt getur framkallað afar ólíkar upplifanir.

Sumar konur notast við tilbúin sleipiefni til að stríða mót eðlilegu ferli náttúrunnar. Þegar aldurinn færist yfir konur, minnkar að sama skapi estrogen framleiðsla líkamans sem aftur merkir að skeiðin (innri kynfæri konunar; leggöngin) á erfiðara með að bregðast við örvun. Í stuttu máli merkir þetta að „eldri konur eiga erfiðara með að blotna.“

Auglýsing

Að sama skapi getur tilbúið sleipiefni gert kraftaverk fyrir magnþrungnar maraþonsamfarir; í þeim tilfellum þegar samfarir hafa varað í langan tíma, þegar andinn er viljugur en holdið er veikt – þegar hugann þyrstir í meira en líkaminn megnar ekki að hefja leikinn allt upp á nýtt. Þegar sú er raunin, getur sleipiefni gert gæfumuninn og dregið umtalsvert úr hættu á beinum núningsmeiðslum sem geta myndast á kvensköpunum sjálfum við kraftmiklar samfarir, sé rakastigið ekki ákjósanlegt. Þá getur notkun smokka einnig dregið úr rakastigi skeiðarinnar og því getur notkun sleipiefna, í þeim tilfellum sem smokkurinn er notaður sem vörn, komið til hjálpar þegar varnir náttúrunnar þrýtur.

Stundum getur reynst nauðsynlegt að notast við sleipiefni. Aldrei ætti að reyna endaþarmssamfarir án þess að hafa sleipiefni við hendina. Sé sleipiefni ekki haft um hönd við endaþarmsmök er talsverð hætta á að endaþarmurinn verði fyrir skaða, jafnvel varanlegum. Þegar titrari er notaður ætti einnig alltaf að hafa sleipiefni við hendina, sér í lagi ef titrarinn er notaður um nokkurt skeið.

En sleipiefni má einnig nota í þeim eina tilgangi að auka á unað og skemmtun. Karlmenn nota gjarna sleipiefni við sjálfsfróun og þú getur hæglega notast við sleipiefni til að örva getnaðarlim ástmanns þíns. Ilmolíur, sem eru oft ákjósanlegar þegar líkamsnudd er annars vegar eru ekki hentugar til að gæla við kynfæri ástmanns þíns, því þær geta valdið ertingu og í einhverjum tilfellum, framkallað ofnæmisviðbrögð. Til eru sleipiefni sem einnig er hægt að nota í fyrrgreindum tilfellum og fela í sér tvíþætta virkni; til að framkvæma líkamsnudd og gæla við kynfærin.

Hvernig nota ég sleipiefni?

Möguleikarnir á notkun sleipiefna eru endalausir og takmarkast í raun og veru aðeins við ímyndunaraflið. Hvort sem limurinn fer í leggöng eða endaþarm, byrjar karlmaðurinn leikinn á að setja örlítinn dropa af sleipiefni inn í totuna á smokknum áður en smokknum er smeygt upp á liminn. Þegar smokkurinn hefur verið settur haganlega á getnaðarliminnn sjálfan, er þunnu lagi af sleipiefni smurt utan á smokkinn. Ef þið (parið) notist ekki við smokka, er þunnt lag af sleipiefni einfaldlega borið á stinnan getnaðarliminn rétt áður en hann rennur inn í skeiðina eða endaþarminn. Einnig er hægt að bera sleipiefni á barma konunnar eða kringum endaþarminn, til að auðvelda getnaðarlimnum inngöngu.

Hvaða sleipiefni á ég að velja?

Hér skiptir öllu máli hvort þú notast venjulega við smokka eða ekki. Sé slíkt tilfellið; er nauðsynlegt að þú veljir vatnsleysanlegt og „smokka-vænt“ sleipiefni („Water Based Condom Safe“). Ekki er mælt með sleipiefnum sem bera í sér olíur, því slíkt getur brotið niður sameindabyggingu smokksins, sem drepur niður varnir hans og umbreytir honum í gagnslausan fylgihlut í besta falli.

Jafnvel þó þú notist ekki við smokka, skaltu hugsa þig tvisvar um áður en þú hefur notkun olíukenndra sleipiefna. Þessar gerðir sleipiefna eru ósamhæfanlegar við innri líkamsflóru mannslíkamans, þau eru illuppleysanleg og geta valdið langvinnum sveppa- og þvagfærasýkingum.

Ef þú vilt sneiða hjá þungun og auka á öryggi við samfarir, getur þú notast við sæðisdrepandi sleipiefni. Þannig getur þú létt af þér áhyggjum ef smokkurinn rofnar við samfarir eða rennur af getnaðarlimnum þegar hann er dreginn út. Þetta er kjörin leið til að koma í veg fyrir óvænta eða óvelkomna þungun. Gættu þess þó að notast við sæðisdrepandi sleipiefni í algeru hófi. Þessi gerð sleipiefna getur valdið talsverðri ertingu á kynfærunum ef notkun þeirra fer fram oftar en á 24 klst fresti. Þau geta jafnvel valdið sveppasýkingum í of miklu magni. Aldrei má notast við sæðisdrepandi sleipiefni við endaþarmssamfarir. Slíkt er ekki bara ónauðsynlegt, heldur getur slíkt sleipiefni valdið óþarfa og langvinnum ertingi.

Gerðu aldrei eftirfarandi ….

Gættu þín vandlega á að grípa aldrei til annarra efna sem fyrirfinnast á heimilinu í stað sérútbúinna sleipiefna. Ekki gera það. Nuddolíur, rakakrem og fljótandi sápuefni geta unnið skaða á líkamanum og valdið sársauka sem óþægindum. Allt sem inniheldur sótthreinsandi efni drepur heilbrigða flóru líkamans niður og ýtir undir þrálátar sveppasýkingar, sem erfitt getur verið að vinna á.

Í stuttu máli sagt, ætti að varast öll efni og áburði sem ekki eru sérhönnuð sleipiefni. Innihaldslýsing á pakkningum tekur undantekningarlaust fram hvort sleipiefnið er nothæft á kynfæri eða ekki. Reglan er sú, að sé slíkt ekki tekið fram á pakkningunum sjálfum, hentar efnið eða áburðurinn alls ekki.