KVENNABLAÐIÐ

Bólusetning gegn inflúensu

Inflúensa er bráð veirusýking, oftast með hita, sem orsakast af inflúensu A og B veirum og veldur faraldri nánast á hverjum vetri. Hlutfall þeirra sem smitast og veikjast í faraldri er 10-40% og vara faraldrar gjarnan í 5-10 vikur. Inflúensa A er algengari en inflúensa B en báðar tegundir geta greinst í faraldri.

Einkenni

Dæmigerð inflúensa byrjar oft skyndilega eftir eins til tveggja daga meðgöngutíma en talið er að smit milli manna sé mest með úða frá öndunarfærum. Margir sjúklingar geta sagt með nákvæmni upp á klukkustund hvenær einkenni byrjuðu. Í upphafi ríkja einkenni eins og hiti, hrollur, höfuðverkur, vöðvaverkir og slappleiki. Slæmir verkir í augnvöðvum geta komið þegar horft er til hliðanna. Almenn einkenni og hiti vara oftast í þrjá daga. Öndunarfæraeinkenni eins og hósti, hálsóþægindi, nefstífla og nefrennsli eru oftast til staðar í upphafi veikinda en í skugga almennu einkennanna en verða oft meira áberandi með tímanum.

Eldra fólk getur veikst með hita, slappleika og rugli, en er stundum hitalaust, og hættir að geta hugsað um sig heima. Lungnabólga í kjölfar inflúensu er mun algengari hjá eldra fólki, en aðrir fylgikvillar eru t.d. berkju- og skútabólga.

Auglýsing

Greining

Læknir getur greint inflúensu með nokkurri nákvæmni með góðri sögutöku og skoðun þegar staðfest hefur verið að inflúensufaraldur sé í gangi. Unnt er að staðfesta greiningu inflúensu með töku sýna úr öndunarvegi og/eða blóði frá sjúklingi.

Meðferð

Mikilvægt er að fá næga hvíld, drekka vel af vökva og taka verkjalyf og hitalækkandi lyf eftir þörfum.

Til eru tvenns konar sérhæfð lyf sem verka gegn inflúensuveirum A og B. Geta þau stytt tímalengd einkenna og dregið úr einkennum og fylgikvillum inflúensuveirusýkingar einkum ef þau eru gefin fljótt eftir að einkenni hefjast. Eldri lyfin verka eingöngu gegn inflúensu A veirum en hafa lítið verið notuð hér á landi m. a. vegna aukaverkana. Nýrri lyfin verka bæði á inflúensu A og B veirur, hafa minni aukaverkanir en eldri lyfin og ónæmi gegn þeim myndast síður en við notkun eldri lyfjanna. Annað hinna nýju lyfja er duft til innöndunar en hitt kemur í hylkjum ( Tamiflu ). Til þess að lyfjameðferð dragi úr einkennum og stytti tímalengd einkenna er nauðsynlegt að hefja lyfjameðferð innan 48 klst. frá upphafi einkenna.

Bólusetning

Bóluefni til varnar inflúensu hefur verið í notkun um árabil. Í því eru dauðar inflúensu A og B veirur. Bóluefnið hefur litlar aukaverkanir í för með sér en má ekki gefa þeim sem hafa ofnæmi fyrir eggjum. Það veldur ónæmissvörun í líkamanum sem minnkar líkur á eða kemur í veg fyrir að fólk veikist. Einnig dregur það úr veikindum hjá eldra fólki og lækkar jafnframt dánartíðni af völdum inflúensu og lungnafylgikvilla hennar.

Auglýsing

Landlæknir mælir með inflúensubólusetningu hjá öllum eldri en 60 ára og börnum og fullorðnum sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi veikindum.

Mælt er með bólusetningu gegn inflúensu árlega þar sem breytingar eiga sér stað á inflúensu stofnum frá ári til árs.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!