KVENNABLAÐIÐ

Dyravörður gagnrýnir slæleg vinnubrögð lögreglu vegna konu í annarlegu ástandi

Hrafnkell Ívarsson er dyravörður á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur. Hann varð vitni að því um helgina er ung kona, sem virtist hafa verið byrlað lyfjum, fékk ekki aðstoð lögreglu í miðbænum. Hrafnkell reyndi ýmislegt til að hjálpa henni en mætti ekki þeim skilningi sem hann óskaði eftir hjá lögreglu.

Gefum Hrafnkeli orðið:

Ég skrifa sjaldan á Facebook, en eftir að hafa orðið vitni að vægast sagt ömurlegum vinnubrögðum lögreglu í gærkvöld/nótt þá verð ég að tjá mig um það einhversstaðar. Eins og margir fésbókarvinir mínir gætu vitað, þá hef ég starfað sem dyravörður í nær 6 ár. Í nótt, skömmu fyrir lokun, var samstarfsmönnum mínum tilkynnt um stúlku í mjög annarlegu ástandi. Það þurfti tvo dyraverði til að beinlínis halda á henni út af staðnum, því hún var alveg máttlaus í löppunum. Þetta var ólíkt hefðbundinni ölvun vegna þess að hún hafði meðvitund þrátt fyrir að geta ekki staðið. Hún gat þó ekki gert grein fyrir því hvar hún ætti heima, með hverjum hún hefði verið eða hvað hún héti.

Með öðrum orðum má segja að hún hafi ekki gert sér mikla grein fyrir umhverfi sínu.

Ég mat svo að hringja þyrfti í 112, í því tilfelli að um byrlun lyfja gæti verið að ræða.

Auglýsing

Eftir stuttar samræður við neyðarlínuna var mér tjáð að þeir myndu senda til okkar bíl. Eftir 25 mínútna bið hafði enginn bíll komið, en okkur tekst að veifa til lögreglubíls sem átti leið hjá. Eftir að hafa útskýrt málið fyrir lögreglukonunum sem sátu frammi í bílnum mætti mér ekkert annað en yfirlæti. Úr framsæti bílsins voru þær búnar að ákvarða að ekki væri um lyf að ræða, byggt á því að stúlkan væri í símanum sínum. Þetta voru allt vonlausar tilraunir við að nota símann en henni gekk illa að jafnvel aflæsa símanum, þrátt fyrir að það væri fingrafaraskanni á honum: „Heyrðu vinur, ef þú myndir þekkja einkennin gætir þú strax séð að henni hefur ekki verið byrlað neitt“ sagði bílstjórinn og þegar ég reyndi að útskýra fyrir henni að það væru fleiri efni notuð í slíkum tilgangi en smjörsýra og rohypnol var nánast hlegið að mér.

Meðan ég tala við lögregluna tekst stúlkunni einhvern veginn að standa í lappirnar og staulast að lögreglubílnum og taka um hurðarhúninn á bílnum, við það steig loks lögreglumaður úr bílnum, en bara í þeim tilgangi að segja henni að hypja sig frá bílnum. Svo segir bílstjórinn mér að hún verði bara að finna sér leigubíl. Hún var ekki í neinu ástandi til þess. Þar að auki var stúlkan ferðamaður og rataði ekkert um borgina og gat hvorki tjáð mér né lögreglu hvaða hóteli hún væri að gista á. Eftir að lögreglan hafði hæðst að mér fyrir að „vanmeta“ stöðuna, keyrir bíllinn í burtu og skilur stúlkuna eftir, enda höfðu þeir engan áhuga á að hjálpa henni.

Stúlkan gat augljóslega ekki komist nokkurn skapaðan hlut af sjálfsdáðum og hrynur aftur utan í vegginn á skemmtistaðnum. Sem örþrifaráð býðst ég til að hringja í einhvern sem hún þekkir og gæti komið henni til aðstoðar. Hún var enn við það litla meðvitund að hún skildi ekki hvað ég var að reyna að spyrja hana að. Ég tók því símann hennar og aflæsti honum með vísifingrinum á henni, hún hafði það litla meðvitund að hún skildi ekki einu sinni að ég væri kominn með símann hennar í hendurnar. Sú tilraun til að finna einhvern „contact“ var gagnslaus, því síminn var stilltur á hennar móðurmál sem ég skildi ekki.

Meðan þetta átti sér stað var kominn íslenskur maður á miðjum aldri (semsagt u.þ.b tvöfalt eldri en hún) og hann stendur upp við hana. Meðan ég leit af henni hafði hann læst höndunum um handlegg hennar og var farinn að toga hana til sín og virtist gera sig tilbúinn að nema hana á brott. Ég verð var við þetta og segi honum að hundskast í burtu og sló hendi hans frá stúlkunni. Hann sleppti henni og forðaði sér hratt án þess að segja nokkuð.

Auglýsing

Loks keyrir framhjá annar lögreglubíll sem tekur eftir stúlkunni. Út stígur lögreglumaður og hann talar við stúlkuna. Á meðan lögreglumaðurinn talar við stúlkuna lokar staðurinn og ég fer því í verkefni tengd lokun staðarins. Þegar ég kem aftur sé ég lögreglumanninn senda stúlkuna í burtu. Því næst hverfur hún út í nóttina völt með öxlina utan í veggjum húsalengjunnar sem skemmtistaðurinn stendur við, til þess að halda jafnvægi.

Nú er mér og örugglega flestum öðrum Íslendingum mál Birnu Brjánsdóttur mjög ferskt í minni. Ég hafði vonast til þess að einhverjar breytingar hefðu átt sér stað til að auka öryggi fólks í miðbænum, en svo virðist ekki vera. Öll loforð um aukið öryggi hafa gleymst. Mér finnst þetta allavega ekki ásættanleg vinnubrögð af hálfu lögreglunnar og get ekki annað en vonað að stúlkan hafi komist að lokum í öruggt skjól.

_______________________________________________________________________________________________

Uppfært 20.55 – Skilaboð frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu:

Nokkur umfjöllun hefur verið á frétta- og samfélagsmiðlum í dag vegna fésbókarfærslu dyravarðar um sinnuleysi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gagnvart stúlku, sem hann taldi vera ósjálfbjarga í miðborginni aðfaranótt laugardags. Lögregla tekur slíkar ábendingar mjög alvarlega og hefur skoðað málsatvik ítarlega, en bæði var kallað eftir skýringum lögreglumanna á vettvangi og farið yfir myndefni úr eftirlitsmyndavélum á svæðinu.

Fram kemur að lögregla hafði í tvígang tal af stúlkunni og bauð fram aðstoð sína. Stúlkan kærði sig hins vegar ekki um aðstoð lögreglu og hélt loks sína leið fótgangandi úr miðborginni ásamt vinkonu. Embættið lítur svo á að lögreglumenn á vettvangi hafi brugðist rétt við, en hafa skal hugfast að í tilvikum sem þessum er gjarnan haft áfram auga með viðkomandi, þ.e. með aðstoð eftirlitsmyndavéla.

Lögreglan þakkar dyraverðinum fyrir að vekja athygli á málinu, en það sýnir að fólk er á varðbergi og stendur ekki á sama. Jafnframt harmar lögreglan að upplifun hans af samskiptum við lögreglumenn á vettvangi hafi ekki verið betri.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!