KVENNABLAÐIÐ

Ertu búin/n að kynna þér Heilsuveru – rafrænan aðgang þinn að heilbrigðisupplýsingum um þig?

Heilsuvera er upplýsingavefur þar sem einstaklingar geta náð í heilbrigðisupplýsingar um sig úr miðlægum gagnagrunni allra heilbrigðisstofnana. Þessi vefur er á ábyrgð Embættis landlæknis og er unnin í samvinnu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hugbúnaðarfyrirtækið TM Software.

Tilgangurinn með Heilsuveru var að þróa öruggan rafrænan aðgang fyrir einstaklinga að eigin heilbrigðisupplýsingum, hvar og hvenær sem þörf væri á og óháð því á hvaða heilbrigðisstofnun, heilsugæslustöð eða starfsstofu sérfræðings upplýsingarnar væru skráðar.

Auglýsing

Með aðgangi að Heilsuveru geta einstaklingar nú fengið yfirsýn yfir lyfjanotkun sína, sótt rafrænt um endurnýjun lyfseðla, séð stöðu lyfseðla í lyfseðlagátt, séð ofnæmi sem hefur verið skráð í sjúkraskrá, séð framkvæmdar bólusetningar, átt örugg rafræn samskipti við heilbrigðisstarfsmenn og bókað tíma rafrænt á heilsugæslustöð. Auk þess er hægt að fá aðgang að upplýsingum eigin barna að 16. ára aldri.

Heilsuvera er enn í þróun og munu einstaklingar smám saman fá aukinn aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum með hjálp Heilsuveru.

Má t.d. nefna aðgang að upplýsingum um legur á sjúkrahúsi, heimsóknir á heilsugæslustöð, helstu greiningar og meðferðir, rannsóknaniðurstöður, hverjir hafa flett upp í sjúkraskrá einstaklingsins og möguleika á eigin skráningu einstaklinga í sjúkraskrá (t.d. ýmis vítamín og önnur lyf en þau sem eru lyfseðilsskyld).

Auglýsing

Aðgangur að Heilsuveru

Til þess að fá aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum í Heilsuveru þarf rafræn skilríki. Rafræn skilríki eru bæði fáanleg á snjallkortum og í farsímum. Nánari upplýsingar er að finna á síðunni Rafræn skilríki .

Til að skrá sig inn í Heilsuveru ferð þú inn á https://www.heilsuvera.is/ 

Til þess að fá aðgang að rafrænum tímabókunum á heilsugæslustöð og endurnýjun lyfjaseðla þarf að vera skráður á heilsugæslustöðina.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!