KVENNABLAÐIÐ

S U M A R L Ú K K I Ð: SEX heilræði fyrir sólstrandarlífið

Það vildi ég óska að Norðurlandabúinn ég hefði áttað mig fyrr á þeirri staðreynd að það er ekki nóg að taka með vandaða sólarvörn á ströndina eða að sundlaugarbakkanum. Sólin er steikjandi heit, olían smýgur inn í hörundið og þegar inn er komið og dagur er að kveldi kominn, er hörundið – eitt stærsta líffæri líkamans – löðrandi í svita, olíu og óhreinindum sem loða við líkamann.

Hárið, sem áður var fagurt og silkimjúkt, stendur eins og sjálfstæður stráhattur út í loftið og æpir á næringu. Varirnar sólbrunnar … tásurnar sveittar … og svona má lengi telja. Hér fara því nokkur heilræði sem ég vildi óska að einhver hefði sagt mér áður en farið var af stað:

daily-glow-photogallery-spa-treatment-woman-with-bowl-of-hot-wax

#1 – Farðu í vaxmeðferð áður en í ferðalag er farið:

Ég er strandarkona. Fer umsvifalaust í sandala, gríp með handklæði og storma á ströndina í hvert sinn sem ég fer til sólarlanda. Auðvitað sest ég svo í flæðarmálið, nýt þess að leyfa sólinni að baka hörundið og svo byrjar ballið. Bikiníbuxurnar fyllast af sandi, nýrakaðir fótleggirnir eru auðsærðir og viðkvæmir fyrir áreiti og óværan úr flæðarmálinu loðir við brúskuð skapahárin. Í alvöru.

Því þykir mér betra að fara í vax. Ekki af einskærri löngun til að líta vel út, heldur af heilbrigðisástæðum. Vaxmeðferðin er ekki sársaukalaus, en endist lengur en hefðbundinn rakstur líkamshára sem dugar einungis í fáeina daga og það sem meira er, þegar hárin taka að vaxa aftur – eru þau fíngerðari eftir vaxmeðferðina en raksturinn.

51hHM+aVhFL

#2 – Vertu óspör á AFTER SUN og skrúbbaðu hörundið vel:

Þú þarft að skrúbba hörundið vel með mildri hörundssápu og skrúbbsvampi í sturtunni – á hverju kvöldi – að loknu sólbaði. Bæði rífur skrúbbsvampurinn upp dauðar húðfrumur, djúphreinsar hörundið og sefar hörundið eftir sólbaðið.

Hér er gott líkamskrem ekki bara munaður, heldur alger nauðsyn og ekki að ástæðulausu að sum sólarkrem bera heitið AFTER SUN – því nauðsynlegt er að fylgja þessari reglu; – köld sturta í lok dags / mjúkur hörundsskrúbbur með mildri sápu / vel kælt After Sun krem (jafnvel beint úr ísskápnum) á allan líkamann. Líkamskremið nærir hörundið, dregur úr sviða vegna sólbruna og gefur hörundinu fallegri áferð.

300

#3 – Leggðu meikið á hilluna:

Já. Í alvöru. Notaðu vandaðan varasalva með sólarvörn, leggðu meikið á hilluna (í bókstaflegri merkingu) og taktu frekar upp sólarpúðrið. Vatnsheldur maskari er nauðsyn í sólarlöndum, – góður augnbrúnablýantur líka – því hárin aflitast hreinlega í sólinni. Mundu að þú ert að taka lit – andlitshörundið er að breyta um áferð og því er meiktónninn sem þú notast venjulega við heima … ekki viðeigandi á sólarströnd, þegar andlitið fer að taka lit í sólinni. Þess utan er rakinn talsverður, þú svitnar talsvert í hitanum og meikið getur einfaldlega runnið niður í taumum. Notaðu þess vegna frekar vandað rakakrem sem grunn og fallegt sólarpúður sem mattar hörundið. Mundu eftir augnbrúnalitnum og smelltu á þig möttum varalit sem ekki rennur til.

fl1135

#4 – Halló stráhattatíska!

Hárið er viðkvæmt fyrir veðrabreytingum og því er tvennt æði sniðugt; að fara í klippingu og litun ÁÐUR en lagt er af stað í ferðalagið og að hylja hárið á daginn meðan sólin er sem hæst á himni. Ég hef einu sinni farið í klippingu á sólarströnd og endaði snoðklippt með blásvart hár. Ég og hárgreiðslukonan skildum ekki hvora aðra … og því fór sem fór.

Viltu lýsa hárið? Gott er að kreista safann úr sítrónu og bera vel í hárið áður en farið er á ströndina. Sítrónan lýsir hárið náttúrulega og svo er það auðvitað fjólubláa sjampóið í sturtuna á eftir. Fyrir þær sem það kjósa.

En í Guðs bænum. Mundu eftir djúpnæringu, sem jafnvel er hægt að greiða gegnum hárið áður en farið er út á daginn. Hitinn gerir að verkum að næringin smýgur dýpra inn og myndar varnarfilmu um hárið, sem svo er hægt að skola úr í sturtunni þegar heim er komið. Ég er með þurrt hár … því set ég hárið í hnút, smelli á mig stráhatti og storma út með djúpnæringuna í hárinu. Mér er alveg sama hvernig ég lít út á ströndinni, en það þætti mér leitt að eyðileggja hárið með öllu í sumarfríinu.

509p3e-l-c680x680-tie+dye-bra-bandeau-bikini-blue+swimwear-purple+swimwear-orange+swimwear-white+swimwear-swimwear

#5 – Hlýralaus bikinítoppur með grönnum böndum!

Ég á þrjá bikinítoppa. Alla bikinítoppana keypti ég í H & M í Osló, þar sem veðráttan er örlítið hryssingslegri en á Spáni. Einn er glæstur ásýndar, með þykkum push-up púðum, voldugri spöng og svo þéttum hlýra sem nær yfir axlirnar og aftur á bak. Þegar út var komið smellti ég mér beint í haldarann, óð niður á strönd og kom heim eins og sebrahestur eftir daginn.

Fallegi push-up haldarinn minn fékk því að fjúka eftir sólarhring og við tók sá rauði, sem er örlítið nettari en þó með breiðum bakhlíra. Ég entist í þeim rauða í þrjá daga, enda vantaði púðana í þann og því örlítið svalara og auðveldara að berjast gegnum ríflega 40 gráðu hita í léttum bikinítopp. Þegar hér er komið sögu hef ég tekið þann þriðja fram (sem er léttastur þeirra allra) – hann er ekki með hlýrum og því er ég farin að fá jafnar lit á axlir og bringu – en lít ekki lengur út eins og sebrahestur …

beach

#6 – Allar konur eru einstakar í ófullkomleika sínum:

Vertu ekkert að velta þessu kroppatali fyrir þér. Útlitsdýrkun heyrir öðrum heimshlutum til og þekkist vart hér við strendur Miðjarðarhafsins. Á ströndinni má sjá allar gerðir og stærðir kvenna. Feitar konur og mjóar konur. Íþróttalegamannslega vaxnar konur og óléttar konur. Konur með slitinn maga og konur með sigin brjóst. Konur með eitt brjóst eða engin brjóst.

Berbrjósta konur, kappklæddar konur, fallegar konur og sköllóttar konur. Og allar liggja þær saman á ströndinni, hlið við hlið – algerlega óháð því hvað tískublöðin kunna að segja um hinn fullkomna kvenmannslíkama – því þær eru komnar í þeim eina tilgangi að slaka á frá önnum dagsins, njóta sólarinnar og hlaða sálina orku áður en flögrað er á vit ævintýra eftir sólsetur.

Bless, útlitskomplexar & Halló, sumar!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!