KVENNABLAÐIÐ

Að hætta að vera dramadrottning hefur sína ókosti

Karen Lind skrifar: Ég hef alltaf verið viðkvæm. Ég hef í rauninni alltaf litið á það sem einhvað sem er slæmt. Einhvað sem er öðruvísi og passar ekki alveg inní heildarmyndina. Mér fannst alltaf eins og heimurinn ætti að vera sanngjarn og allir ættu að fá sömu tækifæri, alltaf. Ef aðrir hugsuðu ekki eins og ég þá varð ég leið. Ef aðrir gerðu ekki eins og ég myndi gera þá varð ég sár.

Ég hélt að allir hugsuðu eins og að þeir sem myndu ekki gera eins og ég væru að gera það viljandi. Væru bara alveg sama þó ég væri leið. Samskiptahæfileikar mínir voru frekar sérstakir. Ég var viðkvæm, ég var brothætt. Ef ég varð leið og enginn vildi koma og hugga mig þá var það af því ég var svo leiðinleg, ég var svo viðkvæm.

Auglýsing

Ég vissi að þannig horfðu hinir krakkarnir á mig. Ég horfði þannig á mig sjálf. Ég var öðruvísi. Ég grét og tók öllu persónulega inná mig. Ég gat verið mjög skemmtileg og hress en um leið og einhvað pínulítið var að þá brotnaði ég niður. Ég skildi ekki af hverju og sá strax eftir því. Ég fór því aftur til baka og reyndi að gera grín af sjálfri mér eða láta eins og ekkert hafi gerst. Ef krakkarnir tóku það ekki í mál þá grét ég.

 

Af hverju voru þau svona vond? Af hverju fannst þeim bara allt í lagi að ég var að gráta? Er ég virkilega svona ömurleg? Af hverju fannst öllum þetta bara vera í lagi? Alltaf þegar ég sá einhvern gráta þá fann ég svo til með honum. Af hverju fann enginn til með mér? Svona hugsaði ég. Það var sagt, hættu að gráta. Þetta er ekki þess virði að gráta yfir. Dramadrottning. grenjuskjóða. Af hverju var ég svona? Af hverju mátti enginn segja neitt við mig án þess að ég færi að gráta? Af hverju grét ég stundum og vissi ekki af hverju ég var að gráta. Hvað var að mér? Hvað var öðruvísi hjá mér?

 

Heima var það allt annað. Heima var öryggið og allir sem mér þótti vænt um. Ég var bara Karen litla sem þurfti smá auka knús. En það var allt annað utan heimilisins. Fyrir öðrum var ég öðruvísi, ég brást öðruvísi við. Ég vissi að ég hefði gert rangt og baðst alltaf afsökunar, skammaðist mín fyrir sjálfa mig og vonaði að það væri hægt að gleyma þessu. Þetta gerðist aftur og aftur og aftur. Af hverju var ég svona? Dramadrottning. Ég var alltaf að búa til einhvað meira úr aðstæðum en var í raun. Það var ekki viljandi. Það var aldrei viljandi. Ég trúði því sem ég var að hugsa, hugsaði um það sem raunveruleika.

Fyrir mér var öllum sama um að mér leið illa. Ég var bara óþægindi sem truflaði venjuleg samskipti milli barnanna. Ég horfði niður á sjálfa mig. Mér fannst ég ömurleg. Svo kom að því að margir vinir mínir fengu bara nóg. Ég var svo mikil dramadrottning. Það var ekki gaman að vera með mér. Eftir það byrjaði ég að vinna og vinna í sjálfri mér. Stoppa mig af. Ef ég var leið yfir einhverju þá var það bara þannig. Það þurfti enginn að vita það. Ef mér fannst einhvað ósanngjarnt þá var það bara þannig. Ég byrjaði hægt og rólega að stoppa mig af. Ég sjálf. Eftir það þá vildi fólk vera með mér.

Ég var ekki lengur eins viðkvæm og áður. Ég var ekki lengur eins mikil dramadrottning. Ég passaði inní. Í kjölfarið fór ég samt sem áður að þróa með mér kvíða. Í stað þess að upplifa tilfinningasveiflurnar sem ég fékk þá fór ég að upplifa kvíðaeinkenni. Hægt og rólega og það hélt bara áfram að magnast upp. Ég ætlaði samt ekki að vera dramadrottning. Ég ætlaði ekki að vera óþægindi. Ég átti vini sem héldu utan um mig þegar mér leið illa. En innst innra með mér fannst mér eins og ég þyrfti að passa mig að verða ekki of viðkvæm, of væmin, of sár, of leið.

Ef ég myndi fara aftur á sama stað og ég var. Ef ég myndi bregðast of illa við eða vera of viðkvæm. Þá myndu þeir fara. Þannig leið mér, óháð því hvort raunin væri þannig. Oft hefur mér liðið eins og það sé bara verið að bíða eftir einhverju „breaking point“ og um leið og það sé komið að því ,þá sé stungið af. Komið nóg. Svo ég passa mig á því hvernig ég bregst við. Ég passa mig að vera ekki „of“ mikið af einhverju. Ef mér líður eins og ég sé óvart farin á þann stað þá reyni ég eins og ég get að laga það. En verð á sama tíma mjög hrædd um að vera yfirgefin.

En það er innra með mér. Það er ekki raunveruleikinn. Ég sé sjálfa mig í svo allt öðru ljósi en aðrir sjá mig. Ég get verið minn versti óvinur. En það er að lagast. Ég er alltaf að vinna meira og meira í sjálfri mér. Ég treysti því að þeim sem þykir vænt um mig þyki einfaldlega vænt um mig og séu ekkert að fara. Sama hvað gerist. Ég veit það. Af hverju leið mér illa, af hverju brást ég svona við, af hverju var ég svona viðkvæm?

Ég grét yfir hlutum sem þóttu skrýtnir að gráta yfir. Allt var persónuleg árás á mig. Heimurinn v.s. Karen. Það þótti líka mjög gaman að stríða mér. Því ég brást alltaf illa við. Ég tók því alltaf nærri mér. Það komu alltaf einhver viðbrögð. Viðkvæma, brothætta Karen sem þoldi ekkert. Mamma sagði alltaf að ég væri gull, að heimurinn væri ríkari að hafa mig í honum. Ég skildi það ekki. Ég hlustaði aldrei á það. Fyrir mér var ég fyrir. Ég er ennþá þessi litla stelpa. Sterkari samt í dag heldur en í gær. Samt viðkvæm, samt brothætt. Ég var dramadrottning.. en af hverju var ég dramadrottning? Hvað var að hrjá mig? Hvers vegna tók ég allt inná mig? Hvers vegna hugsaði ég öðruvísi en aðrir? Hvers vegna var allt svona erfitt? Hvers vegna fékk ég mígreni þegar ég var í kringum of mikið af fólki?

Auglýsing

Frá 4 ára aldri. Afmæli, heimsóknir, skóli, ferðir, hvað sem er. Mígreni ef of mikið var að gerast. Vont mígreni sem gerði mig veika í nokkra daga. Ég var ekki lengur dramadrottning. Ég passaði mig að koma alltaf vel fram við alla. Alla. Nema mig. Allir í kringum mig skiptu miklu meira máli en ég. Það var mitt hlutverk að passa að þeim leið ekki óþæginlega. Ég vildi ekki að ég væri að láta þeim líða óþæginlega, gerði hlutina erfiðari fyrir aðra. Nei, aldrei aftur. Allt sem ég gerði var til að þóknast öðrum. Á sama tíma var ég að dæma mig fyrir að þóknast öðrum. En ef öðrum leið vel þá gerði ég ekki rangt. Eða gerði ég það óvart? Var ég að láta fólki líða óþæginlega? Hvernig gæti ég lagað það. Ég yrði meira góð. Meira vinaleg. Innra með mér hugsaði ég samt að það væri alls ekki sú sem ég er. Það væri bara einhver sem ég væri að þykjast vera. Því ég var ekki góð. Ég var tímasprengja sem vildi að öllum líkaði vel við sig og ef það var ekki raunin þá þurfti ég að laga það.

Ég var ekki dramadrottning. Nei. Mér fannst ég samt vera feik. Ég var ekki góð manneskja. Ef mér fannst ég gera gott þá var það sjálfselskt. Það væri bara ég að upphefja sjálfa mig á kostnað annara. Þó svo það sem ég gaf af mér væri gott. Það væri samt bara ég að þykjast vera betri en ég er.

Fjölskyldan mín og mínir nánustu tóku mér eins og ég var. En hvað ef allir aðrir í kringum mig myndu sjá hvað ég er viðkvæm. Myndi einhver vilja mig. Myndi ég ekki bara enda eins og þegar ég var lítil. Ein. Grátandi. Skildi ekki afhverju enginn vildi koma og hjálpa mér. Ég þurfti hjálp. Ég veit það núna. Ég þurfti öðruvísi leiðir til að læra. Ég þurfti að vita að það væri allt í lagi að vera ég. Það væri allt í lagi að vera viðkvæmur. Ég þyrfti bara öðruvísi nálgun. En það eina sem ég heyrði var að ég væri öðruvísi og verri en aðrir. Einu raddirnar sem ég hlustaði á. Oftast komu þær frá mér sjálfri. Ég er ennþá viðkvæm og væmin og allt heila klabbið. Það er erfitt en ég er að vinna í því á hverjum degi.

Það er allt í lagi að gráta. Það er gott fyrir sálina. Ég er ekki verri einstaklingur fyrir það að gráta yfir „ómerkilegum“ hlutum.

Það er bara of mikið í gangi. Of mikið af hugsunum og tilfinningum. Loksins veit ég hvað var „að“. Hvers vegna ég er eins og ég er og hef fengið mikla hjálp í að vinna í því. Ég sé hlutina frá öðru sjónarhorni. Ég finn til með þeim sem finna til og vil hjálpa eins og ég get. Ég er mikil tilfinningavera og tjái mig oft öðruvísi en aðrir. Ég er væmin en ég er traust. Ég er hreinskilin og ég er hlý. Ég vil öllum fyrir bestu. Ég vil ekki að neinum líði illa. Ég veit hvernig það er að líða illa. Ég horfi á bakvið hlutina, ég sé stærri samhengin. Ég horfi ekki á einstakling og segi „hann er bara svona“. Ég horfi á einstakling og segi „það eru margir þættir undirstaða á því afhverju einstaklingurinn er eins og hann er.“ Ofhugsanir. Sem eru bæði góðar og slæmar. Slæmar hafa áhrif á það hvað mér finnst um mig sjálfa og það hefur áhrif á nánasta fólkið mitt. Góðar snúast að því að reyna að hjálpa þeim sem þurfa hjálp og halda utan um þá sem eiga erfitt.

Það á engum að líða illa yfir því að finnast einhvað erfitt. Þeir þurfa bara öðruvísi nálgun á hlutina. Ég er bara eins og ég er. Ég geri eins vel og ég get. Ég dett stundum í neikvæðu gryfjuna og ríf sjálfa mig niður. Ég ríf mig upp úr gryfjunni og held fast í það hvað ég væri ekki eins og ég er ef hlutirnir væru öðruvísi. Ef ég væri ekki væmin og viðkvæm. Ég get hjálpað. Ég hef hjálpað. Ég held áfram að hjálpa. Ég fylgi hjartanu. Þeir sem efast um það, efast bara um það. Það gildir líka um mig sjálfa.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!