KVENNABLAÐIÐ

Vinkona mín Gógó

Ég ólst að mestu leiti upp í Reykjavík, Vogahverfinu og gatan mín hét Nökkvavogur. Húsið var bárujárnsklætt og niðurgrafni kjallarinn þar sem ég bjó málaður himinblár. Húsið mitt var annað hús frá horninu og í götunni fyrir neðan var lítil hverfisverslun.

Það var um vetur, nánar tiltekið 2. desember 1988 að ég var 6 ára gömul og mamma átti afmæli. Besta vinkona mín á þeim tíma var á leið til mín í heimsókn og ég beið hennar standandi úti á horni. Ég vaggaði mér á grindverkinu og horfði niður eftir götunni þar sem að ég vissi að vinkona mín myndi koma úr þeirri átt. Upp götuna labbaði gömul kona, hún dró á eftir sér innkaupatösku á hjólum. Hún var með hvítt englahár, geislandi. Hún hafði rölt í litlu hverfisbúðina og var á leiðinni heim til sín. Þessi gamla kona átti eftir að eiga stóran part af barnæsku minni. Hún stoppaði hjá mér sagðist heita Guðríður en sagðist vera kölluð Gógó. Við spjölluðum lengi saman ég man hvað mér þótti hún dásamleg.

Auglýsing

Gógó bauð mér að koma við tækifæri í heimsókn til sín. Hún bjó í götunni fyrir ofan mig. Hún lýsti húsinu sínu og sagði mér húsnúmerið. Íbúðin hennar var á efri hæð í stóru fallegu hvítu húsi. Ég man að inni í stofunni var fallegur gamall sófi. Á veggjunum voru myndir af fólkinu hennar, listaverk og í loftinu var pottaplanta hangandi sem líktist helst stóru baunagrasi þar sem það náði á milli veggja. Ég var tíður gestur hjá þessari gömlu konu sem setti í sig krullur og klæddi sig í fína kjóla. Hún var alltaf svo vel til höfð, hún var það glæsileg að ég man ennþá hvernig fötin hennar voru.

Gógó safnaði steinum, hún elskaði steina, mismunandi ólíkar gerðir steina. Hún var með steina bæði inni hjá sér og fyrir utan. Þegar ég sá fallegan stein þá stakk ég honum í vasann og geymdi handa Gógó minni.Eitt skipti ákvað ég að kynna litlu systur minni fyrir Gógó. Systir mín var lítil og hógvær, feimin með freknur og þorði lítið að segja. Hún fylgdi mér í sjálfu sér bara eftir og leyfði mér að tala þó svo að henni fyndist gaman að fá að koma með. Ég á minningu þennan daginn um okkur tvær sitjandi i á tröppunum hjá Gógó með smartís í litlum kössum sem hún hafði laumað að okkur skoðandi með henni steinana sem hún hafði safnað að sér. Við fengum að heyra nöfnin á þeim öllum og sögurnar af því hvar hún hefði fengið þá.

Ég var dugleg að hjálpa Gógó í garðinum sem hún hafði ræktað og oftar en ekki dró ég litlu systir með. Við reittum með henni arfa og vökvuðum blómin.Gógó var dugleg að segja sögur bæði af sjálfri sér og öðrum. Í eitt skipti vorum við systurnar í heimsókn hjá henni, hún hafði boðið okkur inn, við sátum í sófanum hennar í fínu stofunni á meðan Gógó sagði okkur sögur af syni sínum sem var kvikmyndagerðamaður. Hann gerði síðar mynd þar sem aðalpersónan var mamma Gógó.

Stundum var Gógó ekki í stakk búin til að fá okkur inn eða spjalla við okkur á tröppunum en hún var ráðagóð og laumaði til okkar súkkulaðikexi eða öðru góðgæti út um gluggann eða bréfalúguna. Alltaf löbbuðum við með sælubros frá húsinu hennar .

Þessi vinátta okkar við Gógó var einstök þótt hún væri tæplega 70 árum eldri en við. Gógó hafði ótal mannkosti sem voru það heillandi að hún varð manni fyrirmynd. Kærleikur við náungann, við vorum ekki minnimáttar og hún kom fram við okkur eins og jafningja þrátt fyrir aldursmun sem gæti spannað heila mannsævi. Hún kenndi manni að gefa með sér, gefa öðrum tíma, brosið hennar var svo einlægt og hlýjan svo mikil. Hún treysti manni fyrir verkefnum og hrósaði fyrir vel og jafnvel ekki vel unnin störf.

Auglýsing

Ég á sjálf börn og þegar synir mínir voru litlir sagði ég þeim stundum söguna um Gógó fyrir svefninn. Elsti strákurinn fæddist meira að segja á afmælisdegi hennar. Ég fór með þá í ísbíltúr, keyrði með þeim fyrir utan húsið hennar og ég veit að systir mín hefur gert það sama fyrir sín börn þar sem að í eitt sinn fór ég með systur dóttur mína fyrir utan húsið hennar Gógóar og þá sagði hún „mamma hefur komið með mig hingað, hér átti Gógó heima“

Ég er sannfærð um að forlögin hafa laumað Gógó inn í líf mitt. Vinátta mín og Gógóar var mín gjöf, ein af þeim gjöfum sem lífið hefur gefið mér. Og fyrir það er ég þakklát.

Höfundur greinar: Alma Rut

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!