KVENNABLAÐIÐ

Bréf frá fullorðinni konu með ADHD

Þessi íslenska kona vill ekki láta nafns síns getið: Þegar ég var lítil var umræðan um ADHD talsvert minni heldur en hún er í dag. Ég var sett í flokk sem óþekkur og illa uppalinn krakki. Ég truflaði hina krakkana í tíma, ég gat ekki setið prúð eins og aðrir og hafði ekki sömu einbeitingu. Verkefnin mín voru útkrotuð og ég nagaði blýantinn.

Það voru ansi mörg skipti þar sem ég var látin sitja ein fremst alveg við kennaraborðið þá urðu aðrir krakkar í bekknum fyrir minna ónæði frá mér. Skólastjórinn þekkti mig vel ég var tíður gestur hjá honum. Hann var í reglulegu sambandi við mömmu sem var orðin ansi þreytt á því að fá símtöl sem innihéldu lýsingar á því hversu óþekk ég væri. Ég var mjög virk og hvatvís, oft fylgir mikil hvatvísi ADHD ég dró krakkana með mér í allskonar uppákomur ég fékk í nokkur skipti að heyra hluti um mig eins og að ég væri spilliköttur og það voru nokkrir krakkar sem máttu ekki vera með mér.

Auglýsing

Skólinn kom með þá tillögu að ég myndi ganga til sálfræðings, tímanir snérust um það af hverju hegðun mín væri svona slæm og alltaf komu þeir tímar út á því sama: Ég var óþekkur krakki og sökin var mín. Skólasálfræðingurinn sótti mig inn í kennslustofu í hverri viku og það var mjög niðurlægandi það vissu allir í bekknum að ég væri hjá sálfræðingi reglulega og mér fannst það skömmustulegt. Það er að mörgu leyti erfitt fyrir barn að vera með ADHD, erfiðara og flóknara en fólk sem er ekki með ADHD gerir sér grein fyrir.

Það að geta ekki lært heima eins og aðrir, vera álitin illa gefinn því þú tekur ekki eftir í tímum og af því að þú gast ekki unnið verkefnið þitt jafn vel og hinir. Það er erfitt að hafa ekki einbeitingu, hafa mikla orku sem erfitt er að ráða við og vera skammaður fyrir að vera þannig, samt getur maður ekki að því gert og ræður ekki við að vera svona.

Í dag er ég orðin móðir, ég þakka fyrir umræðuna um ADHD og ég man hvað það var mikill léttir fyrir mig að vita að ég var ekki vitlaus, ég var ekki óþekk, ég var ekki illa upp alin. Með árunum varð ég meðvitaðari um mína röskun, fjölskyldan mín aðlagar sig að mér því það er jú oft erfitt fyrir bæði maka og börn manneskju með ADHD að skilja. Það hefði breytt mörgu hjá mér varðandi barnæsku mína ef ég hefði verið greind á sínum tíma og sloppið undan öllu því neikvæða sem ég gekk í gegnum.

Auglýsing

Ef ég hefði fengið þann skilning sem einstaklingar með ADHD fá í dag, það hefði hjálpað mér mikið og þá hefði ég ekki upplifað mig sem „öðruvísi“. Umræðan er mikilvæg fyrir alla sem eru með þessa röskun, sérstaklega börnin okkar sem þurfa hvatningu og skilning en ekki skammir og niðurrif.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!