KVENNABLAÐIÐ

„Stærsti sigurinn fólginn í því að halda alltaf áfram”

Ævi Friðjóns Víðissonar hefur ekki verið einföld en hann varð fórnarlamb kynferðisofbeldis á grunnskólaaldri. Friðjón er 29 ára stúdent í háskólanámi í dag: „Afleiðingarnar eru ofboðslega faldar,” segir hann, en hann er ótrúlega hugrakkur og ætlar sér ekki að láta manninn sem braut á honum stjórna lífi hans lengur.

Friðjón stundar nám við Háskóla Íslands og er á þriðju önn í tómstunda- og félagsmálafræði. Hann byrjaði í félagsráðgjöf en fann sig ekki þannig hann skipti um grein.

Í dag vinnur hann með fólki – og börnum – sem hann telur sig vera afar heppinn með: „Þetta er mitt svið, ég er búinn að finna það,” segir hann brosandi. Hann vinnur í frístundaheimilinu hjá Ártúnsskóla í Árbænum.

Tómstundafræði er tiltölulega ný grein og lítið rannsakaður geiri að sögn Friðjóns. „Það þarf að nálgast börnin auðvitað á mismunandi hátt,” segir hann. „Stundum getur þetta verið smá „kaos.””

Auglýsing

Friðjón er í fiskamerkinu, alinn upp til tveggja ára í Vesturbæ Reykjavíkur og svo mestmegnis í Fossvoginum. Í Fossvoginum hitti hann hinsvegar kvalara sinn sem bjó í hverfinu. Friðjón telur að það hafi verið þegar hann var 5-8 ára gamall. Hann veit það ekki fyrir víst þar sem er erfitt fyrir hann að muna nákvæmlega atburði og annað því allt á til að renna saman og stundum er ógjörningur að muna hvað gerðist: „Kynferðisofbeldið hófst á fyrri stigum grunnskóla. Þarna var maður sem misnotaði sér aðstöðu sína. Hann braut á mér og það gekk á í nokkur ár. Hann byrjaði eins og kynferðisglæpamenn gera: Ávann sér traust mitt.”

 

Í meira en heilt ár sýndi maðurinn Friðjóni klámmyndir. „Þannig reyndi hann að undirbúa farveginn fyrir það sem koma skyldi,” segir Friðjón.

 

Kynferðisofbeldið gengur á í nokkur ár, fram til þess tíma að Friðjón er unglingur: „Þetta hætti loksins þegar ég var farinn að eldast. Þegar hann áttar sig á því að ég er orðinn það stór að hann ræður ekki við mig lengur. Skaðinn er hinsvegar að sjálfsögðu skeður,” segir hann.

Í minningunni rennur þetta skeið algerlega saman í eitt hjá Friðjóni. Vill hann meina að um einhverskonar varnarmekanisma sé að ræða: „Börn eru það saklausasta sem til er. Ef einhver er snillingur í að finna aðferðir til að lifa af – þá eru það börn. Enginn er betri í því. Ég vildi óska að ég hefði fengið að vera barn, upplifa að byggja grunn minn á heilbrigðan hátt,” segir Friðjón sem var þvingaður inn í fullorðinsheim sem börn eiga ekkert erindi í.

Sagði engum frá fyrr en á fullorðinsárum

Friðjón hélt ofbeldinu leyndu fyrir öllum. Það var ekki fyrr en hann varð fullorðinn að hann sagði foreldrum sínum frá. Friðjón leitaði sem betur fer ekki í eiturlyf eða annað rugl en upplifði hinsvegar stanslausan sársauka og grátköst. Segir hann afleiðingarnar vera ofboðslega margar og erfitt að staðsetja þær þar sem honum finnst stundum eins og „einhver sé að ýta á takkana hjá manni og maður skilur ekki hvað er að gerast.”

Gleðin gersamlega hvarf

Friðjón kveðst alltaf hafa verið lokaður félagslega en þegar ofbeldið byrjaði versnaði einangrunin. Finnst honum erfitt að setja sig inn í þennan tíma því hann nær ekki tengingu við „þennan strák” – og meinar hann þá þann strák sem varð fyrir ofbeldinu: „Ég horfi á myndir af mér frá þessum tíma. Ég þekki ekki þennan strák. Ég kannast ekki við manneskjuna á myndinni. Ég fór bara gersamlega inn í mig.”

Auglýsing

Auðvitað hugsar Friðjón mikið um hvernig gerandinn rændi hann flestu sem börn eiga ekki að fara á mis við: „Ég veit ekki hvort það tengist beint þessu sem kom fyrir mig. Alvarleikinn varð ofan á hjá mér. Ég var alltaf svo alvarlegur. Það vantaði alla gleði í mig. Hún bara hvarf. Það var ekkert sem mér fannst fyndið eða gleðilegt, það var eins og slökkt væri á gleðinni í mér.”

 

Friðjón hefur ekki kært kvalara sinn: „Ég held að það sé of seint núna, það er einhver fyrningartími á kynferðisbrotamálum sem mér finnst fáránlegur. Því sárin fyrnast aldrei.”

Friðjón sagði foreldrum sínum frá en hefur ekki tjáð sig meira um málið fyrr en núna. Hann tjáði sig hinsvegar þegar hann var 21 eða 22 ára – fyrir sjö til átta árum síðan. „Það var hinsvegar ekki eitthvað sem ég ætlaði mér. Svo vildi til að mamma varð vitni að einu grátkastinu mínu. Þegar ég brotnaði saman í tíuþúsundasta skipti. Þá sagði ég henni frá þessu,“ segir hann.

Stígamót

Friðjón hefur leitað til Stígamóta og er enn í meðferð hjá þeim. Finnst honum stundum eins og allt sé á grænni grein en svo á til að koma bakslag: „Já, það er eins og afleiðingarnar séu faldar. Þetta fer aldrei, vil ég meina. Afleiðingarnar koma oft í ljós löngu, löngu seinna.”

Afleiðingarnar telur Friðjón vera þær að hann á erfitt með að tengjast fólki. Hann á erfitt með að mynda vinatengsl og líður oft eins og þegar hann var unglingur: Að vera týndur. „Já, þetta er einkenni sem ég hef upplifað lengi. Öll unglingsárin mín fannst mér eins og ég tilheyrði ekki. Hver er ég? Hvað vil ég? Allskonar svona spurningar hafa herjað á mig í gegnum tíðina.”

Sigur þrátt fyrir erfiðleika

Friðjón er samt ótrúlega brattur þrátt fyrir allt sem á undan er gengið og það er yndislegt að heyra hann segja: „Ég vil samt hrósa mér! Það sem á undan er gengið hefur ekki brotið mig. Ég er búinn að klára stúdentinn, ég er rafvirki og nú er ég í háskólanámi. Það er í raun ótrúlegt. Ég vil koma fram með mitt mál til að hjálpa öðrum í sömu sporum – sem hafa lent í svipuðu og ég.”

Friðjón komst lífs af - en ekki án vandkvæða.
Friðjón komst lífs af – en ekki án vandkvæða.

Langaði oft að taka eigið líf

Friðjón segist hafa verið sleginn vegna sjálfsmorðs Bergs Snæs, ungs drengs á Seltjarnarnesi sem gerðist fyrir skömmu síðan. Hann hafði lent í svipuðu ofbeldi og Friðjón. „Mig langaði svo sannarlega að gera það sama og hann. Ég vil meina að það var ekki ég sem bjargaði lífi mínu. Ég var bara svo kjarklaus. Ég finn oft fyrir reiði en ég finn henni ekki endilega farveg á heilbrigðan hátt. Ég læt reiði mína bitna á mér….þegar ég geri eitthvað „rangt” á ég til að berja mig niður fyrir það. Ég ruglast svo í rýminu, veit ekki hvernig ég á að beita reiðinni.”

 

Friðjóni leið svona á árunum frá unglingsárum til tvítugs: „Þér líður kannski vel inn á milli en svo kemur þessi óbærilegi sársauki. Þú veist ekkert hvað triggerar hann.”

 

Segir Friðjón einkennandi fyrir að hafa upplifað slíkt ofbeldi að tilfinningar fari hreinlega á hvolf: „Það er ofboðslega erfitt að staðsetja tilfinningar manns. Hvort sem þær eru gagnvart þér eða annarri persónu. Það fer allt í 180°. Þú kannski verður reiður og lætur það bitna á rangri manneskju.”

Friðjón stundar nú 12 spora samtök en telur erfitt að taka einhvern æðri mátt inn í líf sitt: „Mér finnst það erfitt. Ef hann er til hefur hann aldrei hjálpað mér.”

Þunglyndi

Friðjón greindist með þunglyndi árið 2014 sem lesendum finnst eflaust ekki skrýtið: „Grátköstin minnkuðu eftir að ég fór á lyf. Í stað þess að vera 15 í mánuði urðu þau kannski tvö. Þeir sem lenda í svona hryllilegri reynslu byrgja oft inni sársaukann. Ég mæli ekki með því – sársaukinn er ekki þess virði. Það sem ég vil segja við þá sem komast lífs af eftir að brotið hefur verið á þeim: Haldið áfram! Haldið alltaf áfram! Það sem kom fyrir ykkur á ekki að skilgreina ykkur. Þið verðið að vera þið sjálf – bara ÞIÐ, ekkert annað.”

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!