KVENNABLAÐIÐ

Nýr vefur! Kvon.is fer í loftið í dag

Lífsstíls- og menningarvefurinn KVON fellir leiktjaldið á hádegi í dag, þann 11. apríl 2016, en vefnum er ætlað að taka á jákvæðri líkamsvitund, kynheilsu kvenna, heilnæmu mataræði og hjálplegum úrræðum í daglegu lífi; KVON er íslenskt vefrit sem iðar af sjálfsást, lífsgleði og krónískri elsku á fegurri hliðum tilverunnar.

kvon in

Að baki vefritinu standa þær Klara Egilson og Heiðveig Madsen, sem jafnframt eru systur og eru búsettar á meginlandi Skandinavíu. Klara er búsett í útjaðri Oslóar þar sem hún sinnir ritstörfum en Heiðveig er búsett í Kaupmannahöfn og hefur undirbúningsnám fyrir grafíska hönnun nú í haust. Þá mun móðir þeirra systra, leikkonan Rósa Ingólfsdóttir, leggja fram skemmtileg innslög í formi óborganlegra pistla.

 

Sjáandinn og talnaspekingurinn Hermundur Rósinkranz hefur undanfarna tvo áratugi starfað með talnaspeki sem spádómsform til að þess að skyggnast inn í framtíð, nútíð og fortíð og má nú lesa mánaðarlegar talnaspár hans á vef KVON.

 

Kærleiksmolar Kollu Kvaran, sem jafnframt er ritstjórnarfulltrúi KVON, eru mörgum kunnir en Kolla hefur einnig ráð undir rifi hverju þegar að heimilishaldi kemur. Húsráð Kollu eru hagnýt og verður gaman að glugga í galdrakistuna með þessari skemmtilega úrræðagóðu listakonu.

 

Guðmundur Galdur Egilson, sjö ára gamall sonur Klöru Egilson, á heiðurinn að firmamerki KVON, en merkið hannaði Galdur í höndunum og skipar ungi listamaðurinn því sérstakan heiðurssess á vefnum fyrir grafíska aðkomu.

 

Hvað merkir orðið KVON eiginlega?

 

Orðið KVON á rætur að rekja til forn-norrænnar tungu en orðið KVAEN merkir DROTTNING eða EIGINKONA. Orðið CWEN kemur úr forn-ensku og er af sama stofni og KVAEN, en af því er orðið QUEEN komið; DROTTNING, RÁÐANDI KONA, KONA, EIGINKONA.

 

Þó að orðin KVAEN (forn-norræna) og CWEN (forn-enska) séu náskyld og komin af sama stofni er ákveðinn merkingarmunur milli þeirra. KVAEN þýðir KONA / EIGINKONA og vísaði forn-norræna merkingin þannig til giftrar konu, samanber KVAN-FANG (að giftast, ganga í hjónaband, taka sér kvon-fang). KVANLAUSS merkti að vera ógiftur karl eða jafnvel ekkjumaður. Skemmtilegt er frá því að segja að forn-norræna orðið KVAN-RIKI vísar til ofríkis konu; þar sem kona situr við einráð við stjórnvölinn.

 

Heitið KVON hefur af fyrrgreindum ástæðum sterka og einarða merkingu í augum ritstjórnar; endurspeglar skapandi þrótt kvenna og rétt þeirra til að ráða ríkjum í eigin lífi ~ að vera sínar eigin konur.

 

Veffang KVON er kvon.is ~ KVON er einnig á Facebook: facebook.com/kvon.is

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!