KVENNABLAÐIÐ

Tara Ösp Tjörvadóttir: Eigin fordómar hindra okkur í að sækja hjálp við þunglyndi

Tara Ösp skrifar: Eftir að hafa verið í gíslingu eigin fordóma opnaði ég mig opinberlega um veikindi mín í lok síðasta árs, eftir 11 ára baráttu. Þá fann ég að byrði þess að fela þunglyndið var þyngri en sjúkdómurinn sjálfur, sem er átakanleg staðreynd hjá mörgum sem glíma við andlega sjúkdóma. Eigin fordómar hindra okkur í að sækja hjálp, þeir hindra okkur í að tala um baráttu okkar, en það er ekki fyrr en við förum að tala um veikindin sem okkur fer að batna.

Í beinu framhaldi af frelsun minni höfðu tugir manna samband við mig sem voru fangar eigin fordóma og vildi ég hjálpa þeim að stíga fram. Ég fór af stað með verkefnið Faces Of Depression með það að markmiði að mynda andlit 100 Íslendinga sem voru í baráttunni við þunglyndi. Verkefnið var hugsað sem vettvangur fyrir þunglynda til að opinbera veikindi sín auk þess að vekja samkennd með sjúkdómnum.

Baráttan við fordóma á langt í land og er næsta verkefni mitt fræðslu heimildarmyndin Depressed Nation, þar sem ég mun taka viðtöl við fólk víðsvegar um landið sem hefur reynslu af þunglyndi og blanda því saman við fræðsluefni. Myndin mun fræða þig bæði um þunglyndi, áhrifin sem fordómar hafa og hvað við getum gert til að gera samfélagið okkar að virkari, samstæðari og heilbrigðari stað til að búa á.

Meðaltími sem þunglynd manneskja bíður eftir að fá hjálp frá því hún veikist og þar til hún leitar sér hjálpar eru 10 ár og þunglyndi rétt eins og aðrir sjúkdómar getur versnað með tímanum.

Við þurfum að grípa inn í áður en það er um seinan.
Við þurfum að fræða börnin og unglingana okkar um andlega sjúkdóma til að fyrirbyggja eftir bestu getu langvarandi andleg veikindi.
Við þurfum að kenna samfélaginu að tala um andlega sjúkdóma og brýna mikilvægi þess að tala um þá.

Verum stolt af baráttum okkar og annarra við andleg veikindi og styðjum hvort annað því við erum langt frá því að vera ein.

Hér má sjá allar ljósmyndirnar 100 í einu vídeo, en einnig er hægt að sjá verkefnið í heild sinni á www.fodproject.com

Horfið í augu þeirra og segið þeim að þau eigi skilið að vera stolt af baráttu sinni við sjúkdóm sem veldur mestri vanvirkni í heiminum.

Horfið í augu þeirra og segið þeim að þau eigi ekki skilið jafnt aðgengi að meðferð og þeir sem glíma við líkamlega sjúkdóma.

Þunglyndi er sjúkdómur sem 20% mannvera mun veikjast af einhvern tíman á lífsleiðinni og það er í okkar höndum að stuðla að opinni umræðu um geðsjúkdóma, til að fyrirbyggja af mesta magni langvarandi veikindi.

Þunglyndi er ekki tabú.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!