KVENNABLAÐIÐ

Leikskólatuð!

Guðný Matthíasdóttir skrifar: Ég á barn í leikskóla í Reykjavík og þrátt fyrir að ég sé mjög ánægð með starfsfólkið, starfsemina og þá þjónustu sem við fáum á opnunartíma, þá er ég ósátt við þá hluti, sem Reykjavíkurborg stjórnar… en leikskólinn hefur ekki nein áhrif á.

 

Það fyrsta sem ég vil nefna er: Leikskólinn lokar í júlí. Af hverju er það sjálfgefið að ég og pabbi barnsins, getum fengið sumarfrí, ár eftir ár á sama tíma? Af hverju eiga samstarfsfélagar, sem ekki eiga börn á leikskólaaldri, að þurfa að taka sumarfrí á öðrum tímum, ár eftir ár, bara af því ég á barn á leikskóla? Af hverju þarf atvinnulífið, nánast að standa í stað í júlí á hverju ári, af því að ekki er ráðið inn sumarafleysingafólk á leikskólana?

 

Annað atriðið: Leikskólar eru opnir til klukkan 17 á daginn, ekki mínútu lengur og einhverjar tillögur hef ég heyrt um að jafnvel eigi að stytta þennan opnunartíma í 16:30! Hverjum datt þetta í hug? Ég er að vinna á stað, þar sem opnunartíminn er 9-17. Það segir sig sjálft, að þegar mínum vinnutíma lýkur, klukkan 17, þá get ég ómögulega verið stödd á leikskóla sonar míns á sömu mínútu. Vinnustaðurinn er uppi á Höfða og leikskólinn er niðri í Hlíðum.

Þessi breyting á opnunartíma veldur eilífu púsluspili, stressi og vandræðum fyrir okkur foreldrana.

 

Við búum nú samt mjög vel, eigum 16 ára ungling, sem hefur verið mjög dugleg að aðstoða okkur og sækja bróður sinn. 16 ára unglingur á samt ekki að vera með þessa ábyrgð. Hún á ekki að þurfa að sleppa því að gera eitthvað með sínum vinum, af því hún þarf að passa bróður sinn. Ef unglingurinn kemst ekki að ná í bróður sinn, þá eru ömmur og afar fengin í verkið.

 

Við erum mjög vel sett, það eru það margir sem geta hlaupið undir bagga. Þetta er samt sem áður verulega þreytandi, að vera að greiða gæslu fyrir barnið, en þurfa samt á hverjum einasta degi að vera í stressinu að hringja út um allt og rembast við að redda barninu af leikskólanum. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg, þá var nánast engin eftirspurn eftir gæslu á þessum tíma, en samt eru mjög margir sem ég þekki í einmitt þessari stöðu. Ætli ég þekki þá bara alla sem þurfa á þessari þjónustu að halda? Er ekki venjulegur skrifstofutími frá 9-17, eða er minn vinnutími eitthvað mikið frábrugðin því sem gerist og gengur í samfélaginu?

 

Þriðja atriðið: Starfsdagar! Þarf ég að segja meira?

Af hverju er opnunartími leikskóla í Reykjavík svona algjörlega úr takti við atvinnulífið? Ef ég hef tjáð mig um þetta, þá fæ ég ansi oft svör eins og: “Bíddu, þetta er sko ekki geymslustaður fyrir barnið” (Ég veit það vel, en engu að síður, þá þarf ég að hafa barnið þarna á meðan ég er að vinna. Ég ber fulla virðingu fyrir frábæru starfi sem er unnið á leikskólanum.)

 

Annað klassískt svar sem ég hef fengið:”Það er ekki gott fyrir börnin að eiga svona langan vinnudag, þau þurfa tíma með foreldrum” (Ég myndi glöð vilja vera meira með son minn, en ég þarf að vinna og ég held að það væri betra fyrir hann að við foreldrarnir gætum sótt hann á leikskólann, en ekki hinir og þessir sem reddað er í verkið hverju sinni. Auk þess myndi það auka á tenglin á milli heimilis og leikskóla, þar sem skilaboðin komast oft ekki á milli, þegar svoleiðis er).

Færslan birtist fyrst á Facebook og er birt með góðfúslegu leyfi Guðnýjar

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!