KVENNABLAÐIÐ

Er skuldbinding til náms á ábyrgð foreldra?

Framhaldsskólanemendur sem finna ekki til skuldbindingar í námi með tilfinningum og hegðun hætta frekar en aðrir í skóla. Óákveðni í námsvali er þar meginástæðan. Athyglisvert er að skoða hvort foreldrar geti haft áhrif.

Um þriðjungur nemenda velur sér framhaldsskóla og nám sem tengist ekki áhugasviði þeirra samkvæmt námsritgerð eftir Bjarneyju Sif Ægisdóttur [1]. Þar kemur fram að óákveðni í námsvali við upphaf framhaldsskóla sé langstærsti þátturinn í því að ungmenni eiga erfitt með að skuldbinda sig náminu. Greint er á milli þrenns konar skuldbindingar: Skuldbindingar með tilfinningum, hegðun og vitsmunum. Það kemur á óvart að vitsmunir skipta minna máli en hegðun og tilfinningar gagnvart skólanum og náminu. Jafnvel þótt nemendum gangi almennt mjög vel í námi (vitsmunaleg skuldbinding) og hafi jafnvel himinháar einkunnir úr grunnskóla eru líkur á að þeir gefist upp og hætti námi í framhaldsskóla ef þeir skuldbinda sig ekki með hegðun og tilfinningum.

Að mínu mati er mikilvægast að ungmennið hafi sterka sjálfsmynd til þess að honum líði vel í námi og ljúki því. Með öðrum orðum þarf einstaklingurinn að vita hver hann er, fyrir hvað hann vill standa og þar af leiðandi hvar áhugasviðið liggur. Það að vita hver maður er, er forsenda þess að vita hvað maður vill og vera hugrakkur í ákvarðanatöku. Heilkenni (ADHD, einhverfa …), meðfæddir styrkleikar, skólaumhverfi og uppeldisaðstæður getur allt unnið með sjálfsmyndinni jafnt sem á móti. Ábyrgð foreldra felst fyrst og fremst í því að hlúa að eigin sjálfsmynd. Foreldrar eru oft fórnarlömb eigin óákveðni í náms- og starfsvali og í stað þess að vinna í sjálfum sér falla sumir í þá gryfju að þrýsta á börnin að gera betur en þeir sjálfir.

 

Þegar nemendur finna til óákveðni í námsvali í framhalds- og háskólum, fara að efast um val sitt eða eru óöruggir með næstu skref, bregðast margir foreldrar við með því að fyllast áhyggjum. Þeim finnst jafnvel eins og þeirra eigin sjálfsmynd geti beðið hnekki. Skynsamlegra væri að slaka á, sleppa áhyggjunum og skapa samverustundir sem geta stuðlað að því að ungmennið átti sig betur á sjálfu sér. Sumir þurfa að byrja á því að skoða eigin sjálfsmynd til að geta gefið af sér til barna sinna.

Mörg dæmi eru um að ungmenni velji sér nám og skóla til að þóknast foreldrunum og væri athyglisvert að sjá tölfræði yfir hvaða áhrif slíkt hefur á skuldbindingu við námið. Vinur minn, með himinháar einkunnir úr grunnskóla, valdi framhaldsskóla eftir því sem þóknaðist foreldrunum. Þrátt fyrir vitsmuni og greind gat hann ekki skuldbundið sig með hegðun og tilfinningum. Frekar en að taka sér hlé frá námi til að hugsa sinn gang þá lauk hann náminu til að standa undir væntingum. Félagsleg staða hans í skólanum var veik og hefur reyndar verið það síðan á starfsvettvangi. Í rannsókn Bjarneyjar kom einmitt fram að nemendum gangi verr félagslega eftir því sem óákveðni í námsvali er meiri.

Besta arfleifðin til ungmenna er sú að þau upplifi að þau megi vera eins og þau eru og að þeim sé treystandi fyrir eigin ákvörðunum í lífinu. Skuldbinding til náms er líklegust þegar ungmenni finna að þau taki sjálf ákvarðanir um líf sitt. Við foreldrar þurfum að vera á vaktinni með hvenær við yfirfærum eigin ótta og óöryggi yfir á börnin okkar. Leiðin til þess að stuðla að sterkri sjálfsmynd ungmenna er að vera sjálf fyrirmynd með því að hugsa ávallt vel um okkur og hafa eigin markmið til að stefna að. Vafasöm er sú tilhneiging að halda að leiðsagnarkerfið okkar virki betur en unglinganna fyrir þeirra líf. Þegar viðvörunarbjöllurnar hringja um að við séum farin að skipta okkur of mikið af er kannski tímabært að skella sér í endurmenntun eða nýtt nám. Kannski þurfum við að skoða grunninn að eigin óöryggi og gera hann upp? Þegar við erum óviss er spurning hvort ekki sé ráð að láta unglingana einfaldlega í friði um stund frekar en að reyna að „redda málunum“ með þrýstingi.

Pistillinn er eftir Ásu Sigurlaugu Harðardóttur og birtist á asasigurlaug.com

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!