KVENNABLAÐIÐ

Kynlífsfíkn – Sjö ólíkar birtingarmyndir kynlífsfíknar

Staðalímyndir snúast um annað og meira en ákveðin störf sem eru bundin kynjum. Kynlífsfíkn hefur til að mynda fjölmargar birtingarmyndir þó ákveðnar hugsanir sæki á þegar orðið ber á góma. Miðaldra karlmenn í rykfrökkum sem flassa í dimmum húsasundum, harðgiftir heimilisfeður sem sækja í vændi og brókarsjúka eiginkonan sem getur ekki að eigin lauslæti gert eru einungis nokkrar af þeim birtingarmyndum sem kynlífsfíkn getur tekið á sig.

Þegar löngun eftir kynlífi, draumórar um kynlíf og óæskileg kynhegðun er farin að standa í vegi fyrir daglegum skyldum; þegar kynferðislegir órar og hegðun tengd kynlífi er farin að stjórna lífi einstaklings með öllu er um áráttu- og þráhyggjuhegðun að ræða sem er orðin stjórnlaus.

En hvað er kynlífsfíkn í raun og hvenær telst kynhegðun óeðlileg? Á alþjóðlegri upplýsingasíðu Sex And Love Addicts Anonymous  (SLAA) kemur fram að ástar- og kynlífsfíkn sé ólæknandi sjúkdómur sem þó megi halda niðri með ástundun ákveðinnar aðferðarfræði sem snýst um algert fráhald frá sjúklegri hegðun sem hefur eyðileggjandi áhrif á líf viðkomandi.

Kynlífsfíkn hefur fjölmargar birtingarmyndir, fer stigversnandi ef ekkert er að gert og getur hæglega endað með skelfingu ef ekki er gripið í taumana í tæka tíð.

Hér á eftir fara nokkrar lítt þekktari birtingarmyndir kynlífsfíknar:

Símakynlíf:

„Talaðu dónalega við mig; hvíslaðu stunum að mér og leyfðu mér að hlusta á þig meðan þú færð fullnægingu“ eru einkunnarorð þeirra sem eru haldnir fíkn í símakynlíf. Þeir sem eru haldnir fíkn af þessu tagi notast oft við vefmyndavélar, eyða löngum stundum á Rauða Torginu og sækja óeðlilega stíft í klámlínur sem er haldið úti í þeim tilgangi að veita kynferðislegum hvötum útrás gegnum klúr og rándýr vændissamtöl.

Blætisdýrkun:

Blætisdýrkun getur snúist um yfiráð og undirgefni, sadisma, masókisma og ótal önnur afbrigðileg kynhlutverk. Og blætisþrár geta hæglega afskræmt annars næsta heilbrigt kynlíf og gefið því sjúklegan blæ sem afmáir alla heilbrigða nánd í tilfinningasambandi. Þegar einstaklingur er orðinn ófær um að túlka og uppfylla eigin þarfir í kynlífi vegna sjúklegra þarfa, er yfirleitt stutt í að viðkomandi leiti út fyrir sambandið í þeirri von að fá þörfum sínum útrás annars staðar.

Klámfíkn:

Því er eins farið um noktun á klámi og meðhöndlun áfengra drykkja; einhverjum nægir örlítið á meðan aðrir teyga ótæpilega. Meðaljóninn gluggar gjarna í erótískar kvikmyndir; klámfíkillinn sækir stöðugt í grófara efni. Það sem eitt sinn var saklaust áhorf þróast gjarna út í sársaukafullt áhorf á niðurlægjandi athæfi gegnum klámfengið efni sem endar á algeru og fullkomnu niðurbroti.

Lauslæti:

Til eru þeir sem sækja stjórnlaust eftir bólfélögum og leggja lítinn metnað í val á rekkjunautum. Þegar hegðun er orðin stjórnlaus og litlu skiptir hvort getnaðarvarnir eru notaðar eður ei, er farið að tala um kynlífsfíkn. Þetta er sennilega algengasta birtingarform kynlífsfíknar og sú tegund hegðunar sem við tengjum yfirleitt við þegar umræðu um kynlífsfíkn ber á góma. Einstaklingurinn sækir stöðugt í meira kynlíf og virðist engu skipta hver verður fyrir valinu. Af þessari birtingarmynd er nafnið brókarsótt komið.

Stjórnlaus sjálfsfróun:

Saklaus útrás fyrir eigin kynhvatir í einrúmi þróast á tíðum út í stjórnlausa sjálfsfróun sem brýst út á óheppilegum tímum dags. Heimsóknir á salernið á vinnutíma geta verið þrungnar sekt og vandræðalegri nautn. Viðkomandi getur vart haldið aftur af sér í umferðarþunga á háannatíma og löngun til að gæla við eigin kynfæri getur brotist út í myrkum kvikmyndasal, inni í búningsklefa verslanna og jafnvel í heimboðum til vina. Útrásin og hámarkið sjálft skipta ekki höfuðmáli hér, heldur er um áráttukennda hegðun að ræða, sem erfitt er að láta af.

Fíkn í einkamáladálka:

Þessi birtingarmynd er nátengd netfíkn og snýst um stjórnlausa notkun á einkamálasíðum. Einstaklingar sem eru þjakaðir af fíkn í einkamáladálka stofna gjarna marga reikninga á mismunandi síðum, oftar en ekki undir fjölmörgum dulnefnum og eru afskaplega færir í að villa á sér heimildir yfir netið. Einkamálafíkillinn er ekki í leit að maka, heldur fær útrás sína í gegnum yfirráð og undirgefni í formi bréfaskrifta og eltingarleikja yfir internetið. Spennan er fólgin í því að bera kennsl á aðra og hylja eigin slóð.

Sýniþörf:

Þeir sem haldnir eru sýniþörf hafa óeðlilega þörf fyrir að bera líkamann á einn eða aðra vegu á óeðlilegan og óviðeigandi máta. Þessi birtingarmynd kynlífsfíknar setur viðkomandi oftar en ekki í mikla hættu á að vera handtekinn fyrir ósæmilega hegðun á almannafæri. Einstaklingar með sýniþörf njóta athyglinnar sem fylgir ósæmilegu áhorfi og getur hegðun þeirra birst á ýmsa vegu; allt frá því að fækka fötum fyrir aura og til þeirrar einkennilegu þráhyggju að hlaupa nakinn inn á yfirfulla fótboltavelli, til þess eins að vera borinn í burtu, gráir fyrir járnum með beran bossann.

Nánar má lesa um eðli og úrræði við kynlífsfíkn á alþjóðlegri upplýsingasíðu SLAA