KVENNABLAÐIÐ

B R O W N I E S: Vanillukennd súkkulaðilassík sem bráðnar í munni – Uppskrift

Stundum langar manni bara í einhverja klassík sem bráðnar í munni; djúsí Brownies sem hægt er að geyma í kæli og hreinlega gæla við bragðlaukana. Enga útúrsnúninga eða vitleysu sem felur í sér nær ófáanleg innihaldsefni eða flóknar tilfæringar. Bara klassíska súkkulaðiköku sem bráðnar í munni og fæðir af sér ljúffengar minningar. Hér fer ein slík – auðvelt, skemmtileg og ferlega góð!

Uppskriftin sjálf er fengin frá breskum bakarameistara, sem búsettur er í Noregi og deilir gjarna guðdómlegum sælkerauppskriftum gegnum Facebook. Sjálfur segir David, sem birti uppskriftina fyrst gegnum spjallhópinn Cooking in Norway, að þessi væri í algeru uppáhaldi hjá honum og segir óguðlega gott að bæta hnetum, súkkulaðiflögum, ferskum berjum og hverju því sem hugurinn girnist út í deigið áður en kakan sjálf fer inn í ofninn.

„Þessar eru með hvítum súkkulaðiflögum og mjólkursúkkulaðibitum ásamt ferskum hindberjum sem toppa kökuna og mynda freistandi kontrasta við djúpt súkkulaðibragðið,“

– þetta segir David sjálfur í spjallhópnum og deilir meðfylgjandi ljósmynd af unaðslegri kökunni, en hér að neðan fer eitt af leyndarmálum breska bakarameistarans í íslenskri þýðingu:

screenshot-www.facebook.com 2016-01-23 18-42-48

U P P S K R I F T:

225 gr strásykur

40 gr kakóduft

60 gr hveiti

¼ tsk salt

½ tsk lyftiduft

Sigtið þurrefnin í skál og leggið til hliðar.

115 gr ósaltað smjör (brætt og kælt)

2 stór egg

1 tsk vanilluþykkni

A Ð F E R Ð:

Byrjið á því að þeyta saman egg og vanilluþykkni og blandið svo hægt og rólega saman þurrefnablöndunni meðan haldið er áfram að þeyta létt í blöndunni. Bætið nú bræddu smjörinu saman við og haldið áfram að hræra í blöndunni þar til deigið fær á sig fallega áferð (ekki ofhræra deigið).

Nú má bæta við auka-innihaldsefnum; súkkulaðiflögum, hnetum eða hvað sem hugurinn girnist. Gott er að bæta berjum í deigið, en ekki þó fyrr en deigið hefur verið sett í bökunarformið – þá er ágætt að þrýsta ferskum berjum niður í deigið áður en kakan fer inn í ofn.

Deigið er fremur þykkt svo best er að notast ivð sleif eða sleikju til að setja það í bökunarform. Formið sjálft má vera ferkantað og ca. 20 cm að stærð. Gleymið ekki að smyrja mótið áður en deiginu er hellt (eða sett í mótið með sleikju) – bakið í ca. 25 mínútur við 175 Celcius. Leyfið kökunni að kólna í mótinu – þegar formið hefur verið tekið út úr ofninum.

 

ATH: Þessi uppskrift er þétt og blaut í sér svo ágætt er að geyma í kæli, en geymlsuþolið er allt að 5 dögum. Ef þú hefur næga sjálfsstjórn til að eiga enn afgang í kæli að fimm dögum liðnum, tökum við hér á ritstjórn ofan fyrir þér!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!