KVENNABLAÐIÐ

Er ást á Tinder?

Þegar vinkona eða vinur tilkynnir með stolti að nýr maki sé í spilinu er ég alltaf mjög forvitin um hvernig það atvikaðist. Í fullkomnum heimi ættu öll pör sína „cute meet“ sögu. Á bókasafninu þar sem þær tóku sömu bókina sitthvoru megin úr hillunni og augu þeirru mættust á milli óteljandi ástarjátninga skáldanna. Í ræktinni þar sem þau ætluðu bæði að nota Smith vélina. Í fataversluninni þar sem þeir koma óvart út úr mátunarklefanum í samskonar flík. Ó hversu rómantískt væri það.

En nei.. yfirleitt er það nú ekki svo gott þó svo að vonlausi rómantíkerinn í mér vilji trúa því að slíkar sögur séu til í raun og veru en séu ekki bara urban myths. Fyrir ekki svo löngu voru svörin oftast í þessum dúr: „Gegnum sameiginlega vini, í vinnunni, á djamminu eða í gegnum sameiginlegt áhugamál“. Upp á síðkastið hefur svarið hinsvegar nánast undantekningalaust verið „Tinder“.

Tinder var upprunalega sett á markaðinn í þeim tilgangi að auðvelda fólki að finna aðra einhleypa einstaklinga í næsta nágrenni sem voru til í tuskið. Forritið hefur hinsvegar þróast þannig að fólk er þarna í auknum mæli til að finna ástina þó svo að margir noti það ennþá í fyrrnefndum tilgangi.

Þó svo að ég sé búin að vera í sambandi frá því f.t. (fyrir Tinder) þá hef ég fengið að kíkja á forritið hjá vinum og vinkonum sem eru ennþá á markaðinum. Myndir af misálitlegum einstaklingum poppa upp á snjalltækið, hver á fætur öðrum, og það eina sem þarf að gera er að strjúka til hægri eða vinstri eftir því hvort áhugi sé til staðar eður ei.

Fólk er misgrimmt á strokunni. Sumar vinkonur vilja ekki gefa neinum séns. Engum.

Rísandi kollvik? Vinstri!

Ljótir skór? Vinstri!

Skakkar tennur? Vinstri!

Þið skiljið hvert ég er að fara með þetta.

Auðvitað gildir sama grunnhyggni oft í hinu daglega lífi. Hjartað vill það sem hjartað vill og hinn sjónræni þáttur vegur oft þungt, allavega til að byrja með. Oftar en ekki breytist þó þessi skynjun þegar við kynnumst manneskjunni betur. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég kynnst fólki sem verður bara fallegra og fallegra eftir því sem ég kynnist því betur.

Sem nýgift og yfir mig ástfangin kona get ég ekki annað en hvatt fólk til að gefa ástinni smá séns. Bara pínu. Því hvað ef gæjinn með háu kollvikin er sá sem hefur lesið allar uppáhalds bækurnar þínar og fullkomnar þinn innri nörd? Og hvað ef gaurinn í ljótu skónum er nýbúinn að fá þessa skó í afmælisgjöf frá systur sinni og vill nota þá vegna þess að hugurinn var fallegur og hann er bara þannig gaur?

Það er oft sagt að mynd segi meira en þúsund orð en í þessu tilviki vil ég meina að stundum gætu nokkur orð (þurfa ekki einu sinni að vera þúsund) skilið á milli þess að ást gæti kviknað og að ljúfmennum sé strokið í svarthol ónothæfra vonbiðla. Samfélagsmiðlar eru nefnilega ákveðið listform sem ekki allir geta eða vilja tileinkað sér. Það þýðir ekki að þessir einstaklingar knúsi, hughreysti eða samgleðjist eitthvað verr en aðrir.

Ég er svo lánsöm að hafa kynnst manninum mínum til tæpra 6 ára áður en stefnumótaforritin urðu allsráðandi í tilhugalífi íslendinga. Ég segi lánsöm, ekki vegna þess að ég sé eitthvað yfir það hafin heldur vegna þess að ég veit ekki hvort að við hefðum passað saman. Því hvað ef ég hefði verið í bol með mynd af hljómsveit sem hann fílar ekki (já ég elska Mötley Crüe, það gerir hann ekki) og hann hefði strokið til vinstri? Hvað ef hann hefði verið á vandræðalega hökutopps tímabilinu sínu og ég hefði ekki fengið mig til þess að strjúka til hægri?

Þá hefði ég kannski misst af tækifærinu til að kynnast mínum besta vini, þeim sem ég get verið ég sjálf með (með allri minni sérvisku og skringilegheitum) og þeim sem lætur mig hlæja meira en nokkur annar. Hann bara fattar mig og ég fatta hann.

Ástin er nefnilega svo miklu meira en smart profile mynd. Gefum henni séns.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!