KVENNABLAÐIÐ

H U G R Æ K T: Klisjan: „Þú ert það sem þú hugsar” er góð og gild

Listinn yfir öll þau ráð um betra líf og betri heilsu er óendanlegur. Flestir sem eru sér meðvitaðir um galla sína og sjá lífið sem hálftómt glas, svolgra í sig ráðin sem auðvitað eru misgóð. Sum henta einum og önnur henta öðrum.

Öll viljum við bæta eitthvað í lífi okkar, en við fengum ekki bækling með lífinu né IKEA sexkant þannig að flest er prófað. Það að óska sér að vera ekki svona heilsulaus, atvinnulaus, peningalaus, í skuldafeni, í ómögulegu sambandi og þar fram eftir götunum, hefur sýnt sig að virkar ekki.

Klisjan: „Þú ert það sem þú hugsar” er góð og gild. Það er nefnilega svona einfalt. Og jafnframt ótrúlega erfitt. Að koma sér upp úr neikvæðu fórnarlambs-hugsuninni. Það að óska sér, dugar ekki eitt og sér. Framkvæmd sem fylgir réttu hugarfari, verður allltaf að koma líka. Og hún kemur, svo framarlega sem maður heldur sér við efnið. Því við þessa hugarþjálfun fer ákveðið ferli í gang í líkamanum; ákveðin lyfleysuáhrif.

Það er nú einhvern veginn svo að lífið heyrir ekki ákveðin orð sem við erum búin að finna upp á. Orðin „ekki”, „hætta”, „ekkert”, „engin” og svo framvegis. Ef við viljum losna við einhverja ákveðna eiginleika hjá okkur sjálfum; óvana, fíkn, kringumstæður í lífinu eða annað sem okkur líður ekki vel yfir, þurfum við að einbeita okkur að jákvæðu andstæðunni og ávallt einblína á ákveðið markmið. Og hafa það háleitt.Því ef við komumst ekki nema hálfa leið að því markmiði, er maður samt sem áður kominn ljósár frá upphafspunkti.

Við verðum alltaf að snúa þrám okkar og óskum að því sem við viljum. Ekki frá því sem við viljum ekki.

„Ég ætla að hætta að reykja” yrði því: „Ég ætla að vera reyklaus”. „Ég vil ekki vera fátækur og skulda” yrði: „Ég vil eiga peninga og vera skuldlaus”. „Ég vil ekki vera svona heilsulaus og finna til” yrði: „Ég vil vera hraust/ur í heilbrigðum líkama”. Það getur stundum verið snúið að finna jákvæðu andstæðuna en þá er gott að skrifa niður lista yfir hvað þú vilt og vilt ekki í lífinu. Ef þú finnur anstæðuna á listanum þínum, getur þú síðan strikað út neikvæðu setninguna.

Það getur krafist ótrúlegrar einbeitingar í langan tíma til að hugarfarsbreyting eigi sér síðan raunverulega stað. En það gildir að gefast ekki upp. Þetta getur tekið tíma. Þó skotið sé á háleitt markmið, má samt ekki hafa það svo að það sé úr takti við raunveruleikann. Það verður að vera hægt að sjá það fyrir sér, finna tilfinninguna að vera kominn á þann stað í lífinu.

Það er það sem getur reynst erfitt. Að loka augunum og finna það í hverju beini að hafa draumavinnuna, vera heil/l til heilsu, vera skuldlaus, hamingjusamur eða hvað eina sem okkur dettur í hug. Þegar við erum farin að læra á það að koma okkur inn í tilfinninguna sem við stefnum á að hafa, fer hinn flókni heili okkar í það verk að koma okkur þangað. Með því að framkvæma það sem þarf til.

Og þá er um að gera að eyðileggja ekki fyrir sjálfum sér með því að kvarta og kveina. Því um leið og við dettum aftur inn í þann vana að kvarta yfir verkjunum, skuldunum, peningaleysinu, ástleysinu og öllum vandamálunum, förum við nánast á upphafsreit.

Það sem við verðum ávallt að hafa í huga er að þessi hugefling virkar bara á okkur sjálf. Ef við þurfum á því að halda að annað fólk sé svona eða hinsegin, verðum við alltaf að miða út frá okkur sjálfum. Að við breytum okkar viðhorfi gagnvart þeim. Við getum ekki breytt öðrum með því að sjá þau fyrir okkur eins og við viljum hafa þau. Bara hvaða tilfinningu við viljum hafa fyrir því fólki. Og hvort við viljum hafa þau í lífi okkar áfram.

Hugurinn ber okkur hálfa leið, stendur einhvers staðar og því hef ég persónulega reynslu af. Þær eru margar breytingarnar í lífi mínu sem ég stefni að og löng er leiðin að sumum þeirra. En þar sem ég hef sjálf notað mér þetta við alls konar tilefni og sigrað, veit ég að þetta virkar. Og ég mun koma mér á þann stað í lífinu sem ég vil vera á með þessu móti, það er engin spurning.

Þetta veit ég vegna þess að ég er komin nógu langt til að hafa sannað þetta fyrir sjálfri mér.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!