KVENNABLAÐIÐ

VORFIÐRINGUR: Fræðsla leik- og grunnskólabarna um jákvæð tengsl kynlífs og ástar vekur heimsathygli

Hversu gömul ættu börn að vera þegar þau læra loks um ástina, býflugurnar og blómin? Á hvaða aldursskeiði er réttast að kenna börnum kynfræðslu? Vissir þú að Hollendingar líta svo á að börn eigi að fræða um grundvallaratriði ástarinnar strax á leikskólaaldri og að jákvæða líkamsvitund eigi að innprenta börnum frá unga aldri?

Í hollenskum grunnskólum er haldin árleg þemavika sem upp á enska tungu nefnist Spring Fever – eða Vorfiðringur upp á íslensku en þá fara kennarar yfir öll helstu atriði ástarlífsins; allt frá tilhugalífinu og tilfinningum sem kvikna til fræðslu um tengsl ástar, líkamlegrar nándar og kynlífs. Fræðslan hefst strax við fjögurra ára aldurinn og nær allt til ellefu ára aldurs.

Markviss fræðsla um mörk kynferðislegrar vellíðunar og valdbeitingar

Umfjöllun sem PBS NEWSHOUR setti saman og fjallar um einmitt þetta; nálgun kynfræðslu í hollenskum grunnskólum hefur hlotið athygli á heimsvísu, en hátt í fimm milljónir YouTube notenda víðsvegar um heim hafa horft á myndbandið sem má sjá í lok umfjöllunar. Í myndbandinu kemur meðal annars fram sú nauðsyn að kenna börnum að skilja hvað er fallegt og hvað vekur upp vellíðan, – ásamt því sem er vont og fráhrindandi í nánum samskiptum.

Grein heldur áfram neðan við myndband:

Ábyrg kynfræðsla leikskólabarna getur hamlað ótímabærri þungun síðar meir

Þess utan eru haldnir sérstakir fyrirlestrar um jákvæða líkamsvitund, frjósemi og sjálft frjóvgunarferlið ásamt því sem farið er inn á kynferðislega misnotkun. Rannsóknir hafa verið framkvæmdar sem styðja við gagnsemi fræðslunnar en samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem framkvæmd var á vegum Georgetown University í Bandaríkjunum getur ábyrg og jákvæð kynfræðsla sem hefst á leikskólaaldri dregið úr ótímabærum þungunum á unglingsaldri og hamlað útbreiðslu kynsjúkdóma.

Vorfiðringurinn er helgaður fræðslu um jákvæð tengsl kynlífs og ástar

Vorfiðringurinn sem haldinn er árlega í hollenskum leik- og grunnskólum – þemavikan sem um er rætt hér – nálgast ást og kynferðislega nánd á heildrænan máta og í fyrra myndbandinu, sem sjá má hér að ofan, eru leikskólabörn einmitt látin taka þátt í virkum pallborðsumræðum þar sem þau lýsa því hvernig ástfangið fólk hegðar sér. Börnin eru einlæg og blátt áfram í tilsvörum og heiðarleg, en það kann að vera ástæða þess að myndbandið rakaði inn milljónaáhorfi gegnum Facebook og YouTube.

Fá líka fræðslu um eðli sambandsslita og ferli ástarsorgar

Engin spurning er of asnaleg þegar ástin er annars vegar og kennarar svara öllum vangaveltum barnanna af nærgætni og virðingu. Engu skiptir hvort spurningin snýst um líkamlega nánd eða er tilfinningalegs eðlis. Í myndbandinu hér að neðan ræðir kennari til dæmis við ellefu ára gamla nemendur sína um hvernig það er að verða ástfangin/n.

Þú týnist í eigin hugsunum um þann eða þá sem þú ert skotin/n í og heyrir ekki í öðru fólki.

Líka er farið inn á ástarsorgina og hvernig það er að slíta sambandi og hvað slíkt merkir í raun og veru. En hvað leggja börnin sjálf til – hvernig telja þau að best sé að slíta sambandi?

Undir fjögur augu. Í persónu. Ekki gegnum bréf eða SMS.

Og af þeim orðum getum við eflaust mörg lærdóm dregið: 

Frekari upplýsingar má nálgast á vefsíðu pbs.org

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!