KVENNABLAÐIÐ

Hvað merkir eiginlega að vera MILF?

Þær ganga undir óteljandi viðurnefnum sem erfitt er að henda reiður á, sé sú staðreynd ekki höfð í huga að verið er að vísa til eldri kvenna sem leggja lag sitt við yngri menn. Svo mörg eru viðurnefnin sem tengjast fyrirbærinu að ég brá á það ráð að taka saman heildstæða grein um málið.

Sumar hverjar sækjast eftir því að gegna viðurnefnum sem þessum, meðan aðrar koma sér undan því að fá „stimpilinn“. Og karlmenn eru engin undantekning frá reglunni. Eitt er þó víst, að einstaklingar af ólíkum aldursskeiðum laðast oftar en ekki að hverjum öðrum og þá án þess að nokkurri skynsemi verði við komið.

Til gamans hef ég þýtt helstu uppnefni sem tengjast einstaklingum af ólíkum aldursskeiðum:

Drengjaleikfang

Meðfærilegur og auðmjúkur ungur maður sem nýtur þess að vera notaður í kynferðislegum tilgangi. Hann leitast eftir konum sem standa á eigin fótum, halda um stjórntaumana í svefnherberginu og eru óhræddar við að segja karlmanni fyrir verkum.

Gullgrafari

Glæsikvendið Anna Nicole Smith heitin er einn umdeildasti gullgrafari sögunnar, en hún tók upp kynferðislegt samband við dauðvona milljónamæring um áttrætt og giftist karlinum um síðir. Gullgrafari leitar uppi „Sykurpabba“ á miðjum aldri með veglega bumbu, feit seðlaveski, dónalegar hendur og áleitin augu. Hvað gerist næst ætti að vera öllum ljóst.

Fangelsisbeita

Hrokafull, kynferðislega aðlaðandi ung stúlka sem laðar að sér verulega eldri menn, stundum einnig nefnd Lolita. Karlmenn sem laðast að „Lolítum“ ganga undir viðurnefninu „Vögguræningjar“. Roman Polanski, leikstjórinn „geðþekki“ flúði frá Bandaríkjunum eftir ákæru fyrir samræði við 14 ára gamla fangelsisbeitu.

Fjallaljón

Einhleypar konur á fimmtugsaldri sem kappkosta að halda sér í líkamlegu formi og njóta þess að eiga bólfélaga án skuldbindinga. Þær reykja vindlinga, mæla með hásri röddu, drekka áfengi í hófi og heimsækja skemmtistaði í þeim eina tilgangi að læsa klónum í karlmenn á tvítugsaldri. Að öllu gamni sleppt er þó yfirleitt er um að ræða fjárhagslega sjálfstæðar og fráskildar konur, stundum með unglinga á framfæri, sem kæra sig ekki um skuldbindingar en eru ólmar í svefnherberginu.

Húnn

Heitir folar á hátindi kynorku sinnar og bólugrafnir smádrengir falla báðir undir þennan flokk, en hér fara yngri karlmenn sem sækja í hlýju eldri kvenna sem eru sjálfsöruggar í rúminu, kunna að gæla við karlmenn og hegða sér eins og gyðjur á milli atriða.

Maí – Desember rómans

Whoopsa! Þorir þú ekki að taka kærastann með í matarboð sökum aldursmunar? Þá ertu í Maí – Desember rómans. Hér fara sambönd þar sem aldursmunur er orðinn svo gífurlegur að vart er viðeigandi að aðilar geti hætt á að láta sjást opinberlega saman. Þarf ég að segja meira?

MILF

Skammstöfun á orðunum „Mom I´d Love To Fuck“ – kynferðislega aðlaðandi móðir, ekki endilega þó eldri kona. Hér fara konur sem mala letilega af óhamdri kynorku og vagga þrýstnum mjöðmum nautnalega eftir göngum matvöruverslanna, mæta á foreldrafundi íklæddar óaðfinnanlegri skyrtu sem afhjúpar hæfilega lögun fagurmótaðra brjósta og lýsa upp heilu herbergin með daðurkenndu brosi meðan þær þurrka hor úr litlum leikskólanebbum og skipta á kúkableyjum.

Pardus

Karlmaður sem er um eða yfir fertugt, sem sækir eftir félagsskap sér yngri kvenna. Þessi tegund karla tekur hiklaust upp samband við stúlkur sem eru á aldri við eigin börn. Þeir virðast vera fastir á tímaskeiði sem rann á enda fyrir tuttugu árum síðan og skilja ekkert í því að tískan skuli hafa breyst. Hver hefur ekki séð einn á börum Reykjavíkur – dinglandi feitu kreditkorti?

Púma

Kona á þrítugsaldri sem leggur lag sitt við yngri menn (yfirleitt á tvítugsaldri) og er oftar en ekki talin vera „Cougar in training“ eða „fjallaljón í þjálfun“. Hugtakið er einnig notað yfir konur sem leggja lag sitt við karlmenn sem eru innan við átta árum yngri.

Þar höfum við það.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!