KVENNABLAÐIÐ

Fingurlausir vettlingar og einlitir treflar

Mér finnst rosalega gaman að prjóna. Bara sjálf athöfnin að prjóna er heilandi. Kemur ró á órólegan huga og sál. En dóttir klæðskerameistarans, ungfrú ég, er með 10 þumla þegar kemur að kvenlegri handavinnu. Setjið frekar spýtu, hamar og sög í hendurnar á mér og ég skal smíða dýrindis húsgögn.

En ég er hrifin af garni þótt ég geti ekki búið til neitt af viti úr því. Og ég á helling. Kann hins vegar alls ekki að fara eftir uppskriftum því þær eru eins og kínversk tákn í mínum augum. Og ekki biðja mig um að hekla! Ég á margar kistur, kassa, poka og hirslur, fullar af garni og margra ára gömlu, hálfprjónuðum,ókennilegum prjónastykkjum, sem ég er löngu búin að gleyma hvað átti að verða í upphafi.

Þegar ég var krakki í barnaskóla, var handavinnutíminn ekki einn af uppáhalds tímunum mínum. Nei ég var þessi sem sagði drauga- og álfaþögur því það var eitthvað sem ég kunni . Og hélt hinum stelpunum við efnið. Á meðan þær kláruðu þegjandi, ullarsokka og vettlinga á næstum alla fjölskylduna yfir veturinn, kom ég heim með í mesta lagi einn ullarsokk og of lítinn vettling sem vantaði þumalinn á.

Og þegar ég eltist og fór að unga út börnum, ætlaði ég sko að verða almennileg mamma og prjóna á litlu krílin mín. Ég á ennþá hálfprjónaða peysu sem ég byrjaði fyrst á þegar elsta barnið mitt var kríli. Hann er 26 ára í dag.

Þessi sama hálfa peysa var rakin upp þegar barn nr. 2 kom í heiminn og nú átti sko að taka á því. Hann er 23 ára núna. Enn og aftur var peysuhelmingurinn rakinn upp þegar eldri dóttirin leit sitt fyrsta ljós. Ég náði að prjóna upp að handarkrika með krulluðu garninu og svoleiðis er peysan enn, í kistunni minni, 20 árum seinna.

Fyrir nokkrum árum síðan fann ég þetta líka guðdómlega garn í verslun sem ég man nú ekki lengur hver var. Hálf angúrulegt eitthvað,ryðrautt og kafloðið. Garnið, sko. Dýrðlegt alveg hreint. Mér datt í hug að prjóna ponsjó, með stórum prjónum svo ponsjóinn minn yrði nú soldið groddalegur og hlýr. Keypti mér ákaflega girnilega risaprjóna og byrjaði verkið.

Og prjónaði ….og prjónaði ……og prjónaði….. Svo nennti ég ekki meiru. Prjónaði allar lykkjur af og mátaði meistarastykkið.

Þótt síddin hafi passað að framan, var ekki þar með sagt að bakstykkið væri í sama gæðaflokki……..

Nei, ponsjóinn minn var 4 metrum of langur!

Hefði ég notað hann sem slör á brúðkaupsdaginn minn hefði ég þurft tvær meyjar, helst hreinar, til að halda uppi prjónlesinu!

Fer aftur í fjöldaframleiðslu á einlitum treflum…

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!