KVENNABLAÐIÐ

Af klósettferðum og maníuköstum

Fyrir mörgum, mörgum árum síðan bjó ég í ókláruðu húsi í 4 ár. Þáverandi maðurinn minn var, sjáðu til, iðnaðarmaður og þeir geta ekki átt heima í kláruðum húsum. Við áttum líka hálfónýta bíla sem hann ætlaði að gera sjálfur upp.

En hvað um það, þetta var fyrir tíma uppþvottavélarinnar minnar og þennan tiltekna dag var ég í stuði. Ég var ein heima þennan yndisfagra sumardag og var að þrífa. Tónlistin stillt á extreme volume og ég í uppvaski og syngjandi ánægð með lífið. Tók létt danspor og söng hástöfum þar sem ég þurfti ekki að taka tillit neins. Í sveittri maníunni fékk ég mér verðskuldaða pásu því ég þurfti að pissa, fá mér kaffi og reykja eina rettu. Byrjaði á salerninu því ekki er hægt að drekka kaffi með fulla blöðru, og settist þar á Svíann.

Best ég geri smá pásu hérna og útskýri fyrir ykkur svo þið getið sem best séð þetta fyrir ykkur. Þannig er nefnilega málið að þegar ég er í maníu (ég er sko með geðhvörf) þá hugsa ég mjög hratt, er kvik í öllum hreyfingum, tala of mikið, of hratt og of hátt, veð úr einu í annað og lít út fyrir að vera alltaf að flýta mér. Hálf geggjuð með undarlegar hugmyndir og verkvit á við verkfræðiprófessor.

Nú jæja, svo við höldum áfram með söguna þá sat ég þarna og pissaði og hugsaði hvernig ég gæti raðað húsgögnunum alveg upp á nýtt því það er mín sérgrein og uppáhaldsiðja þegar ég er í maníu. Heima hjá mér er húsgögnum nefnilega raðað upp á nýtt á þriggja mánaðar fresti ef ég er ekki búin að flytja fyrir þann tíma. Sígauninn í mér er ansi ríkjandi.

En þarna sat ég sem sagt og dreif mig í að þrífa á mér bossalinginn og um leið og ég rauk upp af klósettinu, dró ég upp buxurnar svo harkalega að klósettsetan skelltist til með hávaða og látum, eins og ávallt fylgir Maníu-Kollu. Þvoði mér um hendur og þurrkaði og fór síðan fram til að halda áfram í kaffipásunni og fá mér sárþráða sígarettu. Settist í eldhúsið, en mér var undarlega illt í bakinu svo ég staldraði ekki lengi við kaffibollann. Hellti í mig kaffinu og reykti rosalega fast og hratt.

Stóð upp og hélt áfram með þrifin ekki í eins góðu skapi því alltaf fann ég til í bakinu. En nú bættist annað við! Þar sem ég stóð við eldhúsvaskinn og reyndi að klára uppvaskið, lak eitthvað kalt niður eftir lærinu á mér! Andskotinn sjálfur! Hvað var nú í gangi? Ekki var ég að missa vatnið, því aldrei þessu vant var ég ekki ólétt. Ekki var ég að pissa á mig því ég var nýbúin að tæma allt í klóið. Enda var ekki rétt hitastig á þessu.

Allt í einu fann ég sterka lykt af sítrónu?!

Ó shit! Ég nærri hljóp inn á bað og dró niður um mig buxurnar. Ég átti ekki til eitt einasta aukatekið orð! Viti menn!

Þegar ég hafði rokið svona harkalega upp af klósettinu í fyrra sinnið höfðu buxurnar flækst í ilmsteininum í klósettinu, lyft honum upp svo hann fór í kollhnís og endaði ofan í buxunum fastur í strengnum! Þar hafði hann setið í rólegheitum og lekið sítrónuilmvatni niður rassinn á mér og niður eftir lærinu.

Það var eins gott að ég var bara rétt nýbúin að pissa því ég hló svo mikið að ég lyppaðist niður á gólf, grét úr hlátri og ég get svo svarið það að ég held ég hafi náð að kreista nokkra dropa út við þetta í buxurnar. Þegar ég var búin að jafna mig svona eins og ég gat, hélt ég áfram að þrífa en ég get sagt ykkur að það var nú spurning hvort okkar ilmaði betur þegar kallinn minn kom heim um kvöldið …  húsið eða ég.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!