KVENNABLAÐIÐ

Brosandi ófreskjur

Ég geri ekki flugu mein. Það vita allir sem þekkja mig. Og jafnvel þeir sem lesa mig. Geitungar eru samt ekki taldir með. Þeir eru ekki flugur. Þeir eru bara stórhættulegir, ofbeldishneigðir asnar. Allir eins, kvikir og maður þekkir þá ekki í sundur. Nafnlausir. Blómasjampó og  ilmvötn eru hættuleg. Hvað þá ef bleika glossið lyktar eins og nammibarinn í Hagkaup. Þá á maður fótum sínum fjör að launa. Ráðast á mann þegar síst varir og á það ekki skilið.

Ég er ekki ein af þeim sem notar flugnaeitur. Nei, ég fæ mér tómatplöntu á eldhúsborðið og hristi hana þegar ég sé flugu. Jafnvel húsflugur. Þær eru allar fljótar að forða sér. Þola ekki skítabombulyktina sem gýs upp. Ég er líka besta vinkona köngulóa. Leyfi þeim að spinna sinn vef utan við gluggann minn. Þá er ég í friðhelgu landi mínu frá nafnlausu geitungunum.

Ég er líka smeyk við humlur. Þið vitið, þessar risastóru, loðnu, sætu randaflugur. Þær gera manni ekkert. Ég veit það alveg. Hræða bara úr manni líftóruna með stærðinni. Sumar svo stórar að maður getur skoðað andlitsdrættina og þekkt þær í sundur. Meter á milli augnanna. Sumar brosa.

Einu sinni gerði ég flugum mein, en ekki lengur. Og  einu sinni þekkti ég ekki mátt köngulóa til að verja heimili mitt árásum. Og skolaði húsið mitt reglulega, að utan.

Það var einn blíðviðrisdag sem ég fékk heimsókn. Humla á stærð við haförn! Ég kalla hana Bínu. Hún lufsaðist þarna inn um eldhúsgluggann minn og rétt svo náði að halda blýþungum skrokknum á lofti. Með vængjaslætti sem hefur sennilega orsakað fellibyl einhversstaðar á plánetunni bláu.

Ég trylltist er ég sá hana, fékk hellu fyrir eyrun í rokinu sem myndaðist og náði í ryksuguna.

Þarna elti ég Bínu fínu með ryksugustútinn að vopni og ætlaði mér dýrðar sigra, í þessarri hatrömmu baráttu. Bína var ekkert að stressa sig yfir þessu og sveif vængjum fjórum undan soginu.

Ég gafst upp á ryksugunni. Ákvað að ég hlyti að geta læðst aftan að henni með annars konar vopnum. Sótti glersprey inn í skáp. Það hlyti andskotann að vera nógu eitrað fyrir ófreskjuna sem sat og sötraði kaffið mitt á eldhúsborðinu.

Ég spreyjaði öll ósköpin á Bínu fínu en allt kom fyrir ekki. Alltaf gat hún flogið eitthvað annað og eldhúsið mitt var orðið mettað af glerspreyi. Ég kíkti aftur í skápinn. Jess! Ajax! Baneitraður andskoti! „Fyrir erfiða bletti og fitu“. Þetta hlyti að duga.

Þarna endurtókum við eltingaleikinn, Bína fína og ég. Og alltaf var hún jafn kurteis og reyndi ekki einu sinni að nálgast mig. Ajaxi var dúndrað á humluna og öll nærliggjandi húsgögn og innréttingar. Gólfið var orðið hættulega sleipt og ég var komin í vandræði.

Ég prófaði allt í skápnum. Meira að segja gerði ég þau mistök að ráðast á blásaklausa humluna með ilmspreyi. Lavender. Hún bilaðist! Held hún hafi ætlað að kreista út úr mér hunang hvað sem það kostaði. Allavega sneri hún vörn í sókn.

Með hárið út í loftið, kafrjóð og móð, forðaði ég mér sveitt fram á bað. Ég var búin að missa allt tímaskyn. Þarna sat ég á klósettlokinu og íhugaði dæmið. Reyndi að ná andanum. Langaði í kaffi og sígó. Þá kom ég auga á lausnina.

Hárlakkið sem ég notaði aldrei! Hah! Nú skyldi Bína uppstoppuð, með þessum fjanda! Ég greip gylltan brúsann og kúst til að verjast drekanum mikla. Það vantaði ekki  mikið til að ég liti út eins og Don Quixote er hann barðist við vindmyllurnar.

En fram í eldhús fór ég alvopnuð, með  trylling í augum og hugsaði mér gott til glóðarinnar að fá uppstoppaðan humluhaus á stofuvegginn. Við hliðina á öllum hinum villidýrunum sem ég hafði veitt.

Þarna sat hún. Í gluggakistunni. Og bjó sig undir að taka á flug. Ég hélt  niðri í mér andanum og lokaði augunum er ég spreyjaði eitrinu í alla króka og kima og notaði rómað köngulóarskyn mitt til að finna út hvar óvinurinn héldi sig. Svo hætti vængjaslátturinn og ég barðist við að opna annað augað sem var hálfklístrað í eitruðu hárlakksskýinu.

Þarna sat hún enn blessunin í gluggasyllunni, þvoði sér smá í framan og spígsporaði síðan um. Ég opnaði hitt augað og hefði sennilega starað opinmynnt á hana ef ég hefði getað náð samanlímdum vörunum á mér í sundur.

Ég gafst upp. Þarna tókst hún Bína virkilega fína, á loft, og flaug, svona líka hrein, ilmandi og glansandi fín og nýbúin í lagningu, út um gluggann á vit nýrra ævintýra.B

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!