KVENNABLAÐIÐ

Kæra Deitbók: „Hefur þú PRÓFAÐ að fara í ORGÍU?“

Kæra Deitbók –

Það fyrsta sem vinkona mín segir þegar hún hringir í mig er:

Vaka, hefur þú einhvern tímann farið í orgíu?”

Ég spyr hana á móti hvort hún meini þá alvöru orgíu en ekki bara þriggja manna gleðskap og fæ svarið JÁ!

Nei það hef ég ekki gert, af öllu sem ég hef prófað þá hef ég ekki prófað það.  Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef mjög svo takmarkaðan áhuga á að prófa það.  Ég þarf tíma til að vita hvort ég laðist að einhverjum, þarf að kynnast honum fyrst og get ekki ímyndað mér að vera í hrúgu af karlmönnum og langa í þá alla.

Hún hafði nefnilega loksins byrjað að hitta einn sem hún hafði verið skotin í lengi.  Örlögin réðu því að það var alltaf þannig að annað hvort þeirra var í sambandi þegar hitt var á lausu.  Ég held að við höfum öll þessa manneskju í lífinu.  Þessa sem við hefðum gjarnan viljað sjá hvort væri eitthvað varið í, en höfum aldrei fengið tækifæri til að komast að því.

Hjá þeim kom tækifærið loksins og þau fara á deit.  Síðan fara þau á annað deit og á þriðja deitinu sofa þau saman. Það var frábært. Hún gekk um með kjánalegt bros næstu daga og hugsaði um hversu frábært þetta var.  Hún segir mér frá því að hún hefði oft fantaserað um kynlíf með honum og það sem furðulegra var að það gerðist nákvæmlega eins og hún hefði ímyndað sér.  

Kannski er máttur ímyndunaraflsins sterkari en við áttum okkur á.  Ég held að það sé mjög áhrifaríkt og heilbrigt að geta fantaserað um vissar aðstæður svo þú getir tekist á við þær af öryggi þegar þar að kemur.

Kannski best að hafa væntingarnar ekki of háar samt, þannig að enginn geti náð að uppfylla þær.

Væntingar hennar og fantasíur hrynja hins vegar allverulega eftir nokkra hittinga. Það var hittingurinn þar sem hann ákveður að segja frá því að hann og hans fyrrverandi hafi verið frekar opin kynferðislega, reyndar mjög opin.  Stundum fengu þau eina auka manneskju í svefnherbergið og stundum tóku þau þátt í orgíum.

Og þar með dó hennar áhugi.

Ætlast hann til þess að hún taki þátt í slíku?  Eða er hann bara að segja henni frá þessu af einhverri furðulegri annari ástæðu? Ætli það séu margir opnir fyrir þessu?

Hún spyr hann hvernig þetta hefði gengið til og hann segir henni að þau hafi fundið fólk á netinu sem leiddi til þess að þeim var boðið í svona hópa sem hittust til að stunda kynlíf.  Það væri ekkert skilyrði að sofa hjá einhverjum í hópnum. Ef þú vilt ekki vera með neinum öðrum í hópnum þá ræður þú því og segir bara NEI.  Þú getur jafnvel verið með þínum maka, nema með annað fólk í kringum þig að gera það sama.

Af hverju að gera þetta er ofar mínum skilningi en ég vil þó meina að fólk eigi að gera það sem gerir það hamingjusamt, þó ég geti ekki skilið það.

Við þetta fer ég að hugsa út í það hversu margir stundi orgíur.  Ætli þetta sé svona algengt?  Hversu margir ætli það séu í heiminum akkúrat núna sem eru staddir í kynsvalli?

Ok, ég ætla að hrista þessa mynd úr hausnum á mér.

Annað sem ég velti síðan fyrir mér er, hvernig ætli það sé fyrir manneskjur sem stunda svona að fara síðan í venjulegt one on one samband?  Er fólk þá líka bundið við það að finna einhvern annan á deitmarkaðnum sem er líka opinn fyrir orgíum?  En ef þú ert kominn með nóg af svona opnum samböndum, er þetta þá eitthvað sem þú ættir að segja frá þegar þú ert að deita?

Stundum er fólk greinilega langt í frá sú manneskja sem við höldum að það sé.  Fjölbreytileikinn er æðislegur en of mikill fjölbreytileiki var kannski ástæðan fyrir því að hann stóð sig svona frábærlega í rúminu en gerði hann mjög svo óspennandi til að hitta aftur.

Þín,

Vaka Nótt

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!