KVENNABLAÐIÐ

Áhættuþættir brjóstakrabbameins: Skortur á D-vítamíni

D-vítamín hjálpar líkamanum að taka upp kalk sem er nauðsynlegt fyrir góða beinheilsu. D-vítamín hjálpar líka ónæmiskerfinu, vöðvum og taugakerfi að starfa eðlilega. Mest verður til af D-vítamíni þegar óvirkt næringarefnið virkjast við það að húðin fær á sig sólarljós. Minna magn af D-vítamíni er að finna í vítamínbættri mjólk eða annarri fæðu, feitum fiski og eggjum. Þar sem sífellt fleiri verja mestum hluta tíma síns án þess að njóta sólar ellegar bera á sig sólkrem til að verjast henni, mynda fæstir nóg D-vítamín með sólarljósi.

Rannsóknir benda til að aukin hætta sé á brjóstakrabbameini hjá konum með lítið D-vítamín. Hugsanlegt er að D-vítamín eigi einhvern þátt í að stjórna vexti eðlilegra brjóstafrumna og kunni að hindra brjóstakrabbameinsfrumur í að vaxa.

Skref sem unnt er að taka

Öruggustu leiðirnar til að auka D-vítamínmagnið eru að fá meira af sól á kroppinn og taka inn D3-vítamín. Að neyta D-vítamínríkrar fæðu er til bóta en ekki eins árangursríkt.

Snerting við sólarljós: Jafnvel stuttur tími í skini sólar í hádegisstað – til dæmis í 15 mínútur þrisvar í viku – getur gefið ríflega þann skammt af D-vítamíni sem mælt er með daglega. Ógerningur er að fá of stóran skammt af D-vítamíni með sól. Að komast í snertingu við sólarljós er gott fyrir framleiðslu líkamans á D-vítamíni, en það hefur líka hættu í för með sér. Að vera í sól eykur líkur á húðkrabbameini, þar á meðal sortuæxli, sem er hættulegasta tegundin.

Yfirleitt mæla flestir sérfræðingar með að haldið sé áfram að nota sólarvörn þegar útfjólublá geislun er í meðallagi eða mikil. Útfjólubláir geislar eru ósýnilegir, svo ekki er gott að vita hvort um slíka geislun er að ræða eða ekki. Ósonlagið ver jörðina fyrir útfjólubláum geislum, en þykkt ósonlagsiins breytist með árstíðum og veðri, þannig að eitthvað af útfjólubláum geislum nær til jarðar.

Vísindamenn hafa þróað aðferð til að mæla styrk útfjólublárra geisla á skalanum 1-11+ og gefa daglega út áreiðanlegar upplýsingar sem finna má á ýmsum heimasíðum, fólki til leiðbeiningar og viðvörunar.

*UV-vísitala fyrir Reykjavík og fyrir allan heiminn.

Ýmislegt hefur áhrif á hve mikið D-vítamín einstaklingur framleiðir þegar sólin skín á bert hörundið:

  • Því dekkra sem hörundið er þeim mun minni er framleiðsla D-vítamíns,
  • því meiri sem fjarlægðin er frá miðbaug, þeim mun minni er framleiðsla D-vítamíns,
  • Því færri sem sólarstundirnar eru, þeim mun minni er framleiðsla D-vítamíns.

Allir þessir þættir geta gert það erfitt að fá nægilegt D-vítamín með sólarljósi eingöngu.

Fæðubótarefni: Áður en byrjað er að taka inn D-vítamín eða breyta einhverju í töku þess, er mikilvægt að fá að vita hve mikið af því er að finna í blóðinu. Er það gert með því að taka blóðprufu sem læknir þinn getur beðið um næst þegar þú ferð í venjulega læknisskoðun. Þeir sem rannsaka D-vítamín mæla með að í blóðvatni séu 40-60 ng/ml (nanógrömm á millilíter).

Áður en þú byrjar að taka inn D-vítamín skaltu tala við lækni þinn um hættur og/eða gagnsemi viðkomandi fæðubótarefnis, og fá sömuleiðis að vita hvert sé æskilegt D-vítamínmagn í blóðinu hjá þér. Hafi komið í ljós að D-vítamín í blóði er lítið og þú hefur þegar byrjað að taka inn D-vítamín til að bæta úr því, skaltu láta athuga stöðuna eftir nokkra mánuði og breyta skammtinum til samræmis við það sem æskilegt er. Sé tekið inn of mikið af D-vítamíni getur það stundum valdið því að kalkmagn í blóði verður of mikið. Hafir þú í hyggju að taka inn D-vítamín, mæla flestir sérfræðingar með því að tekið sé inn D3-vítamín en ekki D2.

Í núgildandi stöðlum er mælt með því að fólk sem er yngra en 50 ára fái 2000 alþjóðlegar einingar (I.U.) af D-vítamíni á dag. Fyrir fólk á aldrinum 50-70 ára er mælt með 4000 alþjóðlegum einingum á dag, en fyrir fólk sem komið er yfir sjötugt er mælt með 6000 alþjóðlegum einingum á dag.

Margir rannsakendur telja þó að þetta sé of lítið. Hjá Vísindastofnun Bandaríkjanna, The United States National Academy of Sciences er verið að rannsaka þetta og er gert ráð fyrir að gefnir verði út nýir staðlar þar sem mælt verður með stærri skömmtum en nú er gert.

Fæða rík af D-vítamíni:

  • Lax og feitur silungur
  • síld
  • steinbítur
  • ostrur
  • makríll
  • sardínur

ÞB

Grein þessi birtist fyrst á vefnum brjostakrabbamein.is og endurbirtist hér með góðfúslegu leyfi: 

screenshot-www.brjostakrabbamein.is 2015-09-30 19-42-38

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!