KVENNABLAÐIÐ

Byltingin er hafin: „Við viljum endurheimta orðið geðsjúk!“ #égerekkitabú

Að glíma við geðsjúkdóm er ekkert grín og því síður er um aumingjaskap að ræða, sem hrista má af sér einni hendingu. Geðsjúkdómar eru sveipaðir fordómum og skömm, en öflug samfélagsmiðlaherferð sem reis seint í gærkvöldi á Twitter og Facebook tröllríður nú netheimum undir kennimerkinu #égerekkitabú en ekkert lát virðist á líflegri umræðunni. 

Að baki átakinu sjálfu standa þær Silja Björk Björnsdótti, Bryndís Sæunn S. Gunnlaugsdóttir og Tara Ösp Tjörvadóttir sem stofnuðu umræðuhópinn GEÐSJÚK á Facebook fyrir sólarhring en fjölmargir hafa skráð sig í hópinn og kennimerkið #égerekkitabú flæðir nú yfir Facebook, sem er yfirskrift þeirra sem þora að stíga fram og greina frá áföllum og glímu við geðraskanir af ýmsum toga.

Hópurinn er öllum opinn og streyma fram reynslusögur sem og hvatningarorð en stúlkurnar þrjár ræddu við ritstjórn SYKUR um tilgang átaksins, hvers má vænta í kjölfar byltingarinnar og ástæður þess að þær leiddu hesta sína saman. Sjálf skrifaði Silja eftirfarandi orð sem lesa má í Facebook hópnum GEÐSJÚK, þar sem hún segir einfaldlega:

„Hundruðir Íslendinga glíma við geðræn vandamál. Þetta er fólk sem þú sérð allt í kringum þig, í fjölskyldunni, á vinnumarkaðnum, í vinahópnum og úti á götu. Talið er að rúmlega 25% Íslendinga glími við eða muni einhvern tíma glíma við þunglyndi á ævinni. En hvers vegna eru geðsjúkdómar þá tabú? Hvers vegna líður okkur oft eins og við megum ekki ræða þessa hluti?“

Hvað olli því að þið tókuð höndum saman og stofnuðuð einmitt þennan hóp?

Silja: Við kynntumst í gegnum Facebook og greinaskrif og áttuðum okkur á því að það var þörf á svona hóp og svona öflugri vitundarvakningu í íslensku samfélagi.

Tara: Ég  birti grein fyrir viku síðan á Pressunni með heitið “Enginn á að bera þessa byrði einn” þar sem ég talaði í fyrsta sinn opinberlega um þunglyndi mitt og hvatti fólk einnig til að koma út úr sínum þunglyndu skápum. Silja hafði samband við mig og vildi hjálpa til í baráttunni við tabú-ið sem þunglyndi og andlegir sjúkdómar eru í samfélaginu þar sem hún hefur verið að berjast fyrir því sjálf með fyrirlestrum og greinum. Á sama degi rakst ég á Bryndísi sem hafði fengið fréttaumfjöllun eftir að hafa tekið saman kostnaðinn sem fylgdi geðsjúkdómum sínum. Við vorum allar með sömu hugmyndir og ákváðum að þetta væri tíminn.

Bryndís: Boltinn byrjaði að rúlla eftir að greinin mín birtist á visir.is en þá setti Tara sig í sambandi við mig og sagði mér frá sinni pælingu. Við þrjár vorum allar á sama máli að þar þyrfti að auka sýnileika geðsjúkdóma með opinni umræðu og með því markmiði að eyða tabúinu í kring.

Tara Ösp Tjörvarsdóttir

Hverju vonist þið til að áorka með GEÐSJÚKU byltingunni á samfélagsmiðlum?

Sija: Með átakinu viljum við uppræta öll samfélagsleg tabú og koma á heilsujafnrétti á Íslandi. Við viljum endurheimta orðið geðsjúklingur og leyfa fólki að tjá sig um sín veikindi með stolti. Við viljum opna hug og hjörtu allra landsmanna og vonandi seinna meir, ná til stjórnvalda og koma geðheilbrigðiskerfinu í lag. Við viljum að fólk geti opnað sig skammarlaust og komið til dyranna eins og það er klætt því manneskjan er falleg, breysk og fjölbreytt og þvi ber að fagna

Bryndís: Það sem skiptir mig mestu máli er að það myndist jafnrétti í heilbrigðiskerfinu varðandi geðsjúkdóma.

Tara: Fyrst og fremst vitundarvakningu. Við viljum að geðheilbrigðisþjónusta sé jafn aðgengileg og niðurgreidd og önnur heilbrigðisþjónusta. Við viljum að skólakerfið, vinnumarkaðurinn og almenningur viðurkenni  geðsjúkdóma eins og aðra sjúkdóma. Við viljum út með skömmina og eigin fordóma geðsjúkra, því það er oft stærsta byrðin í þessu öllu. Ef við sem erum geðsjúk, sýnum ekki fordómaleysi, hvernig getum við búist við fordómaleysi frá geðheilum? Ef við sem erum geðsjúk byrjum ekki í dag að losa okkur við eigin fordóma, þá hvenær?

Ég vil að aðstandendur geðsjúkra geti verið stolt af baráttunni sem ástvinir þeirra eru að ganga í gegnum, og að samfélagið gefi þeim enga ástæðu til að vera það ekki. Við viljum endurheimta orðið geðsjúk, því ekki myndirðu segja: Djöfull ertu krabbameinssjúk” er það?

Bryndís Sæunn
Bryndís Sæunn

Vísið þið fólki í leit að svörum áfram til fagaðila, getur fólk lagt inn ósk um aðstoð í hópinn?

Tara: Við bjóðum fram okkar hjálp, þá reynslu sem við höfum í gegnum tölvupóstinn gedsjuk@gmail.com. Við viljum endilega fá fagaðila, fólk með reynslu eða þekkingu af einhverju tagi til að koma í hópinn og deila ráðum sínum með öðrum.

Silja: Við viljum bæði að fólk geti opnað sig við aðra sjúklinga og fagfólk. Við hvetjum fólk einmitt til að ræða meðferðir sinar og deila því þannig áfram. Einnig bendum við fólki á allar þær fagleiðir sem við þekkjum og höfum aðgang að. En engin okkar er þó sálfræðingur og við leitumst bara eftir að hjálpa með vitundarvakningu og samkennd.

Silja Björk Björnsdóttir

Viðtökur hafa verið góðar; hvað gerist nú þegar byltingin er hafin?

Silja: Nú þegar byltingin er hafin leitum við að öllum hugmyndum og aðstoð um þróun verkefnisins. Við erum í viðræðum við samtök hér heima og hver veit hvert boltinn rúllar en þetta er pottþétt bara byrjunin! Við munum halda þessu áfram og sjá samfélagið vaxa, dafna og fræðast. Einnig verðum við með smá netgjörning 10.okt á alþjóðlegum degi geðheilsu og veðrur spennandi að fylgajst með því! Annars hvet ég ALLA til að skrá sig og skoða hópinn, læra og uppræta fordómana! Við erum ekki tabú! Einnig vil ég koma þökkum til allra þeirra sem sýna þessu stuðning og eru búnir að hafa hugrekkið í að deila sögunum sínum! Þetta er ometanlegt

Tara: Við viljum vekja athygli á alþjóðlegum degi andlegrar heilsu þann 10. október. Við viljum að geðheilbrigðisþjónusta sé jafn aðgengileg og niðurgreidd og önnur heilbrigðisþjónusta. Þetta er bara byrjunin.

GEÐSJÚK@Facebook

12036982_10153142054355267_7300686800701014125_n

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!