KVENNABLAÐIÐ

T Í Ð A H R I N G U R I N N: Átta lítt þekktar staðreyndir um blæðingar kvenna

Hversu lengi má hafa tíðatappa uppi í leggöngunum? Af hverju verða svona margar konur máttlausar í ræktinni meðan á tíðum stendur? Hvernig er best að takast á við tíðaverki? Er eitthvað hægt að gera til að vinna á móti þöndum maga meðan á blæðingum stendur og síðast en ekki síst; hvað eru eðlilegar blæðingar og hvenær er efni til að hafa áhyggjur?

Þessum spurningum og fleiri svara sérfræðingar á vef Cosmo, en svörin eru athyglisverð, nytsamleg og varpa ljósi á átta lítt þekktar, en afar merkilegar staðreyndir um blæðingar kvenna sem birtast hér í íslenskri þýðingu.

#1 – Hvað telst til eðlilegra blæðinga?

Hversu mörg dömubindi eða tíðatappa notarðu yfir daginn þegar blæðingarnar eru sem mestar? Til eru handhæg smáforrit á borð við iPeriod sem geta hjálpað að kortleggja tíðahringinn. Í smáforritinu er líka hægt að skrá niður glósur og þar getur þú glósað hversu mörg bindi eða tappa þú notar á hverjum degi. Ef þú þarft t.a.m. að skipta um dömubindi eða tíðatappa á klukkstundar fresti, þá er ráðlegt að hafa samband við kvensjúkdómalækni. Þungar og miklar blæðingar geta verið merki um ýmsa heilsutengda kvilla á borð við vanvirkan skjaldkirtil og jafnvel undirliggjandi blóðsjúkdóma.

Breytingar á blæðingum geta líka bent til að þú sért að nálgast breytingaskeiðið; þeas. ef þú ert komin yfir fertugt en þó getur farið að örla á hormónaójafnvægi strax upp úr þrítugu. Ef breytingarnar eru viðvarandi er engum greiði gerður með að hunsa einkennin; þú ættir þess í stað að leita læknis.

#2 – Ekki hafa áhyggjur; þú ert ekki að fá flensu …

Margar konur upplifa flensulík einkenni í upphafi tíða: Hægðatregðu, flökurleika, kláða og jafnvel svima. Þar er sennilega prostaglandin um að kenna, sama óþverranum og er ábyrgur fyrir sinadrætti og niðurgangi. Líkaminn leysir einmitt prostaglandin úr læðingi í félagi við histamín þegar ofnæmi lætur kræla á sér. Konur sem finna til þessara einkenna í upphafi tíða ættu því að taka inn vænan skammt af lýsi meðan fyrirtíðaspenna stendur yfir, en lýsið hefur bólgueyðandi áhrif sem geta sefað líkamann. Í raun er miklu betra að taka lýsi en Ibufen, þar sem áhrifin geta verið keimlík – en þó aldrei meira en því sem nemur einni matskeið á dag.

#3 – Nei, þú hefur enga afsökun til að borða ALLT súkkulaðið!

Ákveðnar kenningar eru á sveimi í kringum aukna súkkulaðiþörf kvenna meðan á blæðingum stendur; t.a.m. vegna þess að þungar og milkar blæðingar geti haft áhrif á magnesíumforða líkamans, en þar sem súkkulaði er ríkt af steinefninu segja sumir að þar sé komin ástæða þess að konur sæki í súkkulaði meðan á blæðingum stendur. Hér togast á tvær kenndir – þörf og vani. Ef súkkulaðiþörfin verður yfirþyrmandi er því best að narta í dökkt súkkulaði sem er þess utan stútfullt af andoxunarefnum sem vegur upp á móti sykursjokkinu. Láttu mjólkursúkkulaðið hins vegar alveg vera meðan á blæðingum stendur, það er gagnslaust og hræðilega fitandi.

#4 – Þegar kona hættir á pillunni eru óreglulegar blæðingar eðlilegar:

Það er fyllilega eðlilegt að tíðahringurinn komist ekki í fullt lag fyrr en að þremur til sex mánuðum liðnum, eftir að kona hættir á P-pillunni. Stundum tekur jafnvel enn lengri tíma að ná fullkomnu hormónajafnvægi. Það er ekki vegna þess að P-pillan sé hættuleg eða óörugg getnaðarvörn (þó ofnæmisviðbrögð séu sannlega þekkt og ekki það sama henti öllum) – sannleikurinn er einfaldlega sá að P-pillan hindrar líkamann í framleiðslu hormóna sem stuðla að egglosi. Því tekur tíma fyrir líkamann að endurstilla hormónaframleiðsluna. Ef blæðingar eru ekki enn orðnar eðlilegar þegar 6 mánuðir eru liðnir frá því konan hætti að taka P-pilluna er hins vegar rétt að leita læknis. Því eldri sem konan er, því skynsamlegra er að láta ekki lengra en 3 mánuði líka; þeas. ef konan er komin yfir 35 ára markið. Þá er líka skynsamlegt, ef konan vill verða þunguð – að hefja inntöku bætiefna fyrir verðandi mæður strax – þar sem P-pillan gengur oft á B-vítamín birgðir líkamans, sem svo aftur eru líkamanum nauðsynleg meðan á meðgöngu stendur.

#5 – Aldrei ganga út frá því sem vísu að þetta séu BARA tíðaverkir:

Þungar blæðingar og sárir tíðaverkir geta verið merki um annað undirliggjandi vandamál. Sé konan farin að nálgast fertugsaldurinn og upplifir sára og stöðuga tíðaverki er jafnvel skynsamlegt að biðja kvensjúkdómalækni um að framkvæma ómskoðun til að ganga úr skugga um hvort góðkynja æxli er í vexti í leginu. Slíkum æxlisvexti fylgja oft þungar blæðingar og tíðaverkir og þó ekki sé alltaf sú raunin, er oft betra að panta tíma hjá kvensjúkdómalækni ef verkirnir eru viðvarandi, einfaldlega til að útiloka að aðrar og alvarlegri ástæður geti legið að baki sárum tíðaverkjum.

#6 – Vertu á undan – svona getur þú róað þaninn maga fyrirfram:

Hér er þá merkilegur vítamínkokteill sem konur með reglulegar blæðingar ættu alltaf að grípa til u.þ.b. viku áður en blæðingar eiga að hefjast. Taktu 100 til 200 mg af B6 vítamíni, 200 iU af E-vítamíni og 1000 iU af kvöldrósarolíu á hverjum degi. Enginn veit í raun hvers vegna vítamínblandan virkar, en inntaka þessara vítamína saman örvar þvagrennslið (þú þarft að fara oftar á klósettið og pissa) og mögulegt er að inntakan dragi einnig úr framleiðslu Prolactin, sem er hormón og veldur m.a. því að maginn þenst út. Þess utan er kvöldrósarolían rík af Omega-6 fitusýrum og ekki er óvarlegt að áætla að konur þurfi á aukinni inntöku hollra fitusýra að halda meðan á blæðingum stendur. Vítamínblandan er fyllilega örugg, veldur ekki vanlíðan og fær bestu meðmæli margra kvenna.

#7 – Dokaðu bara við í ræktinni – æfingarnar geta beðið:

Veltu þessu aðeins fyrir þér; líkamsrækt krefst úthalds og áreynslu og vöðvarnir þurfa á súrefni að halda til að brenna orku. Þegar konur eru á blæðingum verður líkaminn hins vegar fyrir talsverðu járntapi, sem er steinefnið sem flytur súrefni til vefja líkamans og styður við almenna vöðvafærni. Þess vegna upplifa svo margar konur máttleysi meðan á blæðingum stendur og því er gott að hvíla ræktina aðeins meðan mestu blæðingarnar standa yfir. Betra er að borða grænt kál, rautt kjöt og jafnvel drekka grænan boost. Sumir læknar vilja ganga svo langt að ráðleggja konum sem eru að fara gegnum þyngsta dag mánaðarlegra blæðinga að snæða hreinlega safaríkt nautakjöt með góðu rauðvíni í kvöldverð, en það er auðvitað undir einstaklingnum sjálfum og aðstæðum komið.

#8 – Notkun tíðatappa er ekki banvæn:

Alls kyns flökkusögur hafa gengið um notkun tíðatappa; konur sem sýndu ofnæmisviðbrögð eiga að hafa farið í aflimun vegna bakteríusýkingar sem myndaðist þar sem tíðatappinn var upp i leggöngunum of lengi. Þetta er bull. Ofnæmisviðbrögðin eru til og bera nafnið TSS en einkennin, sem eru m.a. hár hiti, útbrot, uppköst og flökurleiki eru afar sjaldgæf og einungis þrjár af hverjum 100.000 konum sýna alvarleg ofnæmisviðbrögð við notkun túrtappa. Hins vegar er þumalputtareglan þessi; aldrei nota tíðatappa lengur en í fjóra til átta klukkutíma og gættu að því að þú veljir tíðatappa sem hentar fyrir styrk blæðinga að hverju sinni.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!